Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Áhyggjur

Áhyggjur

Áhyggjur geta bæði verið okkur byrði og til gagns. Í Biblíunni finnum við dæmi um hvort tveggja.

Er eðlilegt að finna fyrir áhyggjum?

RAUNVERULEIKINN

Áhyggjur eru tilfinningar eins og óróleiki, taugaspenna eða kvíði. Í þessum óstöðuga heimi getum við öll gengið í gegnum tímabil þar sem við erum kvíðin og áhyggjufull.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Davíð konungur skrifaði: „Hve lengi á ég að hafa beyg í brjósti, sorg í hjarta dag frá degi?“ (Sálmur 13:3) Hvað hjálpaði Davíð að takast á við áhyggjur og sorgir? Hann úthellti hjarta sínu í bæn til Guðs og treysti á órjúfanlegan kærleika hans. (Sálmur 13:6; 62:9) Guð býður okkur að taka á sig áhyggjur okkar og byrðar. „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur,“ segir í 1. Pétursbréfi 5:7.

Að sinna þeim sem við elskum getur dregið úr áhyggjum okkar af þeim.

Oft getum við þó dregið úr áhyggjum með því að nýta okkur þær til gagns. Til dæmis hafði biblíuritarinn Páll ,áhyggjur af öllum söfnuðunum‘. Hann lagði sig þess vegna fram um að hughreysta og hvetja þá sem hann hafði áhyggjur af. (2. Korintubréf 11:28) Hann nýtti áhyggjur sínar til góðs og veitti þeim hjálp sem voru hjálparþurfi. Við getum gert hið sama. Hins vegar væri kærleikslaust af okkur að vera skeytingarlaus eða köld gagnvart öðrum. – Orðskviðirnir 17:17.

„Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.

Hvernig getur þú unnið úr óhóflegum áhyggjum?

RAUNVERULEIKINN Stundum hefur fólk áhyggjur af fyrri mistökum, framtíðinni eða fjármálum. *

 

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Áhyggjur af fyrri mistökum: Sumir þeirra sem gerðust kristnir á fyrstu öldinni höfðu áður verið drykkjumenn, fjársvikarar, þjófar og lifað siðlausu lífi. (1. Korintubréf 6:9-11) Í stað þess að dvelja við fyrri mistök breyttu þeir lífsstefnu sinni og treystu á fyrirgefningu Guðs sem hann er fús að veita. Í Sálmi 130:4 segir um Guð: „Hjá þér er fyrirgefning svo að menn óttist þig.“

Áhyggjur af framtíðinni: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum,“ sagði Jesús Kristur. „Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ (Matteus 6:25, 34) Hvað átti hann við? Látum okkur nægja að glíma við áhyggjur dagsins í dag. Það er ekki til bóta að gera sér áhyggjur fram í tímann. Það gæti fengið okkur til að taka óviturlegar ákvarðanir í fljótfærni. Þar að auki reynast margar áhyggjur óþarfar þegar á hólminn er komið.

Áhyggjur af fjármálum: Vitur maður sagði eitt sinn í bæn: „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi.“ (Orðskviðirnir 30:8) Hann leitaðist eftir því að vera nægjusamur enda hefur Guð velþóknun á nægjusemi. Í Hebreabréfinu 13:5 segir: „Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ,Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ Peningar geta brugðist manni og gera það gjarnan. En Guð bregst aldrei þeim sem velja að lifa einföldu lífi og treysta á hann.

„Aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ – Sálmur 37:25.

Verðum við nokkurn tíma laus við allar áhyggjur?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

„Nú er hafið tímabil sem einkennist af áhyggjum og kvíða,“ sagði blaðamaðurinn Harriet Green í grein í dagblaðinu The Guardian árið 2008. Patrick O‘Connor skrifaði í The Wall Street Journal árið 2014: „Bandaríkjamenn hafa aldrei mælst kvíðnari en nú.“

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það.“ (Orðskviðirnir 12:25) „Fagnaðarerindið um ríkið“ er sannarlega boðskapur sem gleður hjartað. (Matteus 24:14) Þetta ríki, stjórn Guðs, mun bráðlega útrýma öllum kvíða og áhyggjum með því að fjarlægja rót vandans, þar á meðal veikindi og dauða. Það gætum við aldrei gert sjálf. Guð „mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:4.

„Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni.“ – Rómverjabréfið 15:13.

^ gr. 10 Þeir sem þjást af kvíðaröskun gætu þurft að leita sér læknishjálpar. Vaknið! mælir ekki með ákveðinni læknismeðferð umfram aðra.