Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu á verði gagnvart röngum upplýsingum

Vertu á verði gagnvart röngum upplýsingum

 Við höfum aðgang að meiri upplýsingum en nokkru sinni fyrr, þar á meðal þeim sem hjálpa okkur að tryggja öryggi okkar og heilsu. En við þurfum að vara okkur á röngum upplýsingum eins og:

 Í COVID-19 faraldrinum varaði til dæmis aðalritari Sameinuðu þjóðanna við hættulegri farsótt rangra upplýsinga. „Skaðlegum heilsuráðum og skottulækningum fer ört fjölgandi,“ sagði hann. „Ósannindi heyrast alls staðar í sjónvarpi og útvarpi. Samsæriskenningum er dreift á netinu. Hatrið stigmagnast gagnvart fólki og mismunandi hópum eins og sýking.“

 Rangar upplýsingar eru auðvitað ekki nýjar af nálinni. En Biblían sagði hins vegar fyrir að á okkur dögum ,myndu vondir menn og svikarar ganga æ lengra í illskunni. Þeir leiða aðra á villigötur og láta sjálfir leiðast afvega‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Og netið færir okkur falsfréttir, og möguleikann á að dreifa þeim óviljandi, með auðveldari og fljótvirkari hætti en nokkru sinni fyrr. Fyrir vikið geta fréttir með tölvupósti, samfélagsmiðlum og öðru sem við fáum í gegnum snjalltækin verið fullar af rangfærslum og hálfsannleika.

 Hvernig geturðu verndað þig fyrir villandi fréttum og samsæriskenningum? Skoðum nokkur ráð sem er að finna í Biblíunni og geta hjálpað.

 •   Trúðu ekki öllu sem þú heyrir og sérð

   Hvað segir Biblían? „Einfaldur maður trúir öllu en skynsamur maður íhugar hvert skref.“ – Orðskviðirnir 14:15.

   Ef við erum ekki á verði er auðvelt að láta blekkjast. Hugsaðu þér til dæmis myndir með texta eða stutt myndbönd sem er dreift á netinu, sérstaklega samfélagsmiðlum. Slíkt á gjarnan að vera fyndið. En það er auðvelt að taka myndir og stutt myndbönd úr samhengi eða breyta þeim. Það er jafnvel hægt að búa til myndbönd með fólki sem segir og gerir eitthvað sem það hefur aldrei sagt eða gert.

   „Flestar rangar upplýsingar sem rannsakendur finna á samfélagsmiðlum eru myndir og myndbönd sem eru tekin úr samhengi.“ – Axios Media.

   Spyrðu þig: Er þetta raunveruleg frétt eða bara skáldskapur?

 •   Skoðaðu hvaðan fréttin kemur og hvað hún segir

   Hvað segir Biblían? „Sannreynið allt.“ – 1. Þessaloníkubréf 5:21.

   Áður en þú trúir sögu eða sendir hana öðrum skaltu ganga úr skugga um að hún sé sönn, jafnvel þótt hún sé vinsæl eða hafi verið endurtekin í fréttum. Hvernig gerirðu það?

   Leggðu mat á áreiðanleika heimildarinnar. Fjölmiðlar og aðrar stofnanir geta sagt frétt á þann veg sem styður hagsmuni þeirra eða stjórnmálaskoðanir. Berðu saman það sem þú sérð í einni frétt við það sem aðrar heimildir segja. Stundum gætu vinir óviljandi sent manni rangar upplýsingar í tölvupósti eða á samfélagsmiðlum. Þú skalt því ekki treysta frétt nema þú getir gengið úr skugga um hvaðan hún komi.

   Gakktu úr skugga um að efnið sé í samræmi við nýjustu upplýsingar og rétt sé farið með staðreyndir. Leitaðu eftir dagsetningum, staðreyndum og sterkum sönnunum fyrir því sem er sagt. Vertu sérstaklega á verði ef flóknar upplýsingar virðast einfaldaðar úr hófi eða ef fréttin er sett fram til að vekja tilfinningaleg viðbrögð.

   „Að ganga úr skugga um að upplýsingar séu réttar er sennilega orðið jafnmikilvægt og handþvottur.“ Sridhar Dharmapuri, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna.

   Spyrðu þig: Setur þessi frétt skoðanir fram sem staðreyndir eða sýnir hún aðeins eina hlið málsins?

 •   Láttu staðreyndir en ekki persónulegan smekk vísa þér veginn

   Hvað segir Biblían? „Sá sem treystir á sjálfan sig er heimskur.“ – Orðskviðirnir 28:26.

   Við höfum tilhneigingu til að treysta upplýsingum sem staðfesta það sem við viljum trúa. Fyrirtæki á netinu senda þér gjarnan upplýsingar byggðar á því sem þú velur og þú hefur áður leitað að á netinu. En það sem okkur langar að heyra er ekki alltaf það sem við þurfum að heyra.

   „Fólk getur verið gætið og sýnt skynsemi en langanir okkar, óskir, ótti og hvatir gera okkur oft líklegri til að taka eitthvað trúanlegt ef það styður það sem við viljum trúa. – Peter Ditto, félagssálfræðingur.

   Spyrðu þig: Trúi ég þessum upplýsingum bara vegna þess að mig langar til að trúa þeim?

 •   Stöðvaðu dreifingu rangra upplýsinga

   Hvað segir Biblían? „Þú skalt ekki breiða út ósannar sögur.“ – 2. Mósebók 23:1.

   Mundu að upplýsingar sem þú deilir með öðrum geta haft áhrif á hugsanir þeirra og verk. Rangar upplýsingar sem þú dreifir áfram geta haft skaðleg áhrif þótt þú hafir ekki gert það viljandi.

   „Það mikilvægasta er að staldra við og spyrja sig: ,Er ég alveg viss um að þetta sé rétt svo að ég geti deilt því?‘ Ef allir færu eftir þessu væri langtum minna af röngum upplýsingum á netinu.“ – Peter Adams, aðstoðarvaraforseti News Literacy Project.

   Spyrðu þig: Er ég viss um að upplýsingarnar sem ég ætla að senda séu réttar?