Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað segir Biblían um samkynhneigð?

Hvað segir Biblían um samkynhneigð?

HJÓNABÖND samkynhneigðra eru enn deiluefni víða um heim. Árið 2015 úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna þó að hjónabönd samkynhneigðra væru lögleg í öllum ríkjum landsins. Í kjölfarið leitaði fólk upplýsinga um efnið á Netinu og ein algengasta spurningin á leitarsíðunum var: „Hvað segir Biblían um hjónabönd samkynhneigðra?“

Í Biblíunni er ekki fjallað um lagaleg réttindi fólks af sama kyni til að gifta sig. En hvað segir Biblían um samkynhneigð?

Margir telja sig vita hvað Biblían segir án þess að hafa kynnt sér það vel, en þeim ber ekki saman. Sumir halda því fram að Biblían fordæmi samkynhneigð. Aðrir segja að með boðorðinu um að ,elska náungann‘ leggi Biblían blessun sína yfir alla kynhegðun fólks. – Rómverjabréfið 13:9.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Hver af þessum fullyrðingum heldur þú að sé rétt?

  1. Biblían fordæmir kynlíf samkynhneigðra.

  2. Biblían samþykkir kynlíf samkynhneigðra.

  3. Biblían ýtir undir hatur eða fordóma í garð samkynhneigðra.

SVÖR:

  1. RÉTT. Biblían segir: „Enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar ... fær að erfa Guðs ríki.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Það sama á við um konur. – Rómverjabréfið 1:26.

  2. RANGT. Biblían kennir að kynlíf sé aðeins leyfilegt á milli karls og konu sem eru í hjónabandi. – 1. Mósebók 1:27, 28; Orðskviðirnir 5:18, 19.

  3. RANGT. Þó að Biblían fordæmi kynlíf samkynhneigðra hvetur hún alls ekki til fordóma, hatursglæpa né annarrar illrar meðferðar á samkynhneigðu fólki. – Rómverjabréfið 12:18. [1]

 Hverju trúa vottar Jehóva?

Vottar Jehóva trúa því að siðferðisreglur Biblíunnar séu bestu lífsreglurnar og þeir kjósa að lifa eftir þeim. (Jesaja 48:17) [2] Þess vegna forðast vottar Jehóva alla ranga kynhegðun, þar á meðal kynhegðun samkynhneigðra. (1. Korintubréf 6:18) [3] Þannig kjósa vottarnir að lifa lífi sínu og þeir hafa fullan rétt á því.

Vottar Jehóva leggja sig fram um að fylgja gullnu reglunni með því að koma fram við aðra eins og þeir vilja að aðrir komi fram við þá.

Vottar Jehóva reyna þar að auki að ,stunda frið við alla menn‘. (Hebreabréfið 12:14) Þó að þeir samþykki ekki kynhegðun samkynhneigðra þröngva þeir ekki skoðun sinni upp á aðra. Þeir taka ekki heldur þátt í hatursglæpum eða fagna þegar samkynhneigðir eru beittir ofbeldi. Vottar Jehóva leggja sig fram um að fylgja gullnu reglunni með því að koma fram við aðra eins og þeir vilja að aðrir komi fram við þá. – Matteus 7:12.

Hvetur Biblían til fordóma?

Sumir segja að Biblían ýti undir fordóma gegn samkynhneigðum og að þeir sem fylgja siðferðisreglum hennar séu umburðarlausir. Þeir halda því fram að fólk hafi verið þröngsýnt á þeim tíma sem Biblían var skrifuð en að nú á dögum taki fólk öllum opnum örmum sama hver kynþáttur, þjóðerni eða kynhegðun fólks er. Þeim finnst það að hafna líferni samkynhneigðra jafngilda því að hafna fólki með annan hörundslit. En er það sambærilegt? Nei. Hvers vegna ekki?

Það er munur á því að samþykkja ekki líferni samkynhneigðra og að hafna fólki sem er samkynhneigt. Biblían segir kristnum mönnum að virða alla menn. (1. Pétursbréf 2:17) [4] En það þýðir ekki að þeir eigi að samþykkja alls konar líferni.

Til samanburðar: Segjum að þú teljir reykingar vera skaðlegar og jafnvel ógeðslegar. En vinnufélagi þinn reykir. Væri þröngsýnt af þér að hafa ekki sömu skoðun á reykingum og hann? Ertu fordómafullur gagnvart honum af því að þú reykir ekki líka? Væri það ekki þröngsýni og skortur á umburðarlyndi hjá vinnufélaga þínum ef hann krefðist þess að þú breyttir viðhorfi þínu til reykinga?

Vottar Jehóva velja að lifa eftir siðferðisreglum Biblíunnar. Þeir leggja ekki blessun sína yfir hegðun sem Biblían fordæmir. En þeir koma ekki illa fram við eða hæðast að fólki sem hegðar sér öðruvísi en þeir.

Er afstaða Biblíunnar miskunnarlaus?

