Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐTAL | BRETT SCHENCK

„Ég er sannfærður um að lífið er hannað af Guði“

„Ég er sannfærður um að lífið er hannað af Guði“

Brett Schenck starfaði í Bandaríkjunum við ráðgjöf í umhverfismálum áður en hann fór á eftirlaun. Hann rannsakaði innbyrðis tengsl plantna, dýra og umhverfis þeirra. Hvers vegna trúir hann á skapara? Vaknið! spurði hann út í trú hans og vísindastörf.

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér.

Faðir minn var véltæknifræðingur. Hann ræddi oft við mig um stærðfræði og vísindi af miklum áhuga. Þegar ég var strákur heillaðist ég af plöntu- og dýraríkinu í lækjum og tjörnum heima í New Paris í Ohio. Seinna fór ég í Purdue-háskólann og ákvað þá að stunda nám í vistfræði.

Hafðirðu áhuga á trúmálum?

Já, það hafði ég. Pabbi hvatti mig til að kynna mér vandlega lúterstrúna sem við aðhylltumst. Ég rannsakaði koine-grísku, eitt af frummálum Biblíunnar, og virðing mín fyrir Biblíunni óx mjög.

Hvað fannst þér um þróunarkenninguna?

Kirkjan mín var sátt við hana og starfsfélagar mínir trúðu henni. Ég dró hana því aldrei í efa. En ég trúði líka á Guð. Ég hélt að þetta tvennt færi saman. Þótt ég bæri virðingu fyrir Biblíunni taldi ég hana ekki koma frá Guði.

Hvað breytti skoðun þinni á Biblíunni?

Hjónin Steve og Sandy, sem eru vottar Jehóva, heimsóttu mig og Debbie, konuna mína. Þau sýndu okkur fram á að Biblían er vísindalega nákvæm þótt hún sé ekki kennslubók í vísindum. Þar stendur meðal annars um Guð: „Það er hann sem situr hátt yfir jarðarkringlunni.“ (Jesaja 40:22) Þar stendur líka að hann láti „jörðina svífa í geimnum“. (Jobsbók 26:7) Þessi biblíuvers höfðu mikil áhrif á mig á þessum tíma þar sem ég notaði gervitunglamyndir í námi mínu í vistfræðinni. Þau voru skráð löngu áður en nokkur tók myndir af jörðinni þar sem hún sést svífa í geimnum. Í biblíunámi okkar hjónanna hjá Steve og Sandy lásum við um spádóma sem hafa ræst. Við ræddum um ráð sem duga og fengum sannfærandi útskýringar. Smám saman sannfærðist ég um að Biblían væri orð Guðs.

Hvenær snerist þér hugur varðandi uppruna lífsins?

Það kom að því að Steve sýndi mér skýr orð Biblíunnar í 1. Mósebók 2:7: „Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar.“ Saga fyrsta mannsins er skjalfest. Þá vaknaði spurningin hvort Biblían samræmist vísindalegum staðreyndum. Steve hvatti mig til að rannsaka málið og það gerði ég.

Hvers varstu vísari um þróunarkenninguna?

Ég varð margs vísari. Svo aðeins eitt sé nefnt reynir þróunarkenningin að útskýra uppruna tegundanna. Lífverur eru með skilvirk líffæri eins og hjarta, lungu og augu. Í því örsmáa, eins og frumunni, sjáum við einnig snilldarlega hannaðar „vélar“. En hvaðan koma þær eiginlega? Samkvæmt þróunarsinnum velur náttúran sjálfkrafa bestu gangverkin því að lífverurnar, sem búa yfir þeim, komast betur af. En það svarar því ekki hvaðan þau koma. Ég komst að raun um að margir vísindamenn trúa ekki að þróunarkenningin hafi svarið. Prófessor í dýrafræði sagði mér að hann tryði þróunarkenningunni alls ekki. Hann hafði þó ekki hátt um það af ótta við að missa vinnuna.

Hefur þekking þín á vistfræði styrkt trú þína?

Já, hún hefur gert það. Starf mitt felst í því að rannsaka hvernig lífverur eru háðar hver annarri. Allt líf á jörðinni er háð einhverju. Tökum blóm og býflugur sem dæmi. Litur, angan, hunangslögur og lögun blómanna er til þess ætlað að laða býflugur til sín og úða yfir þær frjódufti. Býflugunum er áskapað að drekka hunangslöginn og bera frjóduftið milli blóma og frjóvga þau. Blómin og býflugurnar eru greinilega hönnuð til að uppfylla þarfir hvort annars.

,Seiglan í lífríkinu sannfærir mig um að lífið sé hannað af Guði.‘

Í vistkerfum eru innbyrðis tengsl lífvera gríðarlega mikil. Vistkerfi er tiltekið svæði þar sem lífverur lifa í sambýli hvert við annað og þær geta talist í þúsundum tegunda dýra, plantna, baktería og sveppa. Öll dýr eru háð plöntum til að fá fæðu og súrefni og flest blóm eru háð dýrum. Þó að vistkerfi séu afar flókin fyrirbæri og lífverurnar viðkvæmar geta þau haldið velli um þúsundir ára. Jafnvel þótt flókin vistkerfi verði fyrir skemmdum vegna mengunar geta þau náð sér aftur á strik eftir að mengunarvaldurinn er horfinn. Þegar ég hugsa um seigluna í lífríki jarðar er ég sannfærður um að lífið sé hannað af Guði.

Hvers vegna gerðistu vottur Jehóva?

Ég hafði alvarlegar áhyggjur af því hvernig mannfélagið er að eyðileggja umhverfi sitt því að mér var ljóst að þótt vistkerfi séu vissulega hörð af sér er hægt að eyðileggja þau. Vottar Jehóva kenndu mér að samkvæmt Biblíunni ætli Guð að „eyða þeim sem jörðina eyða“. (Opinberunarbókin 11:18) Þessi orð skiptu mig miklu máli. Þegar ég hélt biblíunámi mínu áfram áttaði ég mig smám saman á að vonin, sem Biblían gefur, er örugg.

Ég segi öðrum með ánægju frá því sem ég trúi og hef haft nokkra biblíunemendur úr hópi vísindamanna. Ég fór á eftirlaun aðeins 55 ára svo að ég gæti aðstoðað fleiri við að kynnast skapara lífsins og tilgangi hans með jörðina okkar sem er svo stórkostleg.