Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Sköpun

Sköpun

Skapaði Guð jörðina á aðeins sex sólarhringum eins og sumir sköpunarsinnar halda fram?

„Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ – 1. Mósebók 1:1.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Guð skapaði alheiminn, þar á meðal jörðina, fyrir aldaöðli – eða „í upphafi“ eins og segir í 1. Mósebók 1:1. Vísindamenn eru sammála um að alheimurinn eigi sér upphaf. Nýlegar rannsóknir gera ráð fyrir að hann sé næstum 14 milljarða ára.

Biblían talar um sex sköpunardaga. En hún segir ekki að þessir dagar hafi verið sólarhringslangir. (1. Mósebók 1:31) Biblían notar orðið „dagur“ um mislöng tímabil. Hún segir til dæmis um allt sköpunartímabilið: „Á þeim degi er Drottinn Guð gerði himin og jörð.“ (1. Mósebók 2:4) Það virðist vera að sköpunardagarnir hafi spannað þúsundir ára. – Sálmur 90:4.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Rangar hugmyndir sköpunarsinna gætu orðið til þess að maður missti alla trú á Biblíuna. En ef Biblían inniheldur trúverðuga frásögn af sköpun heimsins þarf maður ekki að efast um að hún hafi að geyma mikla visku fyrir okkur. – Orðskviðirnir 3:21.

Notaði Guð þróun til að skapa lífið á jörðinni?

„Þá sagði Guð: ,Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund.‘“ – 1. Mósebók 1:24.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Guð skapaði ekki einfaldar lífverur og leyfði þeim síðan að þróast í flóknari lífverur. Hann skapaði grunntegundir flókinna jurta og dýra sem fjölguðu sér eftir sinni tegund. (1. Mósebók 1:11, 21, 24) Þess vegna er jörðin byggð lífverum sem eru af sömu tegundum og Guð skapaði upphaflega. – Sálmur 89:12.

Biblían tekur ekki fram hve mikill breytileiki geti rúmast innan tegundar þegar dýr sömu grunntegundar eiga afkvæmi saman og aðlagast umhverfi sínu. Sumir líta á slíka aðlögun sem þróun en engar nýjar tegundir verða til með þessum hætti. Vísindarannsóknir styðja þá hugmynd að grunntegundir jurta og dýra hafi lítið breyst í tímans rás.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Vísindaleg nákvæmni Biblíunnar varðandi tegundir lífvera styrkir trúverðugleika hennar á öðrum sviðum, til dæmis þegar hún fjallar um sögulega atburði og spádóma.

Hvaðan komu efnin sem heimurinn er myndaður úr?

„Ég þandi út himininn með eigin höndum.“ – Jesaja 45:12.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Guð er takmarkalaus orkulind. (Jobsbók 37:23) Það skiptir máli því að vísindamenn hafa komist að raun um að hægt er að umbreyta orku í efni. Biblían segir að Guð sé „voldugur að afli“ og að hann hafi beitt því til að skapa alheiminn. (Jesaja 40:26) Guð hefur lofað að nota afl sitt til að viðhalda sköpunarverkinu því að í Biblíunni segir um sólina, tunglið og stjörnurnar: „Hann fékk þeim stað um aldur og ævi.“ – Sálmur 148:3-6.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Stjörnufræðingurinn Allan Sandage segir: „Vísindin geta ekki svarað mikilvægustu spurningunum. Þegar þú spyrð hvers vegna lífið sé til ertu kominn út fyrir svið vísindanna.“ Biblían greinir frá sköpuninni á þann hátt sem samræmist vísindum. En hún svarar líka spurningum sem vísindin ráða ekki við, eins og: Hver er tilgangur Guðs með jörðina og mannkynið? *

^ gr. 16 Nánari upplýsingar er að finna í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva. Einnig er hægt að nálgast hana á Netinu á www.jw.org/is.