Hvernig er með fólk sem hneigist að sama kyni? Fæðist það þannig? Og ef svo er, væri þá ekki miskunnarlaust að banna þeim að hegða sér í samræmi við það?

Biblían segir ekkert um líffræðilegar ástæður samkynhneigðar þó að hún bendi á að sumir eiginleikar og hegðun manna sé rótgróin. Samt sem áður segir Biblían að ef við viljum þóknast Guði þurfum við að varast ákveðna hegðun – þar með talda kynhegðun sem beinist að eigin kyni. – 2. Korintubréf 10:4, 5.

Sumir myndu segja að afstaða Biblíunnar sé miskunnarlaus. En sú fullyrðing byggist á þeim forsendum að við verðum að láta undan hvötum okkar eða að kynhvötin sé það mikilvæg að við ættum ekki að stjórna henni eða að það sé jafnvel ekki hægt. Í Biblíunni er mönnum aftur á móti ætlað að geta haft stjórn á hvötum sínum. Ólíkt dýrunum geta menn valið að láta ekki undan löngunum sínum. – Kólossubréfið 3:5. [5]

Til samanburðar: Sumir sérfræðingar segja að ákveðin hegðunareinkenni, eins og árásarhneigð, geti átt sér líffræðilegar orsakir. Biblían minnist ekki sérstaklega á líffræðilegar ástæður árásarhneigðar en hún bendir á að sumir séu ,reiðigjarnir‘  og ,skapbráðir‘. (Orðskviðirnir 22:24; 29:22) Þó segir í Biblíunni: „Lát af reiði, slepp heiftinni.“ – Sálmur 37:8; Efesusbréfið 4:31.

Fáir myndu mótmæla þessu ráði eða segja að það væri miskunnarlaust gagnvart þeim sem eru árásarhneigðir. Sérfræðingar vinna hörðum höndum að því að hjálpa einstaklingum að ná tökum á slíkum hneigðum – jafnvel sérfræðingar sem trúa að reiðigirni sé í genunum.

Vottar Jehóva hafa sömu afstöðu til allrar hegðunar sem stangast á við siðferðiskröfur Biblíunnar, þar á meðal kynlífs fólks af gagnstæðu kyni sem er ekki í hjónabandi. Þetta ráð Biblíunnar á við í öllum slíkum tilvikum: „Sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri en ekki í losta.“ – 1. Þessaloníkubréf 4:4, 5.

„Þannig voruð þið sumir hverjir“

Þeir sem gerðust kristnir á fyrstu öldinni höfðu ólíkan bakgrunn og höfðu stundað alls kyns líferni. Sumir þeirra gerðu miklar breytingar á lífi sínu. Til dæmis talar Biblían um þann „sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi“ og ,karlmenn sem láta nota sig eða nota aðra til ólifnaðar‘, en síðan bætir hún við: „Þannig voruð þið sumir hverjir.“ – 1. Korintubréf 6:9-11.

Á Biblían við að þeir sem áður höfðu stundað kynmök við einhvern af sama kyni væru hættir að upplifa slíkar langanir þegar hún segir: „þannig voruð þið sumir hverjir“? Varla, því að Biblían hvetur: „Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins.“ – Galatabréfið 5:16.

Taktu eftir að Biblían segir ekki að kristinn einstaklingur muni aldrei finna fyrir röngum löngunum. Hún segir öllu heldur að hann velji að láta ekki undan lönguninni. Kristnir menn ná tökum á slíkum löngunum í stað þess að leyfa huganum að dvelja við þær þar til freistingin verður of sterk. – Jakobsbréfið 1:14, 15. [6]

Við sjáum því að í Biblíunni er gerður greinarmunur á tilhneigingu og verknaði. (Rómverjabréfið 7:16-24) Manneskja, sem hneigist að eigin kyni, getur ákveðið hvort hún vilji leyfa huganum að dvelja við slíkar langanir, alveg eins og aðrar rangar langanir sem geta leitt til reiði, framhjáhalds og ágirndar. – 1. Korintubréf 9:27; 2. Pétursbréf 2:14, 15.

Þó að vottar Jehóva fari eftir þeim siðferðisreglum, sem er að finna í Biblíunni, þröngva þeir ekki skoðunum sínum upp á aðra. Þeir reyna ekki heldur að fá lögum breytt sem verja mannréttindi þeirra sem lifa öðruvísi en þeir sjálfir. Vottar Jehóva boða gleðilegan boðskap og eru ákafir að miðla honum til allra sem vilja hlusta. – Postulasagan 20:20.

^ 1. Rómverjabréfið 12:18: „Hafið frið við alla menn.“

^ 2. Jesaja 48:17: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er.“

^ 3. 1. Korintubréf 6:18: „Forðist saurlifnaðinn!“

^ 4. 1. Pétursbréf 2:17: „Virðið alla menn.“

^ 5. Kólossubréfið 3:5: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta.“

^ 6. Jakobsbréfið 1:14, 15: „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd.“