Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Bænir

Bænir

Heyrir einhver bænir okkar?

„Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn.“ – Sálmur 65:3.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir segja að bænir nái ekki út fyrir herbergið sem beðið er í. Þegar fólk gengur í gegnum erfiðleika hættir því sérstaklega til að efast um að einhver heyri bænir þeirra.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim sem illt gera,“ segir í Biblíunni. (1. Pétursbréf 3:12) Það er ljóst að Guð hlustar á bænir. Hann hneigist þó sérstaklega að bænum þeirra sem fylgja stöðlum hans. Í öðru versi í Biblíunni erum við minnt á hve fús Guð er til að hlusta á bænir okkar: „Þetta er traustið sem við berum til hans: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Þeir sem biðja til Guðs í einlægni þurfa því að skilja hvers konar bænir samræmast vilja hans.

Hvernig eigum við að biðja?

„Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi.“ – Matteus 6:7.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Fylgismönnum margra trúarbragða, þar á meðal búddatrúar, kaþólskrar trúar, hindúatrúar og íslam, er kennt að nota talnabönd til að þylja bænir sínar og telja þær.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Bænir eiga að koma frá hjartanu og vera tjáðar í einlægni. Það ætti ekki að þylja sömu bænirnar aftur og aftur eftir minni. Biblían hvetur okkur: „Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi eins og heiðingjarnir. Þeir hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann.“ – Matteus 6:7, 8.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Ef við berum fram bænir á þann hátt, sem Guði mislíkar, gætum við verið að eyða tíma okkar og jafnvel misboðið Guði. Biblían segir að bænir þeirra sem neita að hlýða Guði séu honum „andstyggð“. – Orðskviðirnir 28:9.

Hvert eigum við að beina bænum okkar?

„Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur.“ – Jesaja 55:6.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir biðja til Maríu, engla eða „dýrlinga“. Svokallaður heilagur Antóníus frá Padúa er einn þessara „dýrlinga“ en hann er sagður vaka yfir „bæði andlegum og efnislegum þörfum fólks“. Annar slíkur „dýrlingur“ er heilagur Júdas Taddeus, en fólk leitar til hans í vonlausum aðstæðum. Margir biðja til slíkra „dýrlinga“ og engla í von um að þeir gangi fram fyrir Guð fyrir sína hönd.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Þeir sem tilbiðja Guð ættu að biðja til ,föðurins á himnum‘. (Matteus 6:9) Í Biblíunni fáum við þessa hvatningu: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ – Filippíbréfið 4:6.