Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI

Leiðir til að takast á við streitu

Leiðir til að takast á við streitu

„Mér fannst ég vera eins og hamstur í hlaupahjóli sem hleypur án þess að komast nokkuð áfram. Ég vann oft 16 stunda vinnudag og átti sjaldnast frí um helgar. Mér gramdist að fá aðeins að sjá litlu stelpuna mína þegar hún var farin að sofa. Streitan var farin að koma niður á heilsunni.“ – Kari, Finnlandi.

KARI er ekkert einsdæmi. Haft er eftir góðgerðarstofnun á Bretlandi, sem fæst við geðheilbrigðismál, að fimmti hver breskur starfsmaður segist hafa orðið veikur af stressi á starfsævinni og að fjórði hver segist hafa brostið í grát í vinnunni vegna álags. Ársneysla þunglyndislyfja sló fyrri met þar í landi árið 2009 samfara efnahagslægð.

Hvað hefur valdið þér streitu?

 • Áhyggjur – fjárhagslegar eða aðrar

 • Krefjandi dagskrá

 • Ágreiningur

 • Áföll

Hvaða áhrif hefur streita haft á þig?

 • Veikindi

 • Tilfinningalega örmögnun

 • Svefntruflanir

 • Þunglyndi

 • Sambandsbresti

 Streita setur af stað einstakt kerfi – neyðarvakt líkamans. Líkaminn losar hormón út í blóðið til að herða á öndun og hjartslætti og hækka blóðþrýsting. Varabirgðir blóðkorna og glúkósa streyma út í blóðrásina. Þessi keðjuverkun býr líkamann undir að glíma við streituvaldinn. Þegar „hættan“ er liðin hjá getur líkaminn jafnað sig. En þegar streituvaldurinn fer ekki getur það valdið langvarandi spennu eða kvíða, líkt og vél sem er alltaf í botni. Það er því mikilvægt bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu að læra að takast á við streitu.

Að takast á við streitu

Streita þarf ekki alltaf að vera skaðleg. Bandaríska sálfræðingafélagið segir: „Streita virkar á manninn eins og strekking á fiðlustreng: Ef strengurinn er of slakur verður tónninn líflaus og rámur, en ef hann er of strekktur verður tónninn skrækur eða strengurinn slitnar. Streita getur kryddað tilveruna eða gert hana óbærilega. Það sem máli skiptir er að læra að takast á við hana.“

Annað sem vert er að hafa í huga er að fólk er ólíkt að skapgerð og heilsufari. Það sem veldur sumum streitu þarf ekki að hafa nein slík áhrif á aðra. En streitan er eflaust orðin að vandamáli þegar daglegt amstur veldur það miklu álagi að maður getur ekki slakað á eða tekist á við óvæntar uppákomur.

Sumir leita í áfengi, tóbak eða ýmis lyf til að „takast á við“ þráláta streitu. Aðrir taka upp óeðlilegar matarvenjur eða sitja aðgerðarlausir fyrir framan sjónvarp eða tölvu. Í stað þess að leysa vandann geta slíkar venjur aukið á hann. Hvernig getum við þá lært að takast á við streitu?

Hagnýt ráð Biblíunnar hafa hjálpað mörgum að takast á við álag lífsins. Gætir þú haft gagn af þeim? Hugleiddu það með því að skoða ráð sem hafa reynst vel til að takast á við fjóra algenga streituvalda.

 1 ÁHYGGJUR

Enginn fer alveg áhyggjulaus í gegnum lífið. Í Biblíunni segir: „Tími og tilviljun hittir ... alla fyrir.“ (Prédikarinn 9:11) Hvernig geturðu tekist á við áhyggjur? Prófaðu eftirfarandi tillögur:

 • Trúðu góðum vini eða nákomnum ættingja fyrir því hvernig þér líður. Rannsóknir sýna að stuðningur ástvina veiti alltaf vissa vernd gegn streitutengdum kvillum. „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.

 • Hugsaðu ekki stöðugt um það versta sem gæti gerst því að það er ekkert víst að það gerist. Slíkar hugsanir draga bara úr þér kjark. Það er ekki að ástæðulausu að Biblían segir: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ – Matteus 6:34.

