Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Úr ýmsum áttum

Úr ýmsum áttum

BANDARÍKIN

Borgaryfirvöld í Los Angeles í Kaliforníu hafa samstillt öll umferðarljós borgarinnar, en þau eru hartnær 4.500 talsins og ná yfir 1.215 ferkílómetra svæði. Los Angeles er „fyrsta stórborg heims til þess“, samkvæmt The New York Times.

HEIMURINN

Alþjóðlegt heilbrigðismat leiddi í ljós að á árunum 1990-2010 fjölgaði þeim sem eiga við offitu að stríða um 82 prósent. Offita veldur meira en þrefalt fleiri dauðsföllum en vannæring – þó að matarskortur sé enn vandamál í mörgum löndum. Majid Ezzati, einn þeirra sem fór fyrir rannsókninni, segir: „Heimurinn hefur breyst á 20 árum úr því að geta ekki brauðfætt alla sem skyldi í það að hafa of mikinn mat – og óhollan mat – sem gerir okkur veik. Þetta á jafnvel við um þróunarlönd.“

MIDWAYEYJAR

Hvintrosi eða Laysan-albatrosi, sem er „elsti villti fugl í heimi sem vitað er um“, er búinn að klekja út enn einum unganum. Og hvað skyldi þessi ungamamma vera gömul? Hún var fyrst hringmerkt árið 1956 og var þá að minnsta kosti fimm ára. Hún er því orðin ríflega sextug. Þessi albatrosi hefur líklega náð að fljúga þrjár til fjórar milljónir kílómetra um ævina. Það samsvarar fjórum til sex ferðum til tunglsins og heim aftur.

SUÐUR-AFRÍKA

Rannsókn nokkur bendir til að þriðjungur suður-afrískra kvenna noti húðlýsandi sápur og krem til að gera húðina ljósari. Slík bleikiefni fyrir húðina eru skaðleg og bönnuð í sumum löndum. Að nota slík efni eykur hættuna á nýrnabilun, þunglyndi, kvíðaröskun, útbrotum, örum og ýmsum tegundum krabbameins.