Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað lærum við af Biblíunni?

Hvað lærum við af Biblíunni?

„Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar.“ (1. Mósebók 2:4) Með þessum orðum lýkur Biblían frásögunni af því hvernig plánetan okkar varð til. Er frásaga Biblíunnar í samræmi við vísindalegar staðreyndir? Skoðum nokkur dæmi.

Upphafið: Himininn og jörðin eru sköpuð.

Hefur alheimurinn alltaf verið til?

Í 1. Mósebók 1:1 segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“

Fram að seinni hluta 20. aldar töldu margir þekktir vísindamenn að alheimurinn hefði alltaf verið til. En vegna nýlegri uppgötvana viðurkenna nú flestir vísindamenn að alheimurinn eigi sér upphaf.

Hvernig leit jörðin út í byrjun?

Í 1. Mósebók 1:2, 9 segir að jörðin hafi í upphafi verið „auð og tóm“ og þakin vatni.

Þessi lýsing kemur heim og saman við nútímavísindi. Líffræðingurinn Patrick Shih segir að í upphafi hafi jörðin verið með „súrefnislausu andrúmslofti … og litið út eins og úr vísindaskáldskap.“ Í tímaritinu Astronomy segir: „Nýjar rannsóknir benda til að jörðin hafi í byrjun verið vatnaveröld með litlu sem engu þurrlendi.“

Hvernig breyttist andrúmsloftið?

Í 1. Mósebók 1:3–5 er gefið til kynna að til að byrja með hafi andrúmsloftið verið svo mettað að ekki hefði verið hægt að sjá ljós frá yfirborði jarðarinnar. Það var ekki fyrr en seinna að það hefði verið hægt að sjá sólina og tunglið frá jörðinni. – 1. Mósebók 1:14–18.

Biblían segir ekki að allt líf á jörðinni hafi verið skapað á sex sólarhringum.

Smithsonian Environmental Research Center segir að í byrjun hafi andrúmsloft jarðarinnar aðeins hleypt daufu ljósi niður á yfirborðið. Stofnunin bætir við: „Metanagnir í loftinu huldu hina ungu jörð móðu.“ Seinna „létti metanmóðunni og himininn varð blár.“

Í hvaða röð komu lífverur fram á jörðinni?

Í 1. Mósebók 1:20–27 segir að það hafi verið skapaðir fiskar, fuglar, landdýr og að lokum menn. Vísindamenn telja að fiskar hafi komið fram löngu á undan spendýrum og að maðurinn hafi ekki komið fram fyrr en löngu eftir það.

Biblían segir ekki að lífverur geti ekki breyst með tímanum.

Ranghugmyndir um það sem Biblían segir

Sumir halda því fram að Biblían sé í mótsögn við nýlegar uppgötvanir vísindanna. En það er oft byggt á misskilningi þeirra á því sem Biblían segir.

Biblían segir ekki að alheimurinn eða jörðin séu aðeins 6.000 ára gömul. Hún segir einfaldlega að jörðin og alheimurinn hafi verið sköpuð „í upphafi“. (1. Mósebók 1:1) Biblían tilgreinir ekki nákvæmlega hvenær það hafi verið.

Biblían segir ekki að allt líf á jörðinni hafi verið skapað á sex sólarhringum. Hún notar öllu heldur orðið „dagur“ um ákveðin tímabil. Hún segir til dæmis að sköpun plánetunnar okkar og lífsins á henni – á sköpunardögunum sex sem talað er um í 1. kafla 1. Mósebókar – hafi átt sér stað á tímabili sem hún kallar ‚þann dag er Drottinn Guð gerði himin og jörð‘. (1. Mósebók 2:4) Sköpunardagarnir sex, þegar Guð bjó jörðina undir líf og skapaði lífið á henni, geta því hafa verið gríðarlega löng tímabil.

Biblían segir ekki að lífverur geti ekkert breyst með tímanum. Í 1. Mósebók segir að dýrin hafi verið sköpuð „hvert eftir sinni tegund“. (1. Mósebók 1:24, 25) Orðið „tegund“ hefur breiða merkingu í Biblíunni. Ein „tegund“ getur því náð yfir margar tegundir eða afbrigði. Þetta orðalag gefur möguleikann á að innan „tegundar“ geti með tímanum átt sér stað breytingar á afbrigðum og tegundum sem lifa í sama líffélagi.

Hver er þín skoðun?

Eins og fram hefur komið lýsir Biblían á einfaldan og nákvæman hátt upphafi alheimsins, ástandi jarðarinnar í byrjun og því hvernig lífið varð til. Getur þá verið að Biblían segi einnig rétt frá þeim sem skapaði allt þetta? „Að uppruni lífsins hafi átt sér stað með yfirnáttúrulegum hætti,“ segir í Encyclopædia Britannica, „stangast í stórum dráttum ekki á við vísindalega þekkingu nútímans.“ *

^ gr. 20 Encyclopædia Britannica heldur ekki þeirri hugmynd á lofti að lífið hafi verið skapað.