Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjölskyldulíf og vináttubönd

Fjölskyldulíf og vináttubönd

Mörgum finnst erfitt að viðhalda sterkum fjölskyldu- og vináttuböndum. Skoðum nokkrar meginreglur Biblíunnar sem geta hjálpað þér að bæta samband þitt við aðra.

VERTU ÓEIGINGJARN

MEGINREGLA: „Hugsið ekki aðeins um ykkar eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.

HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR? Farsæl sambönd snúast meira um að gefa en að þiggja. Ef þú ert eigingjarn getur það haft skaðleg áhrif á samband þitt við aðra. Til dæmis gæti sá sem er eigingjarn orðið maka sínum ótrúr. Og enginn vill eiga vin sem er alltaf að monta sig af því sem hann á eða veit. Þess vegna segir í bókinni The Road to Character: „Sjálfselska leiðir til margra vandamála.“

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Hjálpaðu öðrum. Góðir vinir treysta hver öðrum og eru alltaf tilbúnir að hjálpa hver öðrum. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hjálpa öðrum þjást síður af þunglyndi og bera meiri virðingu fyrir sjálfum sér.

  • Sýndu samúð. Samúð hefur verið lýst þannig að við finnum fyrir sársauka annarra í hjarta okkar. Ef þú sýnir samúð er ekki líklegt að þú notir meiðandi orð, það er að segja sért kaldhæðinn eða hvass til að særa tilfinningar annarra.

    Þegar þú sýnir öðrum samúð verðurðu einnig umburðarlyndari í garð þeirra. Samúð getur því hjálpað þér að vera fordómalaus og eignast vini af ólíkum menningarheimum og uppruna.

  •   Gefðu af tíma þínum. Þú kynnist fólki betur eftir því sem þú verð meiri tíma með þeim. Þú verður að eiga innihaldsríkar samræður til að eignast sanna vini. Vertu því góður hlustandi og sýndu áhuga á því sem vinum þínum liggur á hjarta. Í nýlegri könnun kemur fram að „innihaldsríkar samræður geti í raun gert fólk hamingjusamara“.

VANDAÐU VALIÐ Á VINUM

MEGINREGLA: „Vondur félagsskapur spillir góðu siðferði.“ – 1. Korintubréf 15:33, neðanmáls.

HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR? Fólkið sem þú verð tíma með hefur mikil áhrif á þig – til góðs eða ills. Félagsfræðingar eru sammála um að vinir geti haft sterk áhrif á líf okkar. Þeir segja til dæmis að ef þú ert mikið innan um fólk sem reykir eða er að skilja sé líklegra að þú byrjir að reykja eða viljir skilnað.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT: Veldu þér vini sem sýna eiginleika og hafa gildi sem þú metur mikils og vilt líkja eftir. Leitastu til dæmis við að vera með þeim sem eru nærgætnir, kurteisir, örlátir og gestrisnir.

FLEIRI MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR

Horfðu á biblíutengd myndskeið sem eru gerð til að hjálpa hjónum, unglingum og börnum að bæta fjölskyldulífið.

FORÐASTU AÐ SÆRA AÐRA MEÐ TALI ÞÍNU.

„Vanhugsuð orð eru sem sverðalög.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 12:18.

SÝNDU ÖRLÆTI.

„Örlátur maður hlýtur ríkulega umbun.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 11:25.

KOMDU FRAM VIÐ AÐRA EINS OG ÞÚ VILT AÐ KOMIÐ SÉ FRAM VIÐ ÞIG.

„Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.“ – MATTEUS 7:12.