Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Trúarbrögð

Trúarbrögð

Hvers vegna eru til svo mörg trúarbrögð?

„Þið hafnið boðum Guðs en haldið erfikenning manna.“ – Markús 7:8.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Fólk hefur meðfædda andlega þörf sem það getur satt með því að tilbiðja Guð. (Matteus 4:4) Menn hafa í gegnum tíðina reynt að fullnægja þessari þörf og við það hafa sprottið upp margs konar trúarbrögð sem eru byggð á hugmyndum manna frekar en Guðs.

Til dæmis segir í Biblíunni um þá sem tilheyrðu einum trúarhópi á fyrstu öld: „Þeir eru heitir í trú sinni á Guð en skortir réttan skilning. Þeir þekkja ekki réttlætið, sem Guð gefur, og reyna því að ávinna sér réttlæti sjálfir. Því hafa þeir ekki gefið sig á vald réttlætinu frá Guði.“ (Rómverjabréfið 10:2, 3) Nú á dögum eru sömuleiðis mörg trúarbrögð sem „kenna það eitt sem menn hafa samið“. – Markús 7:7.

 Er nauðsynlegt að tilheyra trúfélagi?

„Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar.“ – Hebreabréfið 10:24, 25.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Hebreabréfinu 10:25 segir: „Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar.“ Af þessu má sjá að Guð vill að fólk komi saman til tilbeiðslu sem skipulagður hópur. En ætti hver og einn tilbiðjandi að hafa sína eigin túlkun á því hver Guð er og hvers hann ætlast til af okkur? Nei. Biblían kennir að þeir sem tilbiðja Guð eigi að vera ,samhuga, samlyndir og einhuga‘. (1. Korintubréf 1:10) Hún kennir að þeir eigi að mynda skipulagðan söfnuð sem starfar um allan heim og eigi að ,elska samfélag þeirra sem trúa‘. (1. Pétursbréf 2:17; 1. Korintubréf 11:16) Til að þóknast Guði verðum við að tilbiðja hann á skipulegan hátt í sameinuðum söfnuði.

Er hægt að þekkja sanna trú?

„Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ – Jóhannes 13:35.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían segir okkur hvernig hægt sé að þekkja þá sem iðka sanna trú: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?“ (Matteus 7:16) Þú þarft ekki að vera grasafræðingur til að þekkja í sundur vínvið og þyrnirunna. Þú þarft ekki heldur að vera sérfróður um trúarbrögð til að þekkja í sundur sanna trú og falska. Hvaða ávextir, eða eiginleikar, einkenna sanna trú?

  • Sönn trú kennir sannleikann sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni. (Jóhannes 4:24; 17:17) Hún byggir ekki á heimspeki manna.

  • Sönn trú hjálpar fólki að kynnast Guði og nafni hans sem er Jehóva. – Jóhannes 17:3, 6.

  • Sönn trú kennir að eina von mannkyns sé ríki Guðs en ekki stjórnir manna. – Matteus 10:7; 24:14.

  • Sönn trú hvetur fólk til að sýna óeigingjarnan kærleika. (Jóhannes 13:35) Hún kennir mönnum að virða fólk af öllum þjóðernum, hjálpa öðrum með því að gefa af sjálfum sér og að blanda sér ekki í átök þjóða. – Míka 4:1-4.

  • Sönn trú er lífsstefna. Hún snýst ekki um hefðir og helgisiði. Þeir sem játa sanna trú fara eftir því sem þeir kenna. – Rómverjabréfið 2:21; 1. Jóhannesarbréf 3:18.

Vottar Jehóva, sem gefa út þetta tímarit, leggja sig fram um að heiðra Guð bæði í orði og verki. Kynnstu því af eigin raun með því að koma á samkomu hjá okkur í næsta ríkissal.