Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hlýða foreldrum er eins og að greiða af bankaláni. Maður ávinnur sér meira traust (eða lánstraust) með því að standa í skilum.

 FYRIR UNGLINGA

10: Áreiðanleiki

10: Áreiðanleiki

HVAÐ FELUR HANN Í SÉR?

Áreiðanlegt fólk ávinnur sér traust foreldra sinna, vina og vinnuveitenda. Það fer eftir reglum, stendur við loforð og segir alltaf satt.

HVERS VEGNA ER ÁREIÐANLEIKI MIKILVÆGUR?

Frelsið, sem manni er gefið, helst yfirleitt í hendur við það traust sem maður hefur áunnið sér.

„Besta leiðin til að ávinna sér traust foreldra sinna er að sýna að maður hefur náð þroska og er ábyrgur – ekki aðeins þegar foreldrarnir eru nærri.“ – Sarahi.

MEGINREGLA: „Hegðið ykkur vel.“ – 1. Pétursbréf 2:12.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Eftirfarandi ráð eru gagnleg hvort sem þú vilt ávinna þér meira traust eða endurheimta traust sem þú hefur misst.

Vertu heiðarlegur. Að ljúga rænir þig trausti annarra fljótar en nokkuð annað. Aftur á móti geturðu áunnið þér traust annarra með því að vera hreinskilinn og heiðarlegur, ekki síst þegar þér verða á mistök.

„Það er ekkert mál að vera heiðarlegur þegar vel gengur. En þegar maður er heiðarlegur jafnvel þegar það kemur illa út fyrir mann, fer fólk að treysta manni.“ – Caiman.

MEGINREGLA: „[Ég] vil í öllum greinum breyta vel.“ – Hebreabréfið 13:18.

Vertu áreiðanlegur. Í könnun einni í Bandaríkjunum kom fram að 78 prósent mannauðsstjóra segja að áreiðanleiki sé „einn af þremur mikilvægustu eiginleikunum hjá fólki sem er að hefja ný störf“. Að temja þér að vera áreiðanlegur núna gagnast þér þegar þú ert orðinn fullorðinn.

„Foreldrar mínir taka eftir því þegar ég er áreiðanleg og sinni verkefnum mínum án þess að þau þurfi að nöldra í mér. Því meira frumkvæði sem ég sýni því meira traust sýna þau mér.“ – Sarah.

MEGINREGLA: „Fullviss um hlýðni þína ... veit [ég] að þú munt gera jafnvel fram yfir það sem ég mælist til.“ – Fílemonsbréfið 21.

Vertu þolinmóður. Líkamlegur þroski unglinga er yfirleitt auðsjáanlegur en oftast tekur lengri tíma að taka eftir andlegum þroska þeirra.

„Þú getur ekki áunnið þér traust foreldra þinna og annarra með því að vera áreiðanlegur í eitt skipti. En þú getur áunnið þér traust smátt og smátt með því að vera ábyrgur um lengri tíma.“ – Brandon.

MEGINREGLA: „Íklæðist ... langlyndi.“ – Kólossubréfið 3:12.