Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Íhugun

Íhugun

Hvað er íhugun?

„Ég vil hugleiða öll þín verk, íhuga stórvirki þín.“ – Sálmur 77:13.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Íhugun er til í mörgum myndum. Margar aðferðir við íhugun eiga rætur að rekja til fornra austurlenskra trúarbragða. „Það þarf að tæma hugann til að hugsa skýrt,“ sagði rithöfundur um þetta efni. Orð hans lýsa því viðhorfi að það veiti innri ró, tæra hugsun og andlega hugljómun að tæma hugann með því að einbeita sér að ákveðnu orði eða hugmynd.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían talar vel um íhugun. (Jósúabók 1:8) Sú íhugun, sem hún hvetur til, felur þó ekki í sér að tæma hugann eða endurtaka aftur og aftur ákveðið orð eða setningu, svokallaða möntru. Hún felur öllu heldur í sér að leiða hugann að einhverju uppbyggilegu, eins og eiginleikum Guðs, lögum hans og sköpunarverki. „Ég ... hugleiði allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna,“ sagði trúfastur þjónn Guðs í bæn. (Sálmur 143:5) Hann sagði líka: „Ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.“ – Sálmur 63:7.

 Hvaða gagn geturðu haft af íhugun?

„Hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli.“ – Orðskviðirnir 15:28.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Heilnæm íhugun bætir okkar innri mann, hjálpar okkur að hafa stjórn á tilfinningunum og eflir siðferðisþrekið. Við öðlumst skilning og innsæi sem endurspeglast í tali okkar og hegðun. (Orðskviðirnir 16:23) Slík íhugun getur líka stuðlað að hamingjuríku og innihaldsríku lífi. Í Sálmi 1:3 segir um þann sem hugleiðir reglulega orð Guðs: „Hann er sem tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki. Allt, sem hann gerir, lánast honum.“

Íhugun bætir líka minnisgáfuna og eykur skilning okkar. Lýsum því með dæmi: Þegar við kynnum okkur sköpunarverkið eða viðfangsefni úr Biblíunni viðum við að okkur mörgum áhugaverðum staðreyndum. En þegar við íhugum þessar staðreyndir sjáum við hvernig þær tengjast innbyrðis og því sem við vissum fyrir. Íhugun hjálpar okkur þannig að raða saman staðreyndum í heilsteypta mynd líkt og smiður byggir fallegt hús úr byggingarefni sem hann hefur viðað að sér.

Þurfum við að stýra hugleiðingum okkar?

„Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ – Jeremía 17:9.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund ... heimska.“ (Markús 7:21, 22) Hugleiðingar okkar eru eins og eldur sem við verðum að beisla. Annars geta óviðeigandi hugsanir kynt undir skaðlegum löngunum sem gætu síðan blossað upp og leitt til illra verka. – Jakobsbréfið 1:14, 15.

Þar af leiðandi hvetur Biblían okkur til að hugleiða „allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert.“ (Filippíbréfið 4:8, 9) Þegar við ræktum með okkur slíkt hugarfar uppskerum við aðlaðandi eiginleika. Við verðum vingjarnleg í tali og samskipti okkar við aðra verða ánægjuleg og kærleiksrík. – Kólossubréfið 4:6.