SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR
Krossinn
Margir líta á krossinn sem tákn kristninnar. Ekki finnst þó öllum rétt að ganga með kross, hafa hann uppi við á heimilum eða stilla honum upp í kirkjum.
Dó Jesús á krossi?
HVAÐ SEGJA SUMIR?
Rómverjar tóku Jesú af lífi með því að hengja hann á kross gerðan úr tveim bjálkum.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Jesús var tekinn af lífi með því að ,hengja hann á tré‘. (Postulasagan 5:30) Biblíuritarar nota tvö grísk orð um þetta aftökutæki. Bæði gefa til kynna að það hafi verið gert úr einum bjálka en ekki tveim. Gríska orðið staurosʹ merkir „staur í víðustu merkingu. Það er ekki jafngildi ,kross‘.“ (Crucifixion in Antiquity) Orðið xylon, sem er notað í Postulasögunni 5:30, merkir „einfaldlega uppréttur stólpi eða staur sem Rómverjar negldu menn á og var þá sagt að þeir væru krossfestir“. *
Biblían setur aðferðina, sem beitt var við aftöku Jesú, í samband við forn-ísraelsk lög. Í lögunum segir: „Fremji maður glæp sem dauðarefsing liggur við og sé líflátinn og þú hengir hann á tré ... sá sem er hengdur er bölvaður af Guði.“ (5. Mósebók 21:22, 23) Kristni postulinn Páll vitnar í þessi lög þegar hann segir að Jesús hafi ,tekið á sig bölvun fyrir okkur því að ritað er: „Bölvaður er hver sá sem á tré [xylon] hangir.“‘ (Galatabréfið 3:13) Orð Páls bera með sér að Jesús hafi dáið á staur, það er að segja einum trébjálka.
„Hann tóku þeir af lífi með því að hengja hann upp á tré.“ – Postulasagan 10:39.
Notuðu lærisveinar Jesú krossinn í guðsdýrkun sinni eða sem tákn kristninnar?
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Ekki verður séð af Biblíunni að frumkristnir menn hafi notað krossinn sem trúartákn. Rómverjar þess tíma notuðu hins vegar krossmarkið sem tákn um sína guði. Um 300 árum eftir að Jesús dó tók Konstantínus Rómarkeisari upp krossinn sem tákn herafla síns og eftir það fór hin „kristna“ kirkja að nota hann sem trúartákn.
Fyrst heiðnir menn notuðu krossinn við tilbeiðslu á guðum sínum verður að teljast ólíklegt að lærisveinar Jesú hafi notað þetta tákn til að tilbiðja hinn sanna Guð. Þeir vissu að Guð hafði alla tíð haft vanþóknun á því að notuð væru „skurðgoð í einhverri mynd“. Þeir vissu að kristnir menn áttu að ,forðast skurðgoðadýrkun‘. (5. Mósebók 4:15-19; 1. Korintubréf 10:14) „Guð er andi“ og menn sjá hann ekki. Þess vegna notuðu frumkristnir menn ekki áþreifanlega hluti eða tákn til að auðvelda sér að finna fyrir nálægð Guðs. Þeir tilbáðu Guð „í anda“, það er að segja undir leiðsögn heilags anda sem er ósýnilegur, og þeir tilbáðu Guð í „sannleika“, það er að segja í samræmi við vilja hans sem hann opinberar í Biblíunni. – Jóhannes 4:24.
„Hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ – Jóhannes 4:23.
Hvernig ættu kristnir menn að sýna Jesú Kristi virðingu?
HVAÐ SEGIR FÓLK?
„Það var bæði eðlilegt og rökrétt að verkfæri hjálpræðisins hlyti sérstakan heiður og lotningu ... Sá sem dýrkar líkneskið dýrkar þann sem það táknar.“ – New Catholic Encyclopedia.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Kristnir menn standa í þakkarskuld við Jesú því að dauði hans gerir að verkum að þeir geta fengið syndafyrirgefningu, átt samband við Guð og hlotið eilíft líf. (Jóhannes 3:16; Hebreabréfið 10:19-22) Þeim er ekki sagt að sýna virðingu fyrir gjöf hans með því að skarta tákni sem á að minna á Jesú eða bara að játa trú á hann. ,Trúin ein og sér er dauð vanti hana verkin.‘ (Jakobsbréfið 2:17) Kristnir menn verða að sýna í verki að þeir trúi á Jesú. Hvernig?
Í Biblíunni segir: „Kærleiki Krists knýr mig því að ég hef ályktað svo: ... Einn er dáinn fyrir alla ... til þess að þeir sem lifa lifi ekki framar sjálfum sér heldur honum sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Hið einstaka kærleiksverk Jesú knýr kristna menn til að haga lífi sínu þannig að þeir geti fetað í fótspor hans. Það er mun betri leið til að heiðra Jesú en að skarta trúartákni.
„Sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf.“ – Jóhannes 6:40.
^ gr. 8 Ethelbert W. Bullinger. A Critical Lexicon and Concordance to the English and Greek New Testament, 11. útgáfa, bls. 818-819.