Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að komast af með minna?

Hvernig er hægt að komast af með minna?

 Hefur versnandi efnahagsástand orðið til þess að þú átt erfiðara með að ná endum saman? Faraldrar, náttúruhamfarir, pólitísk ólga og stríð geta skyndilega haft áhrif á efnahag okkar. Skyndilegt tekjutap getur verið áhyggjuefni en gagnleg ráð byggð á viskunni í Biblíunni geta hjálpað okkur að komast af með minna.

1. Sættu þig við nýjar aðstæður.

 Meginregla Biblíunnar: Ég hef lært að búa við ‚allsnægtir og skort‘. – Filippíbréfið 4:12.

 Þótt þú hafir minni fjárráð en áður geturðu lært að laga þið að nýjum aðstæðum. Því fyrr sem þú sættir þig við aðstæðurnar og aðlagast þeim, þeim mun betur gengur þér og fjölskyldunni þinni að takast á við þær.

 Kynntu þér fjárhagsaðstoð sem stjórnvöld og aðrir aðilar bjóða upp á. Gerðu fljótt ráðstafanir þar sem slíkt er oft bara hægt að sækja um í ákveðinn tíma.

2. Vinnið saman sem fjölskylda.

 Meginregla Biblíunnar: „Áformin bregðast séu málin ekki rædd en allt fer vel ef ráðgjafarnir eru margir.“ – Orðskviðirnir 15:22.

 Ræddu stöðuna við maka þinn og börn. Þú getur með góðum samskiptum hjálpað öllum í fjölskyldunni að skilja og styðja breytingar sem þarf ef til vill að gera. Og þegar allir vinna saman að því að spara og forðast sóun endast peningarnir betur.

3. Gerðu fjárhagsáætlun.

 Meginregla Biblíunnar: „Sest hann þá ekki fyrst niður og reiknar kostnaðinn?“ – Lúkas 14:28.

 Þegar þú þarft að komast af með minna er mikilvægara en nokkru sinni að vita í hvað allir peningarnir þínir fara. Gerðu fjárhagsáætlun í samræmi við það sem þú gerir ráð fyrir að fá í hverjum mánuði. Síðan skaltu sundurliða núverandi mánaðarleg útgjöld og eyðsluvenjur, jafnvel þótt þú vitir að þær þurfi að breytast. Reyndu að hafa með í útgjöldum mánaðarins upphæð sem þú leggur til hliðar fyrir óvæntum kostnaði eða neyðartilfellum.

 Tillaga: Þegar þú fylgist með útgjöldum skaltu ekki gleyma að skrá minni upphæðir. Það kemur þér kannski á óvart hvað slíkar upphæðir safnast saman og verða háar. Maður uppgötvaði til dæmis þegar hann fór að fylgjast með útgjöldunum að hann eyddi hundruðum dollara á hverju ári í tyggigúmmí!

4. Forgangsraðaðu útgjöldunum og gerðu breytingar.

 Meginregla Biblíunnar: „Metið hvað sé mikilvægt.“ – Filippíbréfið 1:10.

 Berðu saman tekjur og útgjöld og sjáðu hvar þú getur skorið niður svo að þú getir lifað af tekjunum. Skoðaðu eftirfarandi:

  •   Samgöngur. Ef þú átt fleiri en einn bíl, gætirðu selt einn? Ef þú átt dýran bíl gætirðu þá skipt honum út fyrir hagkvæmari bíl? Gætirðu notað almenningssamgöngur eða reiðhjól og sleppt því alveg að reka bíl?

  •   Afþreying. Geturðu frestað, allavega um tíma, áskriftum á streymisveitum, gervihnattasjónvarpi eða kapalsjónvarpi? Geturðu fundið ódýrari möguleika? Gæti verið að þú gætir fengið lánaðar kvikmyndir, rafbækur og hljóðskrár þér að kostnaðarlausu á bókasafninu?

  •   Þjónusta. Ræðið saman sem fjölskylda hvernig hægt sé að draga úr kostnaði vegna vatns-, rafmagns- og eldsneytisnotkunar. Að slökkva á ljósum og taka styttri tíma í sturtu virðist kannski ekki skipta miklu máli en getur hjálpað til við að spara peninga.

  •   Matur. Forðist að fara út að borða. Eldið þess í stað heima. Skipuleggið máltíðir, kaupið inn og eldið nokkrar máltíðir í einu og nýtið afganga. Gerið innkaupalista áður en þið farið að versla og forðist þannig að kaupa óþarfa. Kaupið ferska matvöru sem er framleidd á svæði ykkar og er venjulega ódýrari en aðflutt. Forðist að kaupa ruslfæði. Skoðið möguleikann á að rækta ykkar eigin grænmeti.

  •   Klæðnaður. Kaupið föt aðeins þegar þið þurfið að endurnýja þau sem eru orðin slitin en ekki til að elta tískuna. Fylgist með útsölum og verslunum með notuð föt. Hengið þvott út á snúru ef veður og aðstæður leyfa. Það sparar notkun á þurrkaranum.

  •   Áform um kaup. Áður en þú kaupir eitthvað skaltu spyrja þig: „Hef ég efni á þessu? Hef ég þörf fyrir þetta?“ Gætirðu frestað því að endurnýja tæki og tól eins og til dæmis rafmagnstæki eða farartæki? Og gætirðu selt hluti sem þú hefur ekki lengur not fyrir? Þannig gætirðu einfaldað lífið og fengið aukatekjur.

 Ráð: Þegar tekjurnar minnka skyndilega gæti það verið hvatning til að hætta skaðlegum og kostnaðarsömum siðum eins og tóbaksnotkun, fjárhættuspili eða misnotkun áfengis. Það væri ekki aðeins gott fyrir fjárhaginn heldur myndi það líka bæta gæði lífsins.

5. Gefðu gaum að andlegri þörf þinni.

 Meginregla Biblíunnar: „Þeir sem skynja andlega þörf sína eru hamingjusamir.“ – Matteus 5:3.

 Í Biblíunni er að finna þetta skynsamlega ráð: „Viska veitir vernd eins og peningar veita vernd en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir að samfara visku heldur hún manni á lífi.“ (Prédikarinn 7:12) Slíka visku er að finna í Biblíunni og margir hafa uppgötvað að þegar þeir breyta í samræmi við hana hjálpar það þeim að forðast óhóflegar áhyggjur af fjárhagnum. – Matteus 6:31, 32.