Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sykursýki – geturðu dregið úr hættunni?

Sykursýki – geturðu dregið úr hættunni?

SYKURSÝKI verður sífellt algengari og er orðin að heimsfaraldri. Hún skiptist í tvær aðaltegundir. Sykursýki 1 greinist einkum hjá börnum og læknar geta ekki komið í veg fyrir hana enn sem komið er. Um 90 prósent þeirra sem eru sykursjúkir eru með sykursýki 2, en þessi grein fjallar um hana.

Áður var talið að sykursýki 2 legðist aðeins á fullorðna en núorðið greinist hún líka hjá börnum. Sérfræðingar segja að hægt sé að gera ýmislegt til að draga úr hættunni á sykursýki 2. Það getur komið þér að gagni að þekkja aðeins til þessa sjúkdóms. *

Hvað er sykursýki?

Þeir sem þjást af sykursýki eru með of háan blóðsykur. Undir eðlilegum kringumstæðum berst sykur með blóðrásinni til frumna líkamans, sem nýta hann til orkuframleiðslu. Hjá sykursjúkum raskast þetta ferli. Það getur valdið skemmdum á mikilvægum líffærum og hamlað blóðflæði en það getur leitt til þess að taka þurfi tær eða fætur af sjúklingnum. Aðrir fylgikvillar geta verið blinda og nýrnasjúkdómar. Margir sykursjúkir deyja af völdum hjartaáfalls eða heilablóðfalls.

Offita er stór áhættuþáttur sykursýki 2. Sérfræðingar telja að þeir sem safna fitu á kvið og mitti séu í áhættuhópi en fita í brisi og lifur virðist trufla blóðsykursjafnvægi líkamans. Hvað geturðu gert til að draga úr hættunni á að fá sykursýki?

 Þrennt sem getur dregið úr hættunni á sykursýki

1. Láttu mæla blóðsykurinn ef þú ert í áhættuhópi. Skert sykurþol – kvilli þar sem blóðsykurinn er óeðlilega hár – er oft undanfari sykursýki 2. Þótt hvort tveggja sé heilsuspillandi er munur á: Hægt er að halda sykursýki í skefjum en hún er samt ólæknandi. Hins vegar hafa sumir með skert sykurþol náð að koma blóðsykrinum í rétt horf. Skert sykurþol er oft án augljósra einkenna og því getur fólk verið með það án þess að vita af því. Rannsóknir gefa til kynna að um 316 milljónir manna um allan heim þjáist af skertu sykurþoli, margir án þess að gera sér grein fyrir því. Í Bandaríkjunum vita til dæmis um 90 prósent þeirra sem eru með skert sykurþol ekki af því.

Skert sykurþol er þó ekki meinlaust. Auk þess að vera undanfari sykursýki 2 telja menn núna að það auki hættuna á vitglöpum. Þú gætir verið með skert sykurþol ef þú ert of þungur, hreyfir þig lítið eða sykursýki er í fjölskyldunni. Blóðsykursmæling getur skorið úr um það.

2. Borðaðu hollan mat. Fylgdu eftirfarandi ráðum þegar þú kemur því við: Borðaðu minni matarskammta en þú ert vanur. Skiptu sætum ávaxtasöfum og gosdrykkjum út fyrir vatn, te eða kaffi. Borðaðu heilkornabrauð, hýðishrísgrjón og heilhveitipasta í staðinn fyrir unninn mat – en þó í hófi. Borðaðu magurt kjöt, fisk, hnetur og baunir.

3. Hreyfðu þig reglulega. Hreyfing getur lækkað blóðsykurinn og gert þér kleift að halda kjörþyngd. Sérfræðingur nokkur ráðleggur fólki að verja hluta af tímanum, sem fer í að horfa á sjónvarpið, í að hreyfa sig.

Þú getur ekki breytt genunum en þú getur breytt lífsstílnum. Að gera sitt besta til að bæta heilsuna er erfiðisins virði.

^ gr. 3 Vaknið! mælir ekki með einni læknismeðferð umfram aðra. Hver og einn ætti að íhuga vandlega þá valmöguleika sem standa til boða og ráðfæra sig við lækni, ef þörf krefur, áður en ákvörðun er tekin.