Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að yfirvinna farsóttarþreytu?

Hvernig er hægt að yfirvinna farsóttarþreytu?

 Ertu orðinn úrvinda af þreytu vegna ótta við COVID-19? Ef svo er þá ertu ekki einn um það. Mánuðum saman hefur fólk um allan heim þurft að læra að lifa með ógninni af farsóttinni. Margir „hafa fært miklar fórnir til að koma í veg fyrir að COVID-19 breiddist út,“ segir dr. Hans Kluge, yfirmaður Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. „Við slíkar aðstæður er auðvelt að verða sinnulaus og áhugalaus sem er einkennandi fyrir þreytu.“

 Ekki missa móðinn ef þú hefur upplifað farsóttarþreytu. Í Biblíunni er að finna ráð til að takast á við lífið á þessum streituvaldandi tímum. Þau geta líka komið þér að gagni.

 Hvað er farsóttarþreyta?

 Farsóttarþreyta er ekki sjúkdómur heldur hugtak sem lýsir eðlilegum viðbrögðum fólks við langvarandi óvissu og truflun á lífinu sem faraldurinn orsakar. Fólk bregst mismunandi við en nokkur algeng einkenni farsóttarþreytu eru:

 •   Áhugaleysi

 •   Breytingar á svefnvenjum og mataræði

 •   Skapstyggð

 •   Streita vegna verkefna sem venjulega hafa gengið vel

 •   Einbeitingarerfiðleikar

 •   Vonleysistilfinning

 Hvers vegna er farsóttarþreyta alvarleg?

 Farsóttarþreyta getur verið hættuleg fyrir okkur og aðra. Ef við pössum okkur ekki gætum við smám saman hætt að fylgja varúðarráðstöfunum vegna COVID. Með tímanum verðum við kannski andvaralaus jafnvel þótt veiran haldi áfram að dreifa sér og valda dauða. Ef við erum þreytt á því að lifa við hömlur gætum við sóst eftir meira frelsi sem gæti síðan sett okkur og aðra í meiri hættu.

 Á þessum erfiðu tímum upplifa margir það sem Biblían segir: „Ef þú missir kjarkinn á erfiðleikatímum verður máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 24:10) Í Biblíunni er að finna ráð sem geta hjálpað okkur að takast á við erfiðar aðstæður, þar á meðal faraldur.

 Hvaða ráð Biblíunnar geta hjálpað þér að sigrast á farsóttarþreytu?

 •   Haltu líkamlegri fjarlægð en ekki félagslegri

   Hvað segir Biblían? „Sannur vinur … er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskviðirnir 17:17.

   Hvers vegna skiptir það máli? Sannir vinir styrkja hver annan. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Langvarandi einangrun stofnar heilsu okkar hins vegar í hættu. – Orðskviðirnir 18:1.

   Prófaðu þetta: Haltu sambandi við vini þína símleiðis, með myndsíma eða tölvupósti og smáskilaboðum. Leitaðu til vina þinna þegar þú átt slæman dag og fylgstu reglulega með því hvernig þeir hafa það. Skiptist á ráðum um hvað hjálpar ykkur að takast á við faraldurinn. Leitaðu leiða til að gera eitthvað fyrir vin þinn og slæmur dagur verður betri.

 •   Gerðu það besta úr aðstæðunum

   Hvað segir Biblían? „Notið tímann sem best.“ – Efesusbréfið 5:16.

   Hvers vegna skiptir það máli? Að nota tímann skynsamlega getur hjálpað þér að vera jákvæður og forðast óhóflegar áhyggjur. – Lúkas 12:25.

   Prófaðu þetta: Leitaðu leiða til að gera gott úr aðstæðunum frekar en horfa á það sem þú getur ekki lengur gert. Hefurðu til dæmis tíma núna fyrir verkefni eða áhugamál sem þú gætir sinnt? Gætirðu varið meiri tíma með fjölskyldunni?

 •   Hafðu reglu á hlutunum

   Hvað segir Biblían? „Allt skal fara fram á … skipulegan hátt.“ – 1. Korintubréf 14:40.

   Hvers vegna skiptir það máli? Margir finna fyrir meiri stöðugleika og ánægju þegar þeir hafa reglu á hlutunum.

   Prófaðu þetta: Gerðu dagskrá sem passar við aðstæður þínar núna. Taktu frá ákveðinn tíma fyrir skóla, vinnu og húsverk og fyrir það sem styrkir samband þitt við Jehóva. Taktu auk þess tíma fyrir annað sem er uppbyggjandi eins og að vera með fjölskyldunni, fara út í náttúruna og hreyfa þig. Endurskoðaðu dagskrána reglulega og gerðu breytingar þegar þörf er á.

 •   Lagaðu þig að árstíðunum

   Hvað segir Biblían? „Hinn skynsami sér hættuna og felur sig.“ – Orðskviðirnir 22:3.

   Hvers vegna