 • Sæktu styrk í bænina. „Varpið allri áhyggju ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur,“ segir í 1. Pétursbréfi 5:7. Guð sýnir okkur umhyggju sína með því að gefa okkur innri frið og hann fullvissar okkur um að hann ,muni ekki yfirgefa‘ þá sem leita í einlægni til hans þegar þá vantar styrk og huggun. – Hebreabréfið 13:5; Filippíbréfið 4:6, 7.

2 KREFJANDI DAGSKRÁ

Að vera á sífelldum þönum í vinnu, námi eða við að sjá um börn eða aldraða foreldra getur verið stressandi. Og það er kannski ekki í boði að hætta að sinna sumum af þessum skyldum. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Hvernig er þá hægt að rísa undir álaginu?

 • Reyndu að gefa þér tíma til að slaka á og tryggðu þér næga hvíld. Í Biblíunni stendur: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ – Prédikarinn 4:6.

 • Forgangsraðaðu skynsamlega og settu markið ekki of hátt. (Filippíbréfið 1:10) Athugaðu hvort þú getir einfaldað lífið, til dæmis með því að draga úr útgjöldum eða minnka vinnuna. – Lúkas 21:34, 35.

Kari, sem minnst var á fyrr í greininni, endurskoðaði líf sitt. „Ég gerði mér grein fyrir að ég var eigingjarn,“ skrifaði hann. Hann seldi fyrirtækið og fékk sér vinnu sem gaf honum meiri tíma heima við. „Við höfum ekki úr eins miklu að moða,“ segir hann, „en við hjónin erum ekki lengur undir stöðugu álagi og við höfum meiri tíma til að vera með fjölskyldu og vinum. Ég myndi ekki vilja fórna þeim innri friði, sem ég á núna, fyrir neitt viðskiptatækifæri.“

 3 ÁGREININGUR

Ágreiningur getur valdið mikilli streitu, ekki síst í vinnunni. Ef slík togstreita myndast geturðu gert ýmislegt til að bæta ástandið.

 • Reyndu að halda ró þinni þegar einhver kemur þér í uppnám. Bættu ekki olíu á eldinn. „Mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði,“ segir í Orðskviðunum 15:1.

 • Reyndu að ná sáttum við þann sem þig greinir á við. Gerðu það undir fjögur augu og á vinsamlegan hátt. Þannig sýnirðu honum virðingu. – Matteus 5:23-25.

 • Reyndu að setja þig í spor hins aðilans. Það gerir okkur ,sein til reiði‘ að reyna að sjá hlutina frá sjónarhóli annarra. (Orðskviðirnir 19:11) Að sjá sjálf okkur með augum annarra getur líka hjálpað okkur að leysa úr ágreiningi.

 • Reyndu að fyrirgefa. Það er ekki bara fallega gert að fyrirgefa öðrum. Það er líka gott fyrir heilsuna. Í rannsókn frá árinu 2001 kom fram að „langrækni“ leiddi til umtalsvert „örari hjartsláttar og hærri blóðþrýstings“ en sáttfýsi dró úr streitu. – Kólossubréfið 3:13.

4 ÁFÖLL

Nieng, sem býr í Kambódíu, varð fyrir mörgum áföllum. Árið 1974 særðist hún í sprengingu á flugvelli. Árið eftir dóu börnin hennar tvö, móðir og eiginmaður. Árið 2000 urðu heimili hennar og aðrar eigur eldi að bráð og þremur árum síðar dó seinni maðurinn hennar. Þá langaði hana til að binda enda á líf sitt.

„Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti.“

Nieng fann þó leið til að glíma við aðstæður sínar. Hún byrjaði að kynna sér Biblíuna og hafði svo mikið gagn af því sem hún lærði að hún fór að nota tíma í að hjálpa öðrum að kynnast Biblíunni líka. Saga Nieng kallast á við breska rannsókn frá árinu 2008. Rannsakendur komust að því að ein leið til að þola álag er að „gefa af sér á einhvern hátt“. Biblían hefur lengi hvatt til þess. – Postulasagan 20:35.

Þar að auki eignaðist Nieng örugga von um betri framtíð þar sem öll vandamál, sem hrjá mannkynið, verða horfin. Þess í stað verður „friður og farsæld“ um alla jörð. – Sálmur 72:7, 8.

Það er ómetanlegt að búa yfir visku og eiga örugga von til að standast álag lífsins. Hvort tveggja má finna í Biblíunni. Milljónir manna njóta nú þegar góðs af þessari einstöku bók. Þú getur líka notið góðs af henni.