Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐTAL | GUILLERMO PEREZ

Yfirskurðlæknir skýrir frá trú sinni

Yfirskurðlæknir skýrir frá trú sinni

Guillermo Perez var yfirskurðlæknir á 700 rúma sjúkrahúsi í Suður-Afríku en er nýlega kominn á eftirlaun. Lengi vel trúði hann á þróun en núna er hann sannfærður um að mannslíkaminn sé hannaður af Guði. Vaknið! spurði hann út í trú hans.

Segðu okkur hvers vegna þú trúðir á þróun.

Ég var alinn upp í kaþólskri trú en hafði samt efasemdir um Guð. Ég gat til dæmis aldrei trúað að Guð kvelji fólk í helvíti. Þegar háskólakennararnir mínir kenndu að lífið hefði þróast en ekki verið skapað af Guði trúði ég því og gerði ráð fyrir að það væri byggt á rökum. Kirkjan mín var heldur ekkert mótfallin þróunarkenningunni en hún hélt því fram að Guð hefði stýrt þróuninni.

Af hverju fékkstu áhuga á Biblíunni?

Susana, konan mín, byrjaði að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Þeir sýndu henni í Biblíunni að Guð kvelji ekki fólk í logandi víti. * Þeir sýndu henni líka loforð Guðs um að breyta jörðinni í paradís. * Loksins höfðum við fundið kenningar sem vit var í. Árið 1989 fór vottur að nafni Nick að heimsækja mig reglulega. Þegar við ræddum um mannslíkamann og uppruna hans hreifst ég af einföldum rökum Biblíunnar í Hebreabréfinu 3:4 það sem segir: „Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert.“

Gerði þekking þín á mannslíkamanum þér auðveldara fyrir að trúa á sköpun?

Já. Meðal annars liggur stórkostleg hönnun á bak við það hvernig líkaminn getur gert við sjálfan sig. Til dæmis grær sár í fjórum stigum sem skarast. Hvert og eitt þeirra minnir mig á að sem skurðlæknir er ég aðeins að vinna með innbyggðu viðgerðarkerfi líkamans.

Hvað gerist þegar við fáum sár á líkamann?

Innan fárra sekúndna fer í gang keðjuverkun til að stöðva blæðinguna. Storknunarferlið er óhemjuflókið og skilvirkt. Pípulagningameisturum  hlýtur að finnast blóðrásarkerfið öfundsvert með sitt 100.000 kílómetra langa æðanet sem getur sjálft gert við sig og stöðvað leka.

Hvað gerist á öðru viðgerðarstiginu?

Blæðingin stöðvast innan nokkurra klukkutíma og sárið fer að bólgna. Bólgusvar líkamans er ótrúleg atburðarás. Æðar, sem höfðu fyrst í stað dregist saman til að minnka blóðmissi, gera nú hið gagnstæða. Þær víkka til að auka blóðflæði til sársins. Prótínríkur blóðvökvinn veldur þrota á skaddaða svæðinu. Þessi vökvi er nauðsynlegur til að vinna bug á sýkingu, draga úr eituráhrifum og fjarlægja skemmdan vef. Við bólgumyndun þarf líkaminn að framleiða milljónir sérhæfðra sameinda og frumna hverja á eftir annarri. Sumt sem gerist í þessu ferli ýtir næsta stigi af stað.

Hvernig heldur sárið áfram að gróa?

Innan tveggja daga byrjar líkaminn að mynda uppbyggingarefni. Þannig hefst þriðja stigið sem nær hámarki á um hálfum mánuði. Sérhæfðar frumur flykkjast að sárinu, fjölga sér og mynda þræði yfir það. Örfínar æðar skjóta líka öngum og vaxa að sárinu þar sem þær fjarlægja úrgangsefni og færa viðbótarnæringu meðan á niðurbroti og viðgerð stendur. Í öðru flóknu ferli myndast sérhæfðar frumur sem draga sárbarmana saman.

Þetta er ekkert smáræði! Hve lengi er sárið að gróa alveg?

Lokastigið, endurmótunin, getur tekið marga mánuði. Brotin bein ná sínum fyrri styrk og þráðunum, sem þöktu sár í mjúkum vefjum, er skipt út fyrir sterkari efni. Gróandi sár er stórmerkilegt dæmi um mjög skipulagt og samstillt kerfi.

Geturðu nefnt atvik sem er þér sérstaklega minnisstætt?

Ég get ekki annað en dáðst að því hvernig líkaminn læknar sig sjálfur.

Já. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég fékk til mín 16 ára stúlku sem hafði lent í alvarlegu bílslysi. Hún var í lífshættu með sundurtætt milta og innvortis blæðingar. Áður fyrr hefðum við skorið hana upp til að gera við miltað eða fjarlægja það. En núna reiða læknar sig meira á getu líkamans til að lækna sig sjálfur. Ég meðhöndlaði bara sýkinguna, vökvatapið, blóðskortinn og verkina. Nokkrum vikum seinna leiddi skoðun í ljós að miltað var gróið. Ég get ekki annað en dáðst að því hvernig líkaminn læknar sig sjálfur. Og það sannfærir mig enn frekar um að við séum hönnuð af Guði.

Hvað laðaði þig að vottum Jehóva?

Mér fannst þeir vingjarnlegir og þeir svöruðu alltaf spurningum mínum út frá Biblíunni. Ég dáðist líka að hugrekki þeirra að segja öðrum frá trú sinni og hjálpa fólki að kynnast Guði.

Fannst þér það hjálpa þér í starfi þínu að vera vottur Jehóva?

Já. Til að mynda hjálpaði það mér að takast á við hluttekningarþreytu, ákveðna tegund af útbruna sem leggst oft á lækna og hjúkrunarfólk sem eru stöðugt að hjálpa veiku eða slösuðu fólki. Þegar sjúklingar mínir vildu tala gat ég líka útskýrt fyrir þeim loforð skaparans um að binda enda á veikindi og þjáningar * og koma á heimi þar sem enginn segir: „Ég er veikur.“ *

^ gr. 7 Prédikarinn 9:5.

^ gr. 7 Jesaja 11:6-9.

^ gr. 23 Jesaja 33:24.