Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ER BIBLÍAN Í RAUN FRÁ GUÐI?

Biblían – er hún „innblásin af Guði“?

Biblían – er hún „innblásin af Guði“?

TRÚIR þú að Biblían sé frá Guði? Eða telurðu hana eingöngu hafa að geyma hugsanir manna?

Menn hafa lengi deilt um það – jafnvel þeir sem játa kristna trú. Til dæmis var gerð skoðanakönnun í Bandaríkjunum árið 2014, á vegum Gallup, sem leiddi í ljós að meirihluti þeirra sem kalla sig kristna telja að „Biblían sé að einhverju leyti frá Guði“. Hins vegar taldi fimmti hver þátttakandi Biblíuna hafa að geyma „goðsagnir, þjóðsögur, mannkynssögu og siðareglur skrifaðar af mönnum“. Þessi ágreiningur beinir athyglinni að því hvað átt sé við þegar sagt er að Biblían sé „innblásin“. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

„INNBLÁSIN“ – HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ?

Biblían er safn 66 lítilla bóka, skrifaðar af um 40 riturum á um það bil 1.600 ára tímabili. En hvernig getur Biblían verið „innblásin af Guði“ fyrst menn skrifuðu hana? Orðalagið „innblásin af Guði“ þýðir einfaldlega að það sem stendur í þessum bókum kemur frá Guði. Biblían segir að menn hafi talað „orð frá Guði, knúðir af heilögum anda“. (2. Pétursbréf 1:21) Guð notaði ósýnilegan starfskraft sinn, heilagan anda, til að koma boðskap sínum til biblíuritaranna. Því má líkja við forstjóra sem les ritara sínum bréf. Höfundur bréfsins er ekki sá sem skrifar bréfið heldur sá sem les það fyrir.

Sumir biblíuritarar heyrðu boðskap Guðs fyrir munn engla. Aðrir sáu sýnir frá Guði. Stundum færði Guð riturunum boðskap sinn í gegnum drauma. Hann leyfði þeim gjarnan að nota eigið orðalag til að koma boðskapnum til skila en lét þá stundum skrifa orðrétt eftir sér. En ritararnir komu alltaf hugsunum Guðs til skila en ekki sínum eigin.

Hvernig getum við verið viss um að Guð hafi innblásið biblíuriturunum það sem þeir skrifuðu? Skoðum þrennt sem hjálpar okkur að treysta því að Biblían sé frá Guði.