Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Var Jesús til í raun og veru?

Var Jesús til í raun og veru?

HANN var hvorki ríkur né valdamikill. Hann átti ekki einu sinni fastan samastað. Þó hefur kennsla hans haft áhrif á milljónir manna. Var Jesús til í raun og veru? Hvað segja fornar heimildir og nútímaheimildir um Jesú?

 • Michael Grant, sagnfræðingur og sérfræðingur í grískri og rómverskri fornmenningu, segir: „Við ættum að leggja sama mat á Nýja testamentið og á önnur fornrit með sögulegu efni. Ef við gerum það getum við ekki afneitað tilvist Jesú frekar en tilvist fjölda heiðinna sögupersóna sem aldrei er dregið í efa að hafi verið til.“

 • Rudolf Bultmann, prófessor í nýjatestamentisfræðum, segir: „Enginn grundvöllur er fyrir því að efast um að Jesús hafi verið til og alger óþarfi að rökræða um það. Enginn með fullu viti getur dregið í efa að Jesús sé stofnandi sannsögulegrar hreyfingar sem kom fyrst fram á sjónarsviðið með elsta samfélagi kristinna manna í Palestínu.“

 • Will Durant, sagnfræðingur, rithöfundur og heimspekingur, skrifaði: „Ef fáeinir einfaldir alþýðumenn [guðspjallaritararnir] hefðu á einum mannsaldri búið til svo máttugan og hrífandi persónuleika, svo háleita siðfræði og svo frjóvgandi framtíðarsýn um bræðralag mannanna, þá hefði það í sannleika verið enn meira undur heldur en nokkurt þeirra kraftaverka sem frá er sagt í guðspjöllunum.“

 • Albert Einstein var þýskur Gyðingur og eðlisfræðingur. Hann sagði berum orðum: „Ég er Gyðingur en ég heillast af þessum einstaka manni frá Nasaret.“ Þegar Einstein var spurður hvort hann teldi Jesú vera sannsögulega persónu svaraði hann: „Tvímælalaust! Enginn getur lesið guðspjöllin án þess að finna fyrir nærveru Jesú. Persónuleiki hans slær taktinn í hverju orði. Enginn goðsögn er svona lifandi.“

  „Enginn getur lesið guðspjöllin án þess að finna fyrir nærveru Jesú.“ – Albert Einstein.

HVAÐ SEGJA SÖGUHEIMILDIR?

Ýtarlegasta heimildin um ævi Jesú og þjónustu er skráð í guðspjöllunum í Biblíunni. Guðspjöllin eru nefnd eftir riturum þeirra – Matteusi, Markúsi, Lúkasi og Jóhannesi. Þar að auki er Jesús nefndur í nokkrum fornum ritum sem tengjast ekki kristninni.

 • TACÍTUS

  (um 56-120) Tacítus er talinn einn fremsti sagnaritari Rómverja. Í annálum sínum skráir hann sögu Rómaveldis frá árinu 14 til 68. (Jesús dó árið 33.) Tacítus skrifaði að Neró keisari hafi verið talinn eiga sök á miklum eldum sem lögðu Róm í rúst árið 64. En Tacítus sagði að til að „kveða niður orðróminn“ hafi Neró ákært kristna menn um verknaðinn. Síðan segir Tacítus: „Kristus, sá sem þeir [kristnir menn] voru kenndir við, var dæmdur til dauða og líflátinn af Pontíusi Pílatusi skattlandsstjóra, á veldisdögum Tíberíusar.“ – Annales XV, 44.

 • SVETÓNÍUS

  (um 69-um 122) Í bók sinni De Vita Caesarum skráði þessi rómverski sagnfræðingur atburði sem gerðust í valdatíð fyrstu 11 keisara Rómaveldis. Sá hluti bókarinnar, sem fjallar um Kládíus, talar um ólgu meðal Gyðinga í Róm sem byrjaði líklega vegna deilna um Jesú. (Postulasagan 18:2) Svetóníus skrifaði: „Þar sem Gyðingar höfðu valdið sífelldum óspektum að áeggjan Krestusar [Krists] gerði hann [Kládíus] þá útlæga úr Róm.“ (Divus Claudius, XXV, 4) Svetóníus sakaði Jesú ranglega um að vekja deilur – en hann efaðist ekki um að Jesús hefði verið til.

 • PLÍNÍUS YNGRI

  (um 61-113) Þessi rómverski rithöfundur og embættismaður í Biþýníu (nú Tyrkland) skrifaði Trajanusi, keisara í Róm, um hvernig best væri að taka á kristnum mönnum í héraðinu. Hann sagðist reyna að þvinga kristna menn til að afneita trúnni með því að taka af lífi hvern þann sem þrjóskaðist við. Hann sagði: „Þeim sem ... höfðu eftir mér bæn til [heiðnu] guðanna og færðu vín og reykelsi að fórn frammi fyrir styttu af þér ... og formæltu Kristi að lokum ... taldi ég rétt að sleppa úr haldi.“ – Plinius – Epistulae, bók X, XCVI.

