Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VILLT DÝR

Elgurinn – sérkennilegur risi skógarins

Elgurinn – sérkennilegur risi skógarins

„ELGURINN er einstaklega luralegur og skrýtinn ásýndar. Hvers vegna er hann svona hár á herðakamb? Hvers vegna er hausinn svona langur?“ Henry David Thoreau, rithöfundur sem var uppi á 19. öld, velti þessu fyrir sér. En það eru fleiri en hann sem hafa verið með vangaveltur um elginn. Þar sem elgurinn er sjaldséður og furðulegur í útliti halda margir að hann sé klunnalegur í hreyfingum og heimskur. En er það rétt? Vísindamenn í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu hafa komist að mörgum áhugaverðum staðreyndum um þetta óvenjulega dýr.

Það er ekki hægt að neita því að elgurinn er risavaxinn og að löngu leggirnir gera hann klunnalegan í útliti. En leggjunum getur hann beitt til að verjast árás heillar úlfahjarðar. Elgir læra að synda aðeins nokkrum dögum eftir fæðingu og geta synt langar leiðir. Þeir geta líka kafað niður á næstum 6 metra dýpi til að nærast á vatnaplöntum.

Elgurinn getur hreyft augun og skynjað hreyfingu næstum beint fyrir aftan sig án þess að snúa höfðinu. Lyktarskynið reynist elgnum líka vel. Vísindamenn telja að þar sem svo breitt bil er milli nasanna hafi elgurinn þann einstaka hæfileika að geta ákvarðað staðsetningu með lyktarskyninu af mikilli nákvæmni. Svo er það heyrnin. Eyru hans geta snúist í allar áttir og greint hljóð frá öðrum elgum í allt að þriggja kílómetra fjarlægð.

Elgskálfar, sem eru „fáránlega sætir“ að mati rithöfundar nokkurs, eru mjög forvitnir og ófælnir að eðlisfari. Elgskýrnar vernda kálfana sína með því að hlúa vel að þeim og ráðast á alla sem ógna ungviði þeirra, þar á meðal úlfa, bjarndýr og jafnvel menn. Þegar hún er kálffull að nýju rekur hún veturgamlan kálfinn sinn í burtu svo að hann geti farið að standa á eigin fótum.

AÐ KOMAST AF Á NORÐURSLÓÐUM

Elgir lifa eingöngu á jurtum. Hvernig geta þeir þá lifað af kalda vetur? Að hluta til með því að kýla vömbina meðan hlýtt er í veðri. Elgir éta á hverjum degi yfir 20 kíló og skiptir þá engu hvort gróðurinn vex í þriggja metra hæð eða á þriggja metra dýpi. Þeir jórtra fæðuna, vinna úr henni nauðsynleg næringarefni og byggja upp fituforða líkamans. Þannig nýta þeir fæðuna sem best. Aftur á móti eru ýmsar aðrar hættur sem steðja að elgnum yfir vetrartímann.

Nístingskuldi og snjóþungi reynir mjög á þrek og úthald elgsins. Hann vill helst taka það rólega á veturna og hreyfa sig eins lítið og hann kemst upp með til að halda á sér hita undir hlýjum feldinum. Þó að það sé vissulega erfitt fyrir elginn að flýja undan úlfum í snjónum stafar honum meiri hætta af manninum, sérstaklega veiðimönnum og ökumönnum.

Elgurinn hefur dálæti á saltinu sem dreift er yfir marga þjóðvegi á norðurslóðum. Þar sem elgir eru með dökkan feld og leita gjarnan upp á vegina í myrkri er oft erfitt fyrir ökumenn að sjá þá í tæka tíð. Þess vegna verða þeir oft fyrir bíl. Það hefur kostað bæði menn og elgi lífið.

GÁSKAFULLT DÝR

Sést hefur til elgsins leika sér að því að ráðast á sjávaröldur og busla í heitum hverum. Kýrnar og tarfarnir eru blíð hvort við annað á fengitímanum og það er mjög hjartnæmt að sjá hversu sterk móðurástin er. Kálfar, sem menn hafa tekið í fóstur, geta myndað jafn sterk tengsl við eigendur sína eins og við móður sína í náttúrunni. Valerius Geist, doktor í dýrafræði, segir: „Þessi furðulegu og luralegu dýr geta verið úrræðagóð, ástúðleg og yfirmáta trygglynd.“

Elgskálfar eru mjög forvitnir og ófælnir að eðlisfari.

Eitt ber þó að varast. Elgurinn er mjög sterkt og kraftmikið villt dýr. Þannig að ef þú sérð elg í villtri náttúrunni er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og halda sig í hæfilegri fjarlægð. Það er sérstaklega mikilvægt þegar kálfar eru nærri. En jafnvel úr fjarlægð geturðu dáðst að þessum sérkennilega risa skógarins.