Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjö ráð til að borða hollari mat og tryggja öryggi hans

Sjö ráð til að borða hollari mat og tryggja öryggi hans

 Hvers vegna skiptir máli hvað maður borðar?

 Heilsan veltur að hluta til á því hvað við borðum. Það stuðlar að betri heilsu að borða hollan og öruggan mat. En ef við á hinn bóginn meðhöndlum mat á rangan hátt og borðum óhollan mat getur það haft alvarleg áhrif á heilsuna rétt eins og lélegt eldsneyti getur orsakað bilanir í bílum. Áhrifin koma kannski ekki strax fram en þau munu koma fram. – Galatabréfið 6:7.

 Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að „öll lönd í heiminum verði fyrir áhrifum af einni eða fleiri myndum vannæringar“ – hugtak sem felur ekki einungis í sér að fá of litla næringu heldur líka ofþyngd og offitu. Ef maður borðar og drekkur oft það sem er óhollt eykur maður hættuna á hjartasjúkdómum, heilablóðfalli, sykursýki og krabbameini. Samkvæmt nýlegri rannsókn kostaði léleg næring í það minnsta 11 milljónir manna lífið á einu ári. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að skemmdur matur verði meira en þúsund manns að bana á hverjum degi og orsaki heilsuvandamál hjá hundruðum milljóna manna á hverju ári.

 Biblían hvetur okkur til að hugsa alvarlega um þessi mál. Hún kennir að Guð sé „uppspretta lífsins“. (Sálmur 36:9) Lífið er gjöf og við sýnum að við kunnum að meta það með því að hugsa vel um heilsu okkar og fjölskyldu okkar. Skoðum hvernig við getum gert það.

 Fjögur ráð til að tryggja að matur sé öruggur

 1. Útbúðu mat á öruggan hátt.

 Hvers vegna? Hættulegir sýklar a í menguðum mat og vatni og geta orsakað veikindi ef þeir komast í líkama okkar.

 Heilsusérfræðingar mæla með þessu:

 •   Þvoðu þér um hendur með sápu og vatni áður en þú meðhöndlar mat. b Nuddaðu höndum saman í að minnsta kosti 20 sekúndur. Skrúbbaðu handabökin, svæðin milli fingranna og undir nöglunum. Skolaðu og þurrkaðu hendurnar vel á eftir.

 •   Notaðu sápu og vatn til að þvo skurðarbretti, diska og allt sem matur kemst í snertingu við. Forðastu að nota sama bretti fyrir mat sem á að elda og þann sem á ekki að elda.

 •   Þvoðu alla ávexti og grænmeti og sótthreinsaðu þau líka ef þú býrð á svæði þar sem uppskera gæti hafa komist í snertingu við vatn sem er mengað af saur.

 2. Haltu hráum og elduðum mat aðskildum.

 Hvers vegna? Sýklar í hráum mat eins og kjöti og kjötsafa spilla annarri fæðu.

 Heilsusérfræðingar mæla með þessu:

 •   Aðgreindu allan hráan mat – sérstaklega kjöt – frá elduðum mat þegar þú tekur hann með þér úr búðinni og geymir hann.

 •   Þegar þú hefur skorið hrátt kjöt skaltu þvo hendurnar vandlega svo og hnífinn og skurðarbrettið áður en annar matur er meðhöndlaður.

 3. Gakktu úr skugga um að matur sem þarf að elda sé nægilega eldaður.

 Hvers vegna? Skaðlegir sýklar drepast aðeins þegar nægu hitastigi er náð.

 Heilsusérfræðingar mæla með þessu:

 •   Eldaðu mat þangað til hann er mjög heitur. Matur verður að ná 70 gráðu hita í að minnsta kosti 30 sekúndur. Það á líka við um kjarnhitann í kjöti.

 •   Láttu súpur og pottrétti sjóða.

 •   Þegar þú ætlar að borða afganga skaltu hita matinn þangað til hann er orðinn sjóðandi heitur.

 4. Geymdu mat við öruggt hitastig.

 Hvers vegna? Ef matur er geymdur við 5 til 60 gráður í aðeins 20 mínútur geta bakteríurnar í honum tvöfaldast. Auk þess geta sumar bakteríur í hráu kjöti myndað eiturefni sem drepast ekki við eldun ef það er ekki geymt við öruggt hitastig.

