Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Sálin

Sálin

Trúarbrögðin hafa margar ólíkar hugmyndir um sálina og hvað verði um hana þegar við deyjum. Biblían talar hins vegar skýru máli um sálina.

Er sálin ódauðleg?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Margir trúa að sálin sé ódauðleg. Sumir trúa að sálin endurfæðist sífellt í nýjum líkama eftir að sá fyrri deyr. Aðrir trúa því að sálin fari á endanum yfir á annað tilverusvið eins og til himna eða helju.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían segir ekki að sálin sé ódauðleg. Til dæmis segir í Jakobsbréfinu 5:20: „Hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða.“ Esekíel spámáður, sem Guð lét rita hluta af Biblíunni, talar um að hægt sé að dæma sálina til dauða. Biblían kennir greinilega ekki að sálin sé ódauðleg.

„Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ – Esekíel 18:4, Biblían 1981.

Eru sál og líkami tvennt ólíkt?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sálin knýr líkamann á meðan maðurinn er á lífi en fer úr líkamanum við dauðann.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían talar um móður sem ól „sálir“, það er að segja lifandi einstaklinga sem drógu andann. (1. Mósebók 46:18, Biblían 1981) Hebreska orðið, sem stundum er þýtt „sál“ í Biblíunni, má reyndar þýða „sá sem andar“. Orðið er jafnvel notað um dýr. Þar að auki segir Biblían að sálin þurfi að borða. (Jesaja 55:2, Biblían 1981) Þyrfti sálin að anda eða borða ef hún væri aðskilin líkamanum? Í Biblíunni á „sál“ oftast við persónuna í heild, líkamann, tilfinningarnar og persónuleikann.

„Hún ól ... sextán sálir.“ – 1. Mósebók 46:18, Biblían 1981.

 Hvað verður um sálina við dauðann?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían segir skýrum stöfum: „Í dánarheimum ... er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:10) Líkaminn verður að engu og þeir sem deyja „verða ... aftur að moldu og áform þeirra verða að engu“. (Sálmur 146:4) Sál, sem er dáin, er í algeru aðgerðarleysi og þess vegna líkir Biblían dauðanum oft við svefn. – Matteus 9:24.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Þegar maður missir ástvini langar mann til að fá svör við spurningum sem þessum: Hvar eru þeir? Þjást þeir? Hvað gerist við dauðann? Við getum huggað okkur við að vita að látnir ástvinir okkar þjást ekki lengur því að Biblían fullvissar okkur um að hinir dánu séu án meðvitundar. Og það er enn meiri huggun í því að vita að Jehóva Guð lofar að vekja aftur til lífs sálir sem sofa dauðasvefni. – Jesaja 26:19.

„Hinir dauðu vita ekki neitt.“ – Prédikarinn 9:5.