Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Paradís

Paradís

Hvað er paradís?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir halda að paradís sé hrein ímyndun. Aðrir trúa að paradís sé unaðsfagur aldingarður þar sem gott fólk unir sér við ánægjuleg og gefandi störf að eilífu.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Orðið paradís er oft notað um aldingarðinn Eden sem var fyrsta heimili mannkyns. (1. Mósebók 2:7-15) Í Biblíunni er Eden lýst sem raunverulegum stað þar sem fyrstu hjónin, þau Adam og Eva, áttu heima. Sjúkdómar og dauði voru ekki til. (1. Mósebók 1:27, 28) En Adam og Eva óhlýðnuðust Guði og þeim var úthýst úr paradís. Margir biblíuspádómar lýsa hins vegar þeirri framtíð að aftur verði paradís á jörð.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI FYRIR ÞIG?

Ef Guð er kærleiksríkur er rökrétt að ætla að hann launi þjónum sínum með einhverjum hætti, til dæmis með því að leyfa þeim að búa í paradís. Það er líka rökrétt að hann láti fólk vita hvað það þurfi að gera til að hljóta velþóknun hans. Í Biblíunni kemur fram að við getum hlotið velþóknun Guðs með því að kynnast honum og hlýða boðum hans. – Jóhannes 17:3; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

„Þá plantaði Drottinn Guð aldingarð í Eden . . . og setti þar manninn sem hann hafði mótað.“ – 1. Mósebók 2:8.

 Hvar er paradís?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir halda að paradís sé á himnum en aðrir telja að hún verði hér á jörð einhvern tíma í framtíðinni.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Hin upphaflega paradís var hér á jörð. Guð hefur tekið skýrt fram að mennirnir eigi að búa á jörðinni til frambúðar. Í Biblíunni segir að jörðin hafi verið sköpuð til að standa að eilífu. (Sálmur 104:5) Þar segir einnig: „Himinninn er himinn Drottins en jörðina gaf hann mannanna börnum.“ – Sálmur 115:16.

Það er því engin furða að í Biblíunni skuli vera gefið loforð um paradís á jörð. Guð mun veita mönnunum eilíft líf og þeir munu búa saman í friði og einingu. Sorgir og þrautir verða liðin tíð. Og fólk á eftir að njóta til fulls allra þeirra gæða og fegurðar sem jörðin hefur upp á að bjóða. – Jesaja 65:21-23.

„Tjaldbúð Guðs er meðal mannanna . . . Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.

Hverjir fá að búa í paradís?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Mörg trúarbrögð kenna að einungis gott fólk fái að búa í paradís. En menn hafa harla ólíkar skoðanir á því hvað það sé að vera góð manneskja. Sumir halda að það sé nóg að taka þátt í helgiathöfnum og bænahaldi.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían kennir að „réttlátir“ fái að búa í paradís. En hver er réttlátur í augum Guðs? Varla er það sá sem tekur þátt í helgiathöfnum trúfélags síns en skeytir ekki um vilja Guðs. Í Biblíunni segir: „Hefur Drottinn þá sömu velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum og hlýðni við boð sín? Hlýðni er betri en fórn.“ (1. Samúelsbók 15:22) Hinir réttlátu, sem fá að búa í paradís, eru með öðrum orðum þeir sem hlýða boðum Guðs eins og þau eru útlistuð í Biblíunni.

HVAÐ GETURÐU GERT?

Að hlýða boðum Guðs er meira en að taka þátt í trúarathöfnum. Við getum annaðhvort glatt Guð eða hryggt hann með daglegu hátterni okkar. Þú getur lært að gleðja Guð með því að kynna þér Biblíuna vel. Og það er ekki erfitt að þóknast honum því að „boðorð hans eru ekki þung,“ eins og segir í Biblíunni. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Guð langar til að launa þér hlýðnina með því að veita þér líf í paradís.

„Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.