Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sandkötturinn sjaldséði

Sandkötturinn gýtur að meðaltali þremur kettlingum eftir um það bil tveggja mánaða meðgöngu.

Sandkötturinn sjaldséði

AÐ NÆTURLAGI mitt í þurri eyðimörkinni skríður sandkötturinn úr bæli sínu og nemur staðar. Hann lítur í kringum sig og sperrir eyrun. Síðan læðist hann af stað um sandauðnina.

Skyndilega stekkur sandkötturinn á bráð sína – stökkmús sem á sér einskis ills von. Veiðin heldur svo áfram alla nóttina og öðru hverju stekkur sandkötturinn á nýja bráð. Ef hann veiðir meira en hann getur torgað grefur hann afganginn í sandinn. Hann snýr aftur í bæli sitt í dögun og lætur sjaldan sjá sig yfir daginn. Hér eru nokkur áhugaverð sérkenni þessa sjaldséða dýrs.

  • Með næmri heyrn getur sandkötturinn fundið bráð sína jafnvel þegar hún er neðanjarðar.

  • Til að finna sér maka rekur högninn upp hátt gelthljóð. Næm heyrn læðunnar gerir henni kleift að heyra í honum langar leiðir.

  • Loðnar loppur sandkattarins forða honum frá því að sökkva ofan í sandinn og veita honum einangrun fyrir brennheitum eða ísköldum sandinum.

  •  Að innan eru eyrun þakin þykku hvítu hári sem ver köttinn fyrir sandfoki.

  • Það er erfitt að rekja slóð sandkattarins af því að gangþófarnir eru kafloðnir sem gerir slóð hans nær ósýnilega.

  • Sandkötturinn kemst af með þann vökva sem hann fær úr bráð sinni.

  • Sandurinn í Karakúmeyðimörkinni getur orðið býsna heitur eða allt að 80 gráður. Lofthitinn getur farið niður í 25 stiga frost.