 • FLAVÍUS JÓSEFUS

  (um 37-100) Þessi gyðingaprestur og sagnaritari segir um Annas sem var æðstiprestur Gyðinga og hafði pólitísk ítök: „Hann kallaði saman dómara æðstaráðs Gyðinga og færði fyrir þá mann sem heitir Jakob, bróður Jesú sem kallaður var Kristur.“ – Antiquitates Judaicae, XX, 200.

 • TALMÚÐINN

  Safn rabbínarita frá þriðju öld til þeirrar sjöttu sýnir fram á að jafnvel óvinir Jesú staðfestu tilvist hans. Í einu riti segir: „Jesús frá Nasaret var hengdur á páskum.“ Þetta kemur heim og saman við sögulegar heimildir. (Talmúð frá Babýlon, Sanhedrin 43a, München-handritið; sjá Jóhannes 19:14-16.) Í öðru riti stendur: „Við biðjum þess að geta ekki af okkur nokkurn son eða frá okkur komi nokkur nemandi sem verði sér til skammar opinberlega eins og maðurinn [Jesús] frá Nasaret.“ – Talmúð frá Babýlon, Berakoth 17b, neðanmáls, München-handritið; sjá Lúkas 18:37.

HEIMILDIR ÚR BIBLÍUNNI

Guðspjöllin hafa að geyma nákvæma frásögn af ævi og þjónustu Jesú. Meðal annars er þar að finna ýtarlegar upplýsingar um fólk, staði og tíma en það er aðalsmerki áreiðanlegra heimilda. Eitt dæmi er að finna í Lúkasi 3:1, 2 sem tilgreinir nákvæmlega hvenær Jóhannes skírari hóf starf sitt, en hann undirbjó komu Jesú.

„Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Lúkas skrifar: „Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.“ Þessi nákvæma og ítarlega upptalning staðfestir að „orð Guðs [kom] til Jóhannesar“ árið 29.

Þessir sjö opinberu embættismenn, sem Lúkas nefnir, eru sagnfræðingum vel kunnir. Um tíma drógu að vísu sumir gagnrýnendur í efa að Pontíus Pílatus og Lýsanías hefðu verið til. En þeir voru of fljótir á sér því að síðar fundust fornar áletranir með nöfnum þessara tveggja embættismanna. Þær sanna að frásögn Lúkasar er nákvæm. *

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Jesús fræddi fólk um ríki Guðs sem er heimsstjórn.

Hvers vegna er mikilvægt að vita hvort Jesús var til? Vegna þess að það sem hann kenndi skiptir máli. Hann kenndi fólki til dæmis hvernig hægt væri að lifa hamingjuríku og innihaldsríku lífi. * Þar að auki lofaði hann að sá tími kæmi að mannkynið fengi að búa við sannan frið og öryggi, sameinað undir einni heimsstjórn sem hann kallaði „Guðs ríki“. – Lúkas 4:43.

Það á vel við að kalla þessa heimsstjórn „Guðs ríki“ því að fyrir tilstuðlan hennar mun Guð ríkja yfir jörðinni. (Opinberunarbókin 11:15) Jesús gaf það skýrt til kynna í faðirvorinu: „Faðir vor, þú sem ert á himnum ... til komi þitt ríki ... á jörðu.“ (Matteus 6:9, 10) Hvað mun stjórn Guðs gera fyrir mannkynið? Hugleiddu eftirfarandi:

Sumum finnst þessi loforð kannski bara óskhyggja. En er ekki óskhyggja að treysta á að menn geti lagfært ástandið? Hugleiddu þetta: Þrátt fyrir gríðarlegar framfarir í menntun, vísindum og tækni finna milljónir manna til óöryggis og vita ekki hvaða framtíð bíður þeirra. Við sjáum daglega merki þess að fólk er kúgað vegna ágirndar og spillingar í efnahagsmálum, stjórnmálum og trúmálum. Staðreyndin er sú að stjórnir manna hafa brugðist. – Prédikarinn 8:9.

Spurningin um það hvort Jesús hafi verið til í raun og veru er að minnsta kosti verð íhugunar. * Í 2. Korintubréfi 1:19, 20 sjáum við hvers vegna. Þar segir: „Svo mörg sem fyrirheit Guðs eru þá lætur hann Jesú Krist staðfesta þau með ,jái‘.“

^ gr. 23 Fundist hefur áletrun þar sem „fjórðungsstjóri“ að nafni Lýsanías er nafngreindur. (Lúkas 3:1) Hann fór með stjórn í Abílene á þeim tíma sem Lúkas nefnir.

^ gr. 25 Finna má gott dæmi um kennslu Jesú í fjallræðunni í 5. til 7. kafla Matteusar.

^ gr. 32 Nánari upplýsingar um Jesú og kennslu hans er að finna á www.jw.org/is undir BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUSPURNINGAR.