Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Freistingar

Freistingar

Hjónaskilnaðir, heilsuleysi og samviskubit. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um slæmar afleiðingar þess að láta undan freistingum. Hvernig getum við varast að falla í þá gryfju?

Hvað er freisting?

Maður verður fyrir freistingu þegar eitthvað lokkar mann, sérstaklega það sem maður ætti að forðast. Tökum dæmi: Þú sérð hlut sem þig langar í úti í búð. Þeirri hugsun skýtur upp í hugann að þú getir auðveldlega stolið honum án þess að það komist upp um þig. En samviskan bannar þér það. Þú vísar hugsuninni á bug og hefur þar með sigrast á freistingunni.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

 

Sá sem verður fyrir freistingu er ekki endilega vond manneskja. Í Biblíunni kemur fram að við verðum öll fyrir freistingum. (1. Korintubréf 10:13, Biblían 1981) Það sem skiptir máli er hvernig við bregðumst við freistingunum. Sumir láta hugann dvelja við rangar langanir og láta svo undan þeim að lokum. Aðrir eru fljótir að vísa röngum löngunum á bug.

„Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“ – Jakobsbréfið 1:14.

Hvers vegna er skynsamlegt að bregðast fljótt við þegar okkar er freistað?

Biblían lýsir ferlinu sem leiðir til rangra verka. Í Jakobsbréfinu 1:15 stendur: „Þegar girndin ... er orðin þunguð elur hún synd.“ Með öðrum orðum, ef við látum hugann dvelja við ranga löngun látum við undan henni fyrr eða síðar – það er jafn óumflýjanlegt og að ófrísk kona muni fæða barn. En við þurfum ekki að vera þrælar rangra langana. Við getum haft stjórn á þeim.

HVERNIG GETUR BIBLÍAN HJÁLPAÐ?

 

Við getum leyft huganum að ala á röngum löngunum, en við getum líka bægt þeim frá okkur. Hvernig? Með því að gera eitthvað annað – tala við góðan vin, leiða hugann að einhverju heilnæmu eða hreyfa okkur. (Filippíbréfið 4:8) Það er líka gagnlegt að hugleiða hvaða afleiðingar það hefði að láta undan freistingunni. Við gætum til dæmis orðið fyrir tilfinningalegum skaða, líkamlegu tjóni eða skaðað samband okkar við Guð. (5. Mósebók 32:29, Biblían 1981) Bænin getur líka hjálpað okkur mikið. Jesús Kristur sagði: „Biðjið svo að þið fallið ekki í freistni.“ – Matteus 26:41.

„Villist ekki. Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ – Galatabréfið 6:7.

 Hvernig geturðu staðið betur að vígi gegn freistingum?

RAUNVERULEIKINN

 

Sjáðu freistingar í réttu ljósi. Þær eru agn, eða tálbeita, sem getur lokkað út á hættulega braut þá sem eru óskynsamir, reynslulausir eða ógætnir. (Jakobsbréfið 1:14) Það á sérstaklega við um freistingar til kynferðislegs siðleysis en þær geta haft skelfilegar afleiðingar. – Orðskviðirnir 7:22, 23.

HVERNIG GETUR BIBLÍAN HJÁLPAÐ?

 

Jesús sagði: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matteus 5:29) Hann var að sjálfsögðu ekki að meina að við ættum bókstaflega að rífa augað úr okkur. Hann átti við að ef við viljum þóknast Guði og fá eilíft líf þurfum við að deyða hið jarðbundna í fari okkar hvað varðar ranga breytni. (Kólossubréfið 3:5) Við getum því þurft að vera mjög einbeitt til að bægja frá okkur freistingum. Trúfastur maður bað til Guðs: „Snú augum mínum frá hégóma.“ – Sálmur 119:37.

Auðvitað getur verið erfitt að hafa stjórn á sér enda er „holdið veikt“. (Matteus 26:41) Við gerum öll mistök. En ef við sjáum innilega eftir því sem okkur verður á og reynum eftir fremsta megni að leggja það ekki í vana að gera rangt, er Jehóva Guð, skapari okkar, „náðugur og miskunnsamur“ við okkur. (Sálmur 103:8) Það er ákaflega hughreystandi.

„Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ – Sálmur 130:3.