Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Taugakerfi meltingarvegarins (blátt á lit).

Taugakerfi meltingarvegarins – „annar heili“ líkamans?

Taugakerfi meltingarvegarins – „annar heili“ líkamans?

HVAÐ ertu með marga heila? Að sjálfsögðu bara einn. En þó eru önnur taugakerfi í líkama okkar. Eitt taugakerfið er svo viðamikið að sumir vísindamenn hafa líkt því við heila. Það er taugakerfi meltingarvegarins sem er ekki staðsett í höfðinu heldur í kviðnum.

Það þarf bæði samhæfingu og heilmikla fyrirhöfn fyrir líkamann að breyta fæðunni í orku. Því er vel við hæfi að heilinn skuli vera hannaður til að eftirláta taugakerfi meltingarvegarins stærstan hluta þess verkefnis.

Þó að taugakerfi meltingarvegarins sé mun einfaldara en heilinn er það samt sem áður gríðarlega flókið. Hjá okkur mannfólkinu er áætlað að það samanstandi af 200 til 600 milljón taugafrumum. Þetta flókna taugakerfi er hluti af meltingarkerfinu. Vísindamenn telja að það þyrfti of þykkar taugar til ef starfseminni væri stjórnað eingöngu frá heilanum. Samkvæmt bókinni The Second Brain„er því öruggara og hentugra að láta [meltingarkerfið] sjá um sig sjálft“.

„EFNAVERKSMIÐJA“

Meltingin kallar á að ýmsar nákvæmar efnablöndur verði til á réttum tíma til notkunar á réttum stöðum. Prófessor Gary Mawe hittir naglann á höfuðið þegar hann líkir meltingarkerfinu við efnaverksmiðju. Þessi efnastarfsemi er einstök og undraverð. Til dæmis eru sérhæfðar frumur í veggjum þarmanna, nokkurs konar bragðlaukar, sem skynja efni í fæðunni sem við neytum. Taugakerfi meltingarvegarins notar þessar upplýsingar til að ákveða hvaða meltingarensím þurfi til að brjóta niður fæðuna svo að hún nýtist líkamanum. Taugakerfi meltingarvegarins fylgist líka með sýrustigi og öðrum efnafræðilegum eiginleikum fæðunnar og skammtar meltingarensím í samræmi við það.

Ímyndaðu þér að meltingarkerfið sé færiband í verksmiðju sem er að mestu leyti undir stjórn taugakerfis meltingarvegarins. Þessi „annar heili“ dregur fæðuna í gegnum meltingarkerfið með því að láta vöðvana í þarmaveggjunum dragast saman. Taugakerfi meltingarvegarins stýrir hversu sterkir eða örir þessir samdrættir eru og virkar þannig eins og færiband.

Taugakerfi meltingarvegarins er líka vörn fyrir líkamann. Matur getur innihaldið skaðlegar bakteríur. Það kemur því ekki á óvart að 70 til 80 prósent af eitilfrumunum eru í kviðnum en þær eru einn helsti hluti ónæmiskerfisins. Ef þú innbyrðir skaðlegar bakteríur í miklu magni fer taugakerfi meltingarvegarins í vörn með því að koma af stað kraftmiklum samdráttum sem valda uppköstum eða niðurgangi til að losa líkamann við eitrið.

GÓÐ SAMSKIPTI

Þó að taugakerfi meltingarvegarins virðist starfa sem sjálfstæð taugastöð er hún í stöðugum samskiptum við aðra taugastöð í líkamanum – heilann. Taugakerfi meltingarvegarins sér til að mynda um að útdeila hormónum sem láta heilann vita hversu mikið eigi að borða og hvenær. Taugafrumur í meltingarveginum senda skilaboð til heilans þegar við verðum södd, og ef við borðum of mikið koma þær ógleði af stað.

Þú hefur áreiðanlega áttað þig á því, áður en þú last þessa grein, að tengsl eru á milli meltingarvegarins og heilans. Kannski hefurðu tekið eftir að þegar þú borðar feitmeti léttist lundin. Rannsóknir sýna að þetta gerist þegar taugakerfi meltingarvegarins sendir svokölluð „gleðiboð“ til heilans sem koma af stað keðjuverkun sem lætur þér líða betur. Þetta er sennilega ástæða þess að fólk sækir sér huggun í mat þegar það er undir álagi. Vísindamenn reyna nú að framleiða efni, sem örvar taugakerfi meltingarvegarins, til að hjálpa þunglyndum.

Annað merki um samskipti heilans og meltingarkerfisins er þegar okkur finnst við vera með fiðrildi í maganum. Þessi tilfinning kemur sennilega vegna þess að taugakerfi meltingarvegarins beinir blóði frá kviðnum þegar heilinn er undir miklu álagi eða spennu. Þegar heilinn er undir álagi getur taugakerfið farið úr jafnvægi og samdrættir í meltingarveginum í óreglu sem veldur ógleði. Samkvæmt sérfræðingum gæti þessi tenging meltingarkerfisins og heilans verið orsök þess að fólki finnist eins og það „hafi eitthvað á tilfinningunni“.

Taugakerfi meltingarvegarins getur valdið því að þú hafir eitthvað á tilfinningunni en það getur þó ekki hugsað eða tekið ákvarðanir fyrir þig. Með öðrum orðum er taugakerfi meltingarvegarins ekki heili í alvörunni. Það getur ekki samið tónlist, séð um bókhaldið eða unnið heimavinnuna þína. En þetta kerfi heldur þó áfram að heilla vísindamenn vegna þess hve fjölhæft það er jafnvel þó það sé ekki að fullu rannsakað. Næst þegar þú borðar hugsaðu þá um eftirlitskerfið sem fer í gang, allar upplýsingarnar sem þarf að vinna úr, samhæfinguna sem er nauðsynleg og samskiptin sem fram fara í meltingarkerfinu þínu.