Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Stríð

Stríð

Ísraelsmenn til forna háðu stríð í nafni Guðs síns, Jehóva. Þýðir það að Guð leggi blessun sína yfir nútímahernað og stríð?

Hvers vegna háðu Ísraelsmenn til forna stríð?

HVAÐ SEGJA SUMIR?

 

Ísraelsmenn tilbáðu grimman „stríðsguð“.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

 

Þjóðirnar, sem Ísraelsmenn sigruðu, voru gerspilltar vegna ofbeldisverka og viðbjóðslegra athafna eins og að hafa mök við dýr, sifjaspell og að fórna börnum sínum. Eftir að hafa gefið þeim nokkrar aldir til að snúa af rangri braut sagði Guð: „Þær þjóðir, sem ég rak í burt á undan ykkur, saurguðu sig með öllu þessu.“ – 3. Mósebók 18:21-25; Jeremía 7:31.

„Það [er] vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér.“ – 5. Mósebók 9:5, Biblían 1981.

Tekur Guð afstöðu í styrjöldum nú á dögum?

HEFURÐU VELT ÞESSU FYRIR ÞÉR?

 

Í hernaðarátökum koma trúarleiðtogar beggja megin stríðslínunnar fram og segja: „Guð er með okkur.“ Bókin The Causes of War segir: „Trúarbrögð hafa átt stóran þátt í stríðum í gegnum alla mannkynssöguna.“

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

 

Kristnum mönnum er óheimilt að berjast gegn óvinum sínum. Páll postuli skrifaði trúbræðrum sínum: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf.“ – Rómverjabréfið 12:18, 19.

Í stað þess að hvetja fylgjendur sína til hernaðar sagði Jesús við þá: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum.“ (Matteus 5:44, 45) Jafnvel þegar landið, sem kristinn maður býr í, fer í stríð ætti hann að vera hlutlaus, það er að segja „ekki af heiminum“. (Jóhannes 15:19) Guð vill að fylgjendur sínir af öllum þjóðernum elski óvini sína og haldi sér aðgreindum frá heiminum – hann færi því ekki að styðja annan deiluaðilann í stríðsátökum.

„Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ – Jóhannes 18:36.

 Munu stríð heyra sögunni til?

HVAÐ SEGJA SUMIR?

 

Stríð eru óumflýjanleg. „Stríð verða háð áfram,“ segir bókin War and Power in the 21st Century. Þar segir einnig: „Það er engin hætta á varanlegum alheimsfriði á þessari öld.“

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

 

Stríð munu stöðvast þegar enginn vill heyja þau. Guðsríki – raunveruleg himnesk stjórn – mun koma því til leiðar með því að afvopna heiminn og kenna mannkyninu að vera friðsamt. Biblían fullvissar okkur um að Guð muni „skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ – Míka 4:3, Biblían 1981.

Biblían segir að þegar Guðsríki tekur völd verða ekki lengur mannlegar stjórnir sem vinna aðeins að eigin hag, óréttlát lög sem þvinga fólk til uppreisnar eða fordómar sem sundra fólki og ýta undir þjóðernishyggju. Þar af leiðandi munu stríð heyra sögunni til. „Enginn mun gera illt, enginn valda skaða,“ lofar Guð, „því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“ – Jesaja 11:9.

„Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar, brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir skildi í eldi.“ – Sálmur 46:10.