Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐTAL | PAOLA CHIOZZI

Lífefnafræðingur ræðir um trú sína

Lífefnafræðingur ræðir um trú sína

Paola Chiozzi er doktor í sameindalíffræði og hefur unnið við Ferrara-háskólann á Ítalíu í rúmlega 20 ár. Vaknið! tók hana tali og spurði hana út í vísindastaf hennar og trúna.

Segðu okkur aðeins frá bakgrunni þínum.

Faðir minn var skósmiður og móðir mín vann við landbúnað. Mig langaði hins vegar til að verða vísindamaður. Ég var heilluð af fallegu blómunum, fuglunum og skordýrunum í kringum heimili mitt. Mér fannst viskan, sem bjó að baki þessu, vera langt yfir mannlega visku hafin.

Hefurðu þá alltaf trúað á skapara?

Nei, reyndar ekki. Ég var bara barn þegar ég fór að efast um tilvist Guðs. Faðir minn dó óvænt úr hjartaáfalli og ég skildi ekki hvers vegna sá sem hefur skapað svo margt fallegt leyfi að við þjáumst og deyjum.

Fannstu svar við því í vísindunum?

Ekki til að byrja með. Þegar ég hafði lokið námi í sameindalíffræði fór ég að rannsaka frumudauða. Þá á ég við eðlilegan, stýrðan dauða frumna sem mannslíkaminn er gerður úr. Hann er mjög ólíkur stjórnlausum frumudauða sem veldur bólgum og drepi. Þó að stýrður frumudauði sé undirstaða góðrar heilsu gáfu vísindamenn þessu ferli lítinn gaum þar til fyrir fáeinum árum.

Hvers vegna er stýrður frumudauði nauðsynlegur?

Mannslíkaminn samanstendur af billjónum örsmárra frumna. Nánast allar þessar frumur deyja og endurnýjast. Hver frumutegund hefur ákveðið æviskeið. Sumar endurnýjast á nokkurra vikna fresti en aðrar á nokkurra ára fresti. Stýrður frumudauði er kerfi sem þarf að virka af mikilli nákvæmni til að jafnvægi haldist milli frumudauða og myndunar nýrra frumna.

 Hvað getur farið úrskeiðis?

Sumar rannsóknir benda til þess að ef frumur deyja ekki á tilsettum tíma geti það valdið liðagigt eða krabbameini. Ef frumur deyja hins vegar of fljótt getur það leitt til parkinsonsveiki eða Alzheimerssjúkdóms. Rannsóknir mínar miða að því að finna meðferðarúrræði við þessum sjúkdómum.

Hvernig höfðu rannsóknir þínar á frumudauða áhrif á þig?

Þær ollu mér miklum heilabrotum. Þetta stórkostlega ferli var greinilega hannað af einhverjum sem vildi að við byggjum við góða heilsu. Enn sem fyrr velti ég því fyrir mér hvers vegna fólk þjáist og deyr. Ég fann ekkert svar við því.

En þú varst samt sannfærð um að stýrður frumudauði væri ferli sem var hannað.

Já. Ferlið í heild sinni er ótrúlega flókið en er samt svo fágað að það vitnar um óvenjulega visku. Ég trúi að þessi viska sé komin frá Guði. Ég nota öflugar smásjár til að rannsaka ýmis flókin kerfi líkamans sem stýra þessu ferli. Sum þeirra geta hleypt af stað frumueyðingu á aðeins fáeinum sekúndum. Frumurnar taka sjálfar þátt í þessu ferli. Stýrður frumudauði er svo vel úthugsað ferli að það vekur með manni lotningu.

Þar sem nánast allar frumur líkamans endurnýja sig stöðugt ættum við að geta lifað að eilífu.

Þú veltir fyrir þér hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Hvernig fékkstu svar við því?

Árið 1991 bönkuðu tveir ungir vottar Jehóva upp á hjá mér og ég spurði þá hvers vegna við deyjum. Þeir sýndu mér svar Biblíunnar í Rómverjabréfinu 5:12 en þar segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni.“ Ef fyrsti maðurinn hefði ekki óhlýðnast Guði hefði hann lifað að eilífu. Ég sá strax að þetta samræmdist því sem ég hafði komist að við rannsóknir mínar. Það var alls ekki nýtt fyrir mér að Guð ætlaði mönnunum ekki að deyja. Þar sem nánast allar frumur líkamans endurnýja sig stöðugt ættum við að geta lifað að eilífu.

Hvað sannfærði þig um að Biblían væri orð Guðs?

Ég las það sem stendur um Guð í Sálmi 139:16: „Augu þín sáu mig sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir.“ (New World Translation) Starf mitt sem lífefnafræðingur snýst um að rannsaka upplýsingarnar sem erfðalykillinn veitir og eru skráðar í frumum okkar. Hvernig gat sálmaritarinn vitað um slíkar skrásettar upplýsingar? Sannfæring mín um að Biblían væri innblásið orð Guðs styrktist því meir sem ég kynnti mér hana.

Hvaða aðstoð fékkstu til að geta skilið það sem Biblían kennir?

Vottur Jehóva bauðst til að fræða mig um Biblíuna. Loks gat ég skilið hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Ég lærði líka af Biblíunni að ætlun Guðs er að „afmá dauðann að eilífu“. (Jesaja 25:8) Það verður auðvelt fyrir skapara okkar að láta hin stórkostlegu kerfi líkamans starfa fullkomlega þannig að við fáum að njóta lífsins endalaust.

Hvernig hefurðu notað biblíuþekkingu þína til að hjálpa öðrum?

Árið 1995 lét ég skírast sem vottur Jehóva og síðan þá hef ég reynt að nota hvert tækifæri til að segja öðrum frá því sem ég hef lært af Biblíunni. Ein samstarfskona mín var niðurbrotin þegar bróðir hennar framdi sjálfsmorð. Í kirkjunni hennar er kennt að Guð fyrirgefi aldrei sjálfsmorð. En ég sýndi henni að Biblían veitir von um upprisu. (Jóhannes 5:28, 29) Það var henni mikil huggun að fá að vita að skapara okkar er annt um okkur. Á slíkum stundum finn ég að jafnvel vísindarannsóknir mínar veita mér ekki eins mikla ánægju og að deila biblíusannindum með öðrum.