 Heilsusérfræðingar mæla með þessu:

 •   Haltu mat heitum eða köldum, ekki hálfvolgum, til að hægja á eða stöðva fjölgun sýkla.

 •   Láttu mat aldrei geymast við stofuhita í meira en tvær klukkustundir, eða í meira en eina klukkustund ef hitinn er hærri en 32 gráður.

 •   Haltu elduðum mat heitum þar til hann er borinn fram.

 Þrjú ráð til að borða hollan mat

 1. Borðaðu fjölbreytt úrval ávaxta og grænmetis á hverjum degi.

 Ávextir og grænmeti gefa okkur mikilvæg vítamín, steinefni og annað sem er nauðsynlegt góðri heilsu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að líkami okkar þurfi að minnsta kosti fimm skammta af ávöxtum og grænmeti yfir daginn. Þessir skammtar fela ekki í sér mjölríkt rótargrænmeti eins og kartöflur eða rófur.

 2. Borðaðu fitu og olíu í hófi.

 Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með að borða lítið af djúpsteiktum mat og unnum matvörum sem innihalda oft óholla fitu. Eldaðu með ómettaðri jurtaolíu þegar þess er kostur. c Þessar olíur eru betri en þær sem innihalda mikla mettaða fitu.

 3. Takmarkaðu neyslu salts og sykurs.

 Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með að fullorðið fólk borði ekki meira en eina teskeið af salti á dag. Hún mælir líka með að borða ekki meira en 60 millilítra (12 teskeiðar) af viðbættum sykri á dag. d Sykur er aðalhráefni margra unninna matvara og drykkja. Venjulegur 330 millilítra gosdrykkur inniheldur til dæmis allt að 40 millilítra af sykri. Í gosdrykkjum eru margar kaloríur er þeir hafa lítið eða ekkert næringargildi.

 Í Biblíunni segir: „Hinn skynsami sér hættuna og felur sig en hinir óreyndu ana áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 22:3) Ef þú sýnir skynsemi í sambandi við matarvenjur og gerir nauðsynlegar breytingar sýnirðu að þú sért þakklátur Guði fyrir líf þitt og heilsu.

 Algengar ranghugmyndir

 Ranghugmynd: Það er öruggt að borða mat ef það er ekkert að útlitinu, lyktinni eða bragðinu.

 Staðreynd: Það þarf 10 milljarða baktería til að grugga einn lítra af vatni, en aðeins 15 til 20 hættulegar bakteríur geta gert mann veikan. Útbúðu, berðu fram og geymdu mat og drykk við rétt hitastig og innan ráðlagðra tímamarka til að tryggja að það sé öruggt að neyta þeirra.

 Ranghugmynd: Flugur skaða ekki mat.

 Staðreynd: Flugur borða og fjölga sér í óhreinindum eins og saur. Þær bera því oft milljónir sýkla sem valda sjúkdómum á fótum sínum. Verðu útbúinn mat gegn spillingu flugna með því að hylja hann alveg.

 Ranghugmynd: „Ég hef borðað óhollan mat svo lengi að það gerir ekkert gagn þó að ég breyti matarvenjum mínum.“

 Staðreynd: Rannsóknir hafa leitt í ljós að það að bæta mataræðið núna muni draga úr líkum á ótímabærum dauða og að því lengur sem þú viðheldur góðum og hollum matarvenjum því meiri hag hafir þú af því.

a Sýklar, eða örverur, eru svo örsmáar lífverur að maður getur ekki séð þær með berum augum. Þar á meðal eru bakteríur, vírusar og sníkjudýr. Sumar örverur eru gagnlegar en þær hættulegu geta skaðað þig eða jafnvel dregið þig til dauða.

b Sápa og vatn fjarlægja sýkla betur en vatn eitt og sér.

c Ómettuð fita er í vökvaformi, en ekki föstu formi, þegar hún er við stofuhita.

d Viðbættur sykur felur meðal annars í sér óblandaðan eða unnin sykur eins og strásykur, hunang, síróp og ávaxtasafa. Hann á ekki við um náttúrulegan sykur sem finnst í ferskum ávöxtum, grænmeti og mjólk.