Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 HJÁLP FYRIR SYRGJENDUR

Við hverju má búast?

Við hverju má búast?

Hver manneskja syrgir á sinn hátt þó að sumir sérfræðingar tali um sorgarferlið í fyrir fram ákveðnum stigum. Og þó að fólk fylgi ekki fyrir fram ákveðnu sorgarferli, er það ekki endilega að bæla niður tilfinningar sínar eða er minna sorgmætt vegna ásvinamissis. Þrátt fyrir að það geti verið gott fyrir mann að tjá sorgina og loka ekki á hana er ekki hægt að segja að það sé aðeins ein „rétt leið“ til að syrgja. Margt spilar þar inn í, meðal annars bakgrunnur, persónuleiki og lífsreynsla ásamt því hvernig ástvinurinn lést.

HVERSU ERFITT VERÐUR ÞAÐ?

Aðstandendur átta sig ekki alltaf á því sem er í vændum þegar ástvinur deyr. Búast má við ákveðnum erfiðleikum svo sem eftirfarandi:

Tilfinningarnar gagntaka mann. Margir fá grátköst, skapsveiflur eða finna fyrir sárum söknuði. Ljóslifandi minningar og draumar um hinn látna geta komið róti á tilfinningarnar. Fyrstu viðbrögðin eru þó oft áfall og afneitun. Kona að nafni Tiina missti manninn sinn, Timo, skyndilega. Hún lýsir viðbrögðum sínum: „Í fyrstu var ég dofin og gat ekki einu sinni grátið. Ég var svo yfirbuguð af sorg að stundum átti ég erfitt með að anda. Ég gat bara ekki trúað því að þetta hafði gerst.“

Kvíðaköst, reiði og sektarkennd eru algeng. „Eric, sonur okkar, var 24 ára þegar hann dó. Við Yolanda, konan mín, vorum mjög reið í þó nokkurn tíma eftir að hann lést,“ segir Ivan. „Það kom okkur á óvart því að við vorum ekki vön að vera reið. Þar að auki þjakaði sektarkenndin okkur því að við veltum fyrir okkur hvort við hefðum getað gert meira til að hjálpa honum.“ Alejandro, sem missti eiginkonu sína eftir langvarandi veikindi, var líka með samviskubit. Hann segir: „Ég hugsaði sem svo að fyrst Guð leyfði að ég fyndi til svona mikillar sorgar hlyti ég að vera vond manneskja. En svo leið mér illa yfir því að kenna Guði um það sem hafði gerst.“ Kostas, sem rætt var um í síðustu grein, segir: „Ég var stundum reiður út í Sophiu fyrir að hafa dáið. En svo fékk ég samviskubit. Auðvitað var þetta ekki henni að kenna.“

Erfitt að stjórna huganum. Hugsanir manns geta af og til orðið órökréttar eða stefnulausar. Til dæmis getur syrgjandi haldið sig finna fyrir, sjá eða heyra í hinum látna. Sumum finnst erfitt að einbeita sér eða verða gleymnir. Tiina segir: „Stundum var ég í samræðum við fólk en hugurinn var víðs fjarri. Ég var á fullu að hugsa um allt sem tengdist dauða Timos. Ég gat ekki einbeitt mér og það eitt og sér var farið að valda mér streitu.“

Að einangra sig. Þeim sem syrgir getur fundist óþægilegt eða jafnvel ergilegt að vera innan um aðra. Kostas segir: „Mér leið eins og ég væri fimmta hjólið undir vagni þegar ég var með vinahjónum mínum. En mér fannst ég ekki heldur falla í hópinn með einhleypu fólki.“ Yolanda, kona Ivans, rifjar upp sína reynslu: „Það var svo erfitt að vera innan um fólk sem kvartaði yfir vandamálum sínum sem voru smávægileg í samanburði við okkar. Þar að auki sögðu sumir okkur frá því hversu vel gengi hjá krökkunum sínum. Ég samgladdist þeim en átti jafnframt erfitt með að hlusta á þá. Við hjónin skildum að lífið heldur áfram en við höfðum bara ekki þolinmæði eða nokkra löngun til að taka þátt í slíkum samræðum.“

