Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blágulls-ari, einnig nefndur bláguli ari. Lengd 85 cm.

Arnpáfar í fögrum litum

Arnpáfar í fögrum litum

STÓRFENGLEG sjón blasti við evrópskum landkönnuðum þegar þeir komu til Mið- og Suður-Ameríku seint á 15. öld. Fuglar í öllum regnbogans litum flugu skyndilega út úr laufþykkninu. Þetta voru arnpáfar – stéllangir páfagaukar sem eiga heimkynni í hitabelti Mið- og Suður-Ameríku. Áður en langt um leið mátti sjá myndir af þessum glæsilegu fuglum á landakortum af hinni nýfundnu paradís.

Bæði kynin eru mjög litfögur sem er óvenjulegt meðal skærlitra fugla. Arnpáfar eru greindir og félagslyndir, skrækróma og hávaðasamir. Þeir fara allt að 30 saman frá náttstað sínum snemma morguns í leit að fræjum, ávöxtum og öðru æti. Eins og aðrir páfagaukar grípa þeir oft fæðuna með klónum og bíta í hana með goggnum sem er stór og krókboginn. Þeir geta jafnvel brotið harðar hnetur. Eftir að þeir hafa nært sig hópast þeir gjarnan saman í hömrum eða á árbökkum þar sem þeir narta í leir. Leirinn vinnur á móti eiturefnum í fæðunni og úr honum fá þeir líka ýmis nauðsynleg efnasambönd.

„[Guð] gjörði alla hluti vel á sínum tíma.“ – Prédikarinn 3:11, Biblían 1859.

Arnpáfar halda að jafnaði tryggð við maka sinn ævilangt og annast ungana í sameiningu. Sumar tegundir gera sér hreiður í holum trjám, í klettaskorum, termítahraukum eða holum við árbakka. Þar má sjá pörin snyrta fjaðrir hvort annars. Ungarnir eru fullvaxta hálfs árs gamlir en fylgja samt foreldrunum í heil þrjú ár. Villtir arnpáfar verða 30 til 40 ára gamlir. Dæmi eru þó um að þeir verði meira en 60 ára sem gæludýr. Af arnpáfum eru um 18 tegundir. Á opnunni eru sýndar nokkrar þeirra.

Grænvængja-ari, einnig nefndur dökkrauði ari. Lengd allt að 95 cm.

Skarlats-ari, einnig nefndur rauði ari. Lengd 85 cm.

Goðalilju-ari, einnig nefndur hýasintu-ari og blá-ari. Lengd allt að 100 cm. Stærstur allra páfagauka og getur vegið meira en 1,3 kg.