Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Agi leiðir börn eins og stýri stefnir bát í rétta átt.

 FYRIR FORELDRA

6: Agi

6: Agi

HVAÐ FELUR HANN Í SÉR?

Agi þýðir að leiðbeina eða kenna. Stundum felur hann í sér að leiðrétta slæma hegðun barnanna. Oft felur hann þó í sér að kenna börnunum gott siðferði sem hjálpar þeim svo að taka góðar ákvarðanir.

HVERS VEGNA ER AGI MIKILVÆGUR?

Á undanförnum áratugum hefur dregið úr aga á mörgum heimilum. Foreldrarnir eru hræddir um að ef þeir leiðrétta börnin lækki það sjálfsmat þeirra. En skynsamir foreldrar setja sanngjarnar reglur og kenna börnunum að fara eftir þeim.

„Börn þurfa reglur til að verða þroskaðir einstaklingar. Án aga eru börn eins og stjórnlaust skip sem tekur að lokum ranga stefnu eða hvolfir.“ – Pamela.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Vertu samkvæmur sjálfum þér. Ef barnið þitt fylgir ekki reglunum sem þú setur því, láttu það þá taka afleiðingunum. En vertu líka alltaf tilbúinn að hrósa barninu þegar það hlýðir.

„Ég hrósa oft börnunum mínum fyrir að vera hlýðin í heimi þar sem hlýðni er afar sjaldgæf. Hrós hjálpar þeim að taka við leiðbeiningum þegar þörf er á.“ – Christine.

MEGINREGLA: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ – Galatabréfið 6:7.

Vertu sanngjarn. Þegar þú agar barnið þitt skaltu taka mið af aldri þess og getu ásamt alvarleika þess sem það gerði af sér. Það virkar oft best að tengja agann við það sem barnið gerði af sér – ef það fer til dæmis ekki eftir reglum um símanotkun gætu afleiðingarnar verið að takmarka símanotkunina í einhvern tíma. En forðastu samt að gera stórmál úr einhverju sem fer í taugarnar á þér en skiptir litlu máli.

„Ég reyni að komast að því hvort sonur minn hafi óhlýðnast af ásettu ráði eða hvort hann hafi bara sýnt dómgreindarleysi. Það er talsverður munur á slæmu hegðunarmynstri sem þarf að breyta og einstaka mistökum sem þarf að leiðrétta.“ – Wendell.

MEGINREGLA: „Verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ – Kólossubréfið 3:21.

Vertu hlýlegur. Ef börn finna að foreldrarnir aga þau vegna þess að þau elska þau, auðveldar það þeim að taka við aganum.

„Þegar sonur okkar gerði mistök fullvissuðum við hann um að við værum stolt af honum fyrir allar þær góðu ákvarðanir sem hann hafði tekið áður. Við útskýrðum að mistökin þyrftu ekki að skaða mannorð hans svo framarlega sem hann leiðrétti þau. Og við sögðum honum að við værum tilbúin að hjálpa honum.“ – Daniel.

MEGINREGLA: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.“ – 1. Korintubréf 13:4.