Heilsuleysi. Aukin eða minnkandi matarlyst, líkamsþyngd eða svefn eru algeng vandamál. Aaron rifjar upp árið eftir að hann missti föður sinn: „Ég átti mjög erfitt með svefn. Ég vaknaði upp á sama tíma á hverri nóttu við hugsanir um dauða pabba míns.“

 Alejandro segist hafa fundið fyrir óútskýranlegum kvillum. Hann segir: „Ég fór nokkrum sinnum í læknisskoðun og fékk að vita að það væri ekkert að mér. Ég hugsaði að sjúkdómseinkennin væru út af sorginni.“ Þessir kvillar hurfu á endanum. Það var þó skynsamlegt af Alejandro að leita læknis. Sorgin getur veikt ónæmiskerfið, aukið á undirliggjandi heilsuvandamál eða búið til ný.

Erfitt að sinna nauðsynlegum verkum. Ivan segir: „Við þurftum að tilkynna ættingjum og vinum andlát Erics en líka ýmsum öðrum, eins og yfirmanni hans og leigusala. Þar að auki þurfti að fylla út ýmis skjöl. Og síðan þurftum við að fara í gegnum dótið hans. Allt þetta útheimti einbeitingu en á þessum tíma vorum við andlega, líkamlega og tilfinningalega úrvinda.“

Fyrir suma er erfiðasti hjallinn að sinna verkum sem ástvinur þeirra var vanur að sinna. Þannig var það hjá Tiinu. Hún segir: „Timo var vanur að sjá um reikningana og fjármálin. En nú var þetta mín ábyrgð og jók enn frekar á álagið sem var á mér. Ég efaðist um að ég gæti gert þetta sjálf svo vel færi.“

Ofantaldir erfiðleikar – andlegir, tilfinningalegir og líkamlegir – sýna að erfitt getur verið að komast yfir sorgina. Sársaukinn, sem fylgir ástvinamissi, getur verið mikill en að vita af því fyrir fram getur hjálpað syrgjendum að komast í gegnum hann. Mundu þó að það fara ekki allir í gegnum alla þessa erfiðleika þegar þeir syrgja. Það er huggun í því að vita að þessar sterku tilfinningar, sem fylgja sorginni, eru ekkert óeðlilegar.

VERÐ ÉG NOKKURN TÍMA HAMINGJUSAMUR AFTUR?

Við hverju má búast? Sársaukinn af missinum verður ekki alltaf eins mikill, og með tímanum fer hann að dvína. Það er ekki þar með sagt að maður nái sér einhvern tíma að fullu eða gleymi hinum látna. Hins vegar sleppir sorgin sárasta takinu smám saman. Þó geta minningar og sérstök tímamót vakið upp sorgina aftur af og til. En þó ná flestir aftur jafnvægi að lokum og geta haldið áfram að lifa eðlilegu lífi. Það á ekki síst við um þá sem hafa stuðning frá fjölskyldu eða vinum og gera sitt besta til þess að vinna úr sorginni.

Hversu langan tíma tekur það? Hjá sumum er það erfiðasta yfirstaðið eftir nokkra mánuði. Mörgum fer að líða betur eftir eitt til tvö ár. Aðrir þurfa enn lengri tíma. * Alejandro segir: „Ég fann fyrir djúpri sorg í um það bil þrjú ár.“

Vertu þolinmóður. Taktu einn dag í einu, gefðu þér þann tíma sem þú þarft og mundu að sorgin verður ekki alltaf eins þung. En geturðu gert eitthvað til þess að lina sorgina núna og jafnvel komið í veg fyrir að hún verði langvarandi?

Þær sterku tilfinningar, sem fylgja sorginni, eru ekki óeðlilegar.

^ gr. 17 Einstaka syrgjandi finnur fyrir svo þungri sorg sem varir svo lengi að hún er stundum skilgreind sem flókin sorg. Þeir sem kljást við hana gætu þurft að fá aðstoð hjá sérfræðingum á geðheilbrigðissviði.