Varanleg lækning
Milljónir manna hafa tileinkað sér meginreglurnar sem talað er um í þessu blaði og tekist vel að uppræta fordóma sína. En það er ekki raunhæft að ætla að við getum útrýmt fordómum algerlega á eigin spýtur. Er baráttan þá vonlaus?
Fullkomin stjórn
Stjórnum manna hefur ekki tekist að útrýma fordómum. Þýðir það að engri stjórn muni nokkurn tíma takast það?
Til að stjórn geti upprætt fordóma þarf hún að gera eftirfarandi:
1. Kveikja löngun hjá fólki til að breyta hugarfari sínu gagnvart öðrum.
2. Lækna sár sem gera fólki erfitt að koma fram við aðra af sanngirni.
3. Skipa heiðarlega leiðtoga sem meta alla þegnana jafnt.
4. Sameina fólk af öllum þjóðum.
Biblían fullvissar okkur um að Guð hafi sett á stofn slíka stjórn. Hún er kölluð „ríki Guðs“. – Lúkas 4:43.
Skoðum hvað þessi stjórn mun færa þegnum sínum.
1. Kennsla í góðu siðferði
,Jarðarbúar læra réttlæti.‘ – JESAJA 26:9.
„Ávöxtur réttlætisins verður friður og afrakstur réttlætisins hvíld og öryggi um eilífð.“ – JESAJA 32:17.
Hvað merkir það? Ríki Guðs kennir fólki hvað er rétt. Þegar fólk lærir að greina rétt frá röngu – réttlæti frá ranglæti – breytist viðhorf þess hvert til annars. Allir skilja þá að það er rétt að sýna alls konar fólki kærleika.
2. Lækning á sárum
Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til. Það sem áður var er horfið.“ – OPINBERUNARBÓKIN 21:4.
Hvað merkir það? Ríki Guðs mun binda enda á alla kvöl af völdum óréttlætis. Þeir sem hafa þurft að þola illa meðferð hafa ekki lengur ástæðu til finna til haturs.
3. Góð forysta
„Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.“ – JESAJA 11:3, 4.
Hvað merkir það? Jesús Kristur er konungur í ríki Guðs á himnum. Hann mun stjórna yfir allri jörðinni með sanngirni og óhlutdrægni. Jesús tekur ekki eina þjóð fram yfir aðra og hann getur tryggt að réttlátum lögum sínum sé fylgt um allan heim.
4. Eining
Ríki Guðs kennir okkur „að vera einhuga, bera sama kærleika hvert til annars og vera algerlega sameinuð með sama hugarfari“. – FILIPPÍBRÉFIÐ 2:2.
Hvað merkir það? Einingin meðal þegna ríkis Guðs verður ekki aðeins á yfirborðinu. Þeir verða ,algerlega sameinaðir‘ vegna þess að þeir bera sannan kærleika hver til annars.