Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar kenna börnunum kærleika með fordæmi sínu.

 AÐ TAKAST Á VIÐ VANDANN

Að læra gott siðferði

Að læra gott siðferði

Unglingspiltar voru sakaðir um að hafa beitt skólabróður sinn kynferðislegu ofbeldi í skólaferðalagi. Þeir voru allir nemendur í virtum einkaskóla í Kanada. Leonard Stern fjallaði um málið í dagblaðinu Ottawa Citizen: „Kostirnir sem fylgja menntun og gáfum ásamt góðri þjóðfélagsstöðu vernda ekki ungt fólk gegn því að taka slæmar ákvarðanir í siðferðismálum.“

Stern skrifaði líka: „Maður myndi halda að aðalmarkmið foreldra væri að kenna börnunum gott siðferði. En raunin er sú að margir foreldrar leggja aðaláherslu á velgengni í skóla eða vinnu.“

Að sjálfsögðu skiptir menntun máli. Þó getur besta menntun sem heimurinn hefur upp á að bjóða ekki hjálpað fólki að losa sig við rangar langanir eða slæmar tilhneigingar. Hvaða menntun veitir þá slíka leiðsögn í góðu siðferði?

MENNTUN SEM VEITIR SIÐFERÐILEGA OG ANDLEGA LEIÐSÖGN

Biblían er eins og spegill sem hjálpar okkur að átta okkur á takmörkum okkar og veikleikum. (Jakobsbréfið 1:23-25) Auk þess veitir hún okkur hjálp til þess að breyta okkur og rækta með okkur eiginleika sem stuðla að sönnum friði og einingu. Meðal þessara eiginleika eru góðvild, gæska, þolinmæði, sjálfstjórn og kærleikur. Kærleikurinn er meira að segja sagður ,binda allt saman og fullkomna allt‘. (Kólossubréfið 3:14) Hvers vegna er kærleikurinn svona einstakur? Taktu eftir hvað Biblían segir um þennan eiginleika.

  • „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt ... umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ – 1. Korintubréf 13:4-8.

  • „Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein.“ – Rómverjabréfið 13:10.

  • „Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ – 1. Pétursbréf 4:8.

Hvernig líður þér þegar þú ert með fólki sem þykir vænt um þig? Ertu öruggur og rólegur? Já, því að þú veist að það vill þér allt það besta og myndi aldrei gera neitt til að særa þig viljandi.

Kærleikurinn fær fólk líka til að fórna ýmsu, jafnvel til að gera stórar breytingar á lífi sínu. Tökum dæmi: Þegar maður, sem við skulum kalla Georg, eignaðist barnabarn langaði hann verja tíma með barninu. En það var þó eitt sem stóð í  vegi fyrir því. Georg var stórreykingamaður og tengdasonur hans vildi ekki að hann reykti nálægt barninu. Hvað gerði Georg í málinu? Þrátt fyrir að hafa reykt í hálfa öld hætti hann að reykja svo að hann gæti varið tíma með barninu. Það er ljóst að kærleikurinn er mjög áhrifamikill.

Biblían hjálpar okkur að rækta með okkur góða eiginleika eins og góðvild, gæsku og kærleika.

Kærleikur er eiginleiki sem við þroskum með okkur. Foreldrar fara með lykilhlutverk í því að kenna börnum sínum að vera kærleiksrík. Þau næra og vernda börnin og eru til staðar þegar þau meiða sig eða eru veik. Góðir foreldrar eiga regluleg tjáskipti við börnin sín og leiðbeina þeim. En þau aga líka börnin, sem felur í sér að kenna þeim grundvallarreglur um hvað sé rétt og rangt. Auk þess þurfa þau að setja gott fordæmi og vera þannig góðar fyrirmyndir.

Því miður sinna ekki allir foreldrar þessari ábyrgð. Geta börn, sem alast upp við slíkar aðstæður, þá ekki orðið góðar manneskjur? Jú, að sjálfsögðu geta þau það. Margir hafa gert breytingar á fullorðinsárum og eru nú umhyggjusamir og traustir einstaklingar, þótt sumir þeirra komi úr brotnum fjölskyldum. Í næstu grein sjáum við dæmi um tvo menn sem náðu slíkum árangri þrátt fyrir að aðrir hafi álitið þá óforbetranlega.