Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjónarmið Biblíunnar | Hreinlæti

Hreinlæti

Hreinlæti

Skiptir það Guð máli hvort við séum líkamlega hrein?

„Hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál.“ – 2. Korintubréf 7:1.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Skapari okkar og lífgjafi elskar okkur og vill að við lifum löngu og innihaldsríku lífi við góða heilsu. „Hjarta þitt varðveiti ráð mín,“ segir Guð, „því að langa lífdaga, farsæl ár og velgengni munu þau veita þér ríkulega.“ (Orðskviðirnir 3:1, 2) Kærleikur Guðs til manna sýndi sig í lögum hans til Ísraelsmanna, en þau fólu í sér nákvæmar leiðbeiningar um hreinlæti og hvernig ganga ætti frá úrgangi. (5. Mósebók 23:12-14) Þegar Ísraelsmenn fóru eftir þessum skynsamlegu leiðbeiningum urðu þeir heilsuhraustari og sluppu við ýmsa sjúkdóma sem herjuðu á Egypta og aðrar þjóðir sem höfðu ekki þessi hagnýtu lög. – 5. Mósebók 7:12, 15.

Meginreglan á líka við á okkar tímum. Að ,hreinsa sig af allri saurgun á líkama,‘ felur meðal annars í sér að láta af skaðlegum venjum eins og reykingum, misnotkun áfengis og fíkniefnanotkun. Þeir sem gera það eru í minni hættu á að fá líkamlega eða andlega sjúkdóma og að deyja um aldur fram. Og þar sem við búum flest í samfélagi við annað fólk sýnum við líka náunganum tillitssemi með því að fylgja hreinlætismælikvarða Guðs. – Markús 12:30, 31.

Er Guði umhugað um siðferðilegan og andlegan hreinleika?

„Deyðið ... í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki.“ – Kólossubréfið 3:5, 6.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Eins og fram hefur komið hvetur Biblían okkur til að ,hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál‘. Á tímum Jesú Krists lögðu margir, þar á meðal trúarleiðtogar Gyðinga, ofuráherslu á líkamlegt hreinlæti en skeyttu engu um siðferðilegan og andlegan hreinleika. (Markús 7:1-5) Jesús setti hlutina í rétt samhengi með þessum orðum: „Skiljið þið ekki að ekkert sem fer inn í manninn utan frá getur saurgað hann? Því að ekki fer það inn í hjarta hans heldur maga og út síðan í safnþróna.“ Hann bætti við: „Það sem fer út frá manninum það saurgar manninn. Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund ... heimska. Allt þetta illa ... saurgar manninn.“ – Markús 7:18-23.

Jesús sagði að þeir sem leggðu ofuráherslu á líkamlegt hreinlæti, en vanræktu reglur Guðs um trú og siðferði, væru eins og bikarar sem eru hreinir að utan en skítugir að innan. – Matteus 23:25, 26.

Eru siðferðiskröfur Biblíunnar of strangar?

„Því að elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ – 1. Jóhannesarbréf 5:3.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Míka 6:8 segir: „Þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ Er þetta ekki sanngjörn beiðni? Skaparinn vill auk þess að hlýðni við hann sé sprottin af kærleika. Það getur fært okkur mikla gleði. (Sálmur 40:9) Og þegar við villumst af leið getur miskunn Guðs huggað okkur. „Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ Guð tekur með öðrum orðum tillit til veikleika okkar og ófullkomleika. – Sálmur 103:13, 14.

Af þessu má sjá að mælikvarði Guðs á líkamlegan, siðferðilegan og andlegan hreinleika er merki um góðvild hans og kærleika til okkar. Með því að fylgja fúslega þessum mælikvarða breytum við viturlega og sýnum að við elskum hann.