Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Þunglyndi

Þunglyndi

Hvað er þunglyndi?

„Ég er beygður og mjög bugaður, eigra um harmandi daginn langan.“ – Sálmur 38:7.

HVAÐ SEGJA SÉRFRÆÐINGAR?

Allir verða niðurdregnir af og til en þunglyndi er langvinnur sjúkdómur sem setur fólki miklar skorður og hefur alvarleg áhrif á daglegt líf þess. Hafa ber í huga að sérfræðingar eru ekki allir sammála um hvað sé „eðlileg“ depurð og hvað sé „sjúkdómur“. Það er þó óhætt að segja að sumir finni fyrir djúpstæðum neikvæðum tilfinningum, stundum samfara vanmáttarkennd og óhóflegri sektarkennd.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni er sagt frá fjölda karla og kvenna sem fundu fyrir neikvæðum tilfinningum. Hanna var til dæmis einu sinni „full örvæntingar“ eða „sárhrygg“ eins og það er orðað í annarri biblíuþýðingu. (1. Samúelsbók 1:10) Einhverju sinni var Elía spámaður svo miður sín að hann bað Guð að taka líf sitt. – 1. Konungabók 19:4.

Kristnir menn á fyrstu öld voru hvattir til að ,hughreysta ístöðulitla‘. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Í heimildarriti kemur fram að orðið, sem er þýtt ,ístöðulítill‘, geti lýst þeim sem eru „um stundar sakir að bugast undan álagi lífsins“. Ljóst er að jafnvel trúir þjónar Guðs, sem sagt er frá í Biblíunni, voru stundum langt niðri.

 Er þunglyndi sjálfum manni að kenna?

„Við vitum að öll sköpunin stynur.“ – Rómverjabréfið 8:22.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían kennir að sjúkdómar séu ein af afleiðingum uppreisnarinnar sem fyrstu hjónin gerðu. Til dæmis segir í Sálmi 51:7: „Sekur er ég fæddur, syndugur er móðir mín ól mig.“ Og í Rómverjabréfinu 5:12 stendur: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam, fyrsta manninum] og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ Við höfum erft ófullkomleikann frá Adam og þar af leiðandi erum við öll undirorpin sjúkdómum, bæði líkamlegum og geðrænum. Það veldur því að „öll sköpunin stynur“. (Rómverjabréfið 8:22) En Biblían gefur okkur líka von sem enginn læknir getur veitt – þá von að lifa í nýjum friðsömum heimi þar sem allir sjúkdómar og kvillar verða liðin tíð, þar á meðal þunglyndi. – Opinberunarbókin 21:4.

Hvernig er hægt að takast á við þunglyndi?

„Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ – Sálmur 34:19.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Við ráðum ekki aðstæðum okkar að öllu leyti þannig að stundum fer eitthvað miður í lífinu. (Prédikarinn 9:11, 12) Við getum hins vegar lært ákveðnar aðferðir til að takast á við það svo að neikvæðu tilfinningarnar taki ekki völdin.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían viðurkennir að sjúkir þurfi að leita læknis. (Lúkas 5:31) Ef þú átt við alvarlegt þunglyndi að stríða er ekkert að því að leita læknishjálpar. Í Biblíunni er líka lögð áhersla á að það sé hjálplegt að biðja. Til dæmis segir í Sálmi 55:23: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“ Bænin er engin tilfinningaleg hækja heldur bein samskipti við Jehóva Guð en hann er „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta“. – Sálmur 34:19.

Það getur líka verið þér til góðs að trúa nánum vini fyrir tilfinningum þínum. (Orðskviðirnir 17:17) „Trúsystir fékk mig í rólegheitum til að tala um þunglyndið,“ segir Daniela sem er vottur Jehóva. „Ég hafði forðast slíkar samræður árum saman en uppgötvaði fljótlega að það var einmitt það mig hafði alltaf vantað. Ég var hissa hvað mér létti við það.“