Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Auðæfi sem eru verðmætari en peningar

Auðæfi sem eru verðmætari en peningar

Auðæfi sem eru verðmætari en peningar

JON starfaði sem ráðgjafi í Bandaríkjunum og honum vegnaði vel. Sem ungur maður var hann farinn að ferðast víða um heim og hafði rífandi tekjur. Þau hjónin áttu fallegt heimili og lifðu þægilegu lífi. Í augum margra voru þau komin á græna grein.

Lítum á annað dæmi. Kostas * komst á samning sem lærlingur hjá stórum evrópskum banka. Hann var einn af 80 sem komust að en umsækjendur höfðu verið 5.000. Á næstu árum vann hann sig upp og varð að lokum yfirmaður stórrar deildar hjá öðrum banka. Um það leyti sem hann hætti störfum þar og stofnaði eigið fyrirtæki voru árstekjur hans orðnar hærri en ævitekjur flestra. Honum fannst hann vera kominn á græna grein.

Bæði Jon og Kostas eru þó sannfærðir um að margt sé meira virði í lífinu en efnisleg auðæfi. Jon starfar nú sem sjálfboðaliði við að fræða aðra um Biblíuna og hjálpa þeim að eignast nánara samband við Guð. „Ég hef kynnst því af eigin raun að efnisleg auðæfi færa manni ekki hamingjuna,“ segir hann. „Maður er svo upptekinn við að afla sér peninga og halda í þá að það er lítill tími aflögu. Meginreglur Biblíunnar veita manni annars konar auðæfi, svo sem miklu hamingjusamara hjónaband, innri ró og góða samvisku.“

Kostas tekur í sama streng og segir: „Guð vill ekki að við helgum okkur því að lifa í munaði. Ef hann gefur okkur eitthvað umfram daglegar nauðsynjar er ég sannfærður um að það sé skylda okkar að nota það í samræmi við vilja hans.“ Fyrir skömmu byrjuðu Kostas og fjölskylda hans að læra nýtt tungumál til að geta kennt fleirum meginreglur Biblíunnar. „Við höfum komist að raun um að sælla er að gefa en þiggja,“ segir hann. — Postulasagan 20:35.

Jon og Kostas hafa báðir komist að raun um að andlegu verðmætin eru miklu meira virði en peningar. Daniel Gilbert, prófessor við Harvardháskóla, bendir á að sérfræðingar um geðheilsu „hafi áratugum saman rannsakað tengsl auðæfa og hamingju. Niðurstaðan hefur yfirleitt verið sú að efnisleg auðæfi geri fólk hamingjusamara þegar það færist úr örbirgð upp í millistétt.“ Hann bætir síðan við: „Eftir það gera þau lítið til að auka hamingjuna.“

Hvað hafa menn lært af biturri reynslu?

Glöggur maður sagði: „Þegar fólk er komið yfir fátækramörkin hafa hærri tekjur ótrúlega lítil áhrif á hamingju þess.“ Blaðamaður nokkur var minntur á þetta snemma á síðustu öld þegar hann átti viðtal við Andrew Carnegie sem var einn af brautryðjendum stáliðnaðarins og einn ríkasti maður heims á þeim tíma. „Ég er ekki öfundsverður,“ sagði Carnegie. „Hvernig geta auðæfin hjálpað mér? Ég er sextugur og meltingin ónýt. Ég myndi gefa allar milljónirnar mínar ef ég gæti orðið ungur og hraustur á ný.“

Síðan sagði blaðamaðurinn: „Carnegie sneri sér snöggt við. Það var beiskja og ólýsanleg geðshræring í lágri röddinni þegar hann sagði: ‚Ef með þyrfti myndi ég selja sál mína eins og Fást gerði. Ég myndi fúslega selja hvaðeina sem ég á til að fá að lifa lífinu aftur.‘“ Annar milljónamæringur, olíukóngurinn J. Paul Getty, tók undir með Carnegie og sagði: „Peningar þurfa ekki endilega að tengjast hamingju. Kannski óhamingju.“

Þú ert ef til vill sammála biblíuritaranum sem sagði í bæn til Guðs: „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi en veit mér minn deildan verð. Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: ‚Hver er Drottinn?‘ Ef ég yrði fátækur kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.“ — Orðskviðirnir 30:8, 9.

Salómon Ísraelskonungur sagði endur fyrir löngu: „Ég varð mikill og meiri öllum þeim er ríkt höfðu í Jerúsalem á undan mér.“ Síðan bætti hann við: „Allt var það hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ Hann sagði enn fremur: „Blessun Drottins auðgar og erfiði mannsins bætir engu við hana.“ — Prédikarinn 2:9-11; 5:11, 12; Orðskviðirnir 10:22.

Lykillinn að eilífri gæfu

Ljóst er að við finnum ekki sanna og varanlega hamingju nema við fullnægjum andlegum þörfum okkar. Ef við leggjum áherslu á að eiga gott samband við Guð verður lífið í heild auðugra og meira gefandi.

Til allrar hamingju er hægt að fullyrða að áhyggjur af peningum eiga ekki eftir að fylgja manninum um ókomna tíð. Í Biblíunni er því lofað að ágjörn og ágeng kaupsýsla eigi eftir að hverfa af sjónarsviðinu fyrir fullt og allt. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Þá tekur við nýr heimur Guðs þar sem réttlátar meginreglur hans ráða ríkjum. Jörðinni verður breytt í paradís eins og Guð ætlaðist til í upphafi þegar hann skapaði fyrstu mennina. Það verður mikil blessun að sjá kærleika, frið og hamingju fylla jörðina. — Jesaja 2:2-4; 2. Pétursbréf 3:13; 1. Jóhannesarbréf 4:8-11.

En lífið verður hvorki einhæft né leiðigjarnt. Auk þess að eiga náið samband við Guð fá mennirnir alls konar efnisleg gæði þegar Guð lætur upphaflega ætlun sína ná fram að ganga og mennirnir hljóta eilíft líf í paradís á jörð. Við höfum tryggingu fyrir því að það verði yfrið nóg af fæði og húsnæði handa öllum og allir hafi gefandi og göfgandi vinnu. Fátækt verður útrýmt með öllu. — Sálmur 72:16; Jesaja 65:21-23; Míka 4:4.

Enginn sem trúir í einlægni á Jehóva, Guð Biblíunnar, verður fyrir vonbrigðum. (Rómverjabréfið 10:11-13) Það er því viturlegt að sækjast núna eftir þeim auðæfum sem eru verðmætari en peningar. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-10.

[Neðanmáls]

^ Nafninu er breytt.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Ef við leggjum áherslu á að eiga gott samband við Guð getur lífið orðið auðugra og meira gefandi.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Við getum gert lífið ánægjulegra með því að fara skynsamlega með peninga.