Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Úr ýmsum áttum

Úr ýmsum áttum

SUÐAUSTUR-ASÍA

Á árunum 1997-2011 fannst fjöldi áður óþekktra tegunda plantna og dýra á Stór-Mekong-svæðinu en það nær yfir Kambódíu, Laos, Mjanmar, Taíland, Víetnam og Yunnan-hérað í Kína. Ein þeirra er rauðeygði grópsnákurinn (Trimeresurus rubeus). Af þeim tegundum, sem fundust árið 2011, voru 82 plöntur, 21 skriðdýr, 13 fiskar, 5 froskdýr og 5 spendýr. Þetta kemur fram í greinargerð Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins (WWF).

EVRÓPA

Mansal er orðið alvarlegt vandamál í „öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins,“ segir í frétt í dagblaðinu The Moscow Times. Fólk er selt í kynlífsþrælkun og þrælkunarvinnu og jafnvel er stunduð „ólögleg verslun með líffæri“. Þeir sem selja fólk mansali notfæra sér fátækt, atvinnuleysi og misrétti kynjanna.

NÝJA-SJÁLAND

Rannsakendur, sem könnuðu sjónvarpsáhorf barna og unglinga, ályktuðu að „tengsl séu á milli of mikils sjónvarpsgláps og andfélagslegrar hegðunar snemma á fullorðinsárunum“. Þeir segja niðurstöðurnar renna stoðum undir þær ráðleggingar að börn ættu að horfa á „vandað dagskrárefni og ekki lengur en í eina eða tvær klukkustundir á dag“.

ALASKA

Næstum öll þorp frumbyggja í Alaska liggja við strendur eða árbakka og 86 prósent þorpanna verða fyrir áhrifum flóða og landrofs. Sagt hefur verið að vegna hækkandi hitastigs myndist strandís heldur seinna á árinu og eru strendurnar því berskjaldaðri fyrir haustvindunum.

HEIMURINN

Þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar í hreinni orku á borð við vind- og sólarorku er „meðal-orkueiningin, sem framleidd er nú til dags, álíka óhrein og fyrir 20 árum,“ segir Maria van der Hoeven, forstjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA).