Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Fegurð

Fegurð

Heilbrigt viðhorf til útlits og fegurðar getur skipt sköpum um hvort maður er hamingjusamur eða ekki.

Hvers vegna kunnum við að meta fegurð?

Menn skilja ekki enn hvernig mannsheilinn skynjar fegurð. Biblían útskýrir það ekki, en hún sýnir hvers vegna við kunnum að meta fegurð. Guð gaf okkur þennan eiginleika. (1. Mósebók 1:27; Prédikarinn 3:11) Hann skapaði líka fallegan og margbrotinn mannslíkamann. Lagahöfundur til forna söng um það: „Ég lofa þig [Guð] fyrir það að ég er undursamlega skapaður.“ – Sálmur 139:14.

Viðhorf fólks nú á dögum til útlits og fegurðar er hins vegar oft brenglað, mótað af tískuiðnaðinum og vinsælu efni í fjölmiðlum. Í bókinni Body Image kemur fram að margar rannsóknir á Vesturlöndum gefi til kynna að „líkamsmyndin skipti mestu máli fyrir sjálfsmynd fólks“. Að sjá hlutina frá svona þröngu sjónarhorni getur orðið til þess að menn gefi engan gaum að því sem skiptir mun meira máli – hjartalaginu. – 1. Samúelsbók 16:7.

Margir leggja óeðlilega mikla áherslu á líkamsmynd og kynþokka.

Mikið er einblínt á útlit líkamans og jafnframt er lögð ofuráhersla á kynþokka, sérstaklega kynþokka kvenna. Samtök bandarískra sálfræðinga (APA) gáfu út greinargerð árið 2007 þar sem segir: „Nánast allir fjölmiðlar, sem voru skoðaðir, sýna augljós merki um kynlífsvæðingu á konum.“ Í Biblíunni erum við eindregið hvött til að varast að láta smitast af slíkum hugsunarhætti – og ekki að ástæðulausu. – Kólossubréfið 3:5, 6.

„Skart ykkar sé ekki ytra skraut ... heldur hinn huldi maður hjartans, búinn óforgengilegri fegurð hógværs og hljóðláts anda. Þetta er dýrmætt í augum Guðs.“ – 1. Pétursbréf 3:3, 4.

Hvers vegna er skynsamlegt að gæta jafnvægis?

Stundum er sagt við fólk að það eigi ekki að fela flottan vöxt ef það hefur hann. Í löndum þar sem slíkur hugsunarháttur er algengur læra stúlkur frá unga aldri að líta svo á að líkamanum sé ætlað að „uppfylla langanir annarra ... að hann sé eitthvað fyrir aðra að horfa á og meta eftir útlitinu“, segir í greinargerð frá APA. Þetta  viðhorf getur verið mjög skaðlegt og það er reyndar mikið áhyggjuefni bæði félagslega og heilsufarslega. Að sögn APA getur það haft í för með sér „fjölda tilfinningalegra vandamála“, þar á meðal „kvíða og jafnvel sjálfsfyrirlitningu ... átraskanir, lítið sjálfstraust og þunglyndi eða leiða“.

„Vísaðu gremju burt frá hjarta þínu og láttu ekki böl koma nærri líkama þínum því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.“ – Prédikarinn 11:10.

Hvað er heilbrigt viðhorf?

Biblían fer fögrum orðum um látleysi og hógværð. (1. Tímóteusarbréf 2:9) Hugleiddu þetta: Hógvært fólk er ekki yfirborðslegt eða hégómlegt og yfirmáta upptekið af útlitinu. Það hefur heilbrigt og öfgalaust álit á sjálfu sér. Slíkt fólk tekur einnig tillit til tilfinninga annarra og ávinnur sér þannig virðingu þeirra og aðdáun. Síðast en ekki síst nýtur það hylli Guðs. (Míka 6:8) Það á líka auðveldara með að eignast sanna vini og vera aðlaðandi í augum hugsanlegs maka sem hefur áhuga á farsælu og hamingjuríku hjónabandi en ekki einungis líkamlegu sambandi.

Margar góðar ástæður eru fyrir því að Biblían hvetur okkur til að huga að okkar innri manni – ,hinum hulda manni hjartans‘. (1. Pétursbréf 3:3, 4) Innri fegurð fölnar ekki. Hún getur jafnvel aukist með tímanum. „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana,“ segir í Orðskviðunum 16:31. Ráð Biblíunnar eru afburðagóð fyrir fólk á öllum aldri. Þeir sem fara eftir þeim finna lykilinn að ánægju, reisn og fegurð sem endist.

„Yndisþokkinn er svikull og fegurðin hverful en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið.“ – Orðskviðirnir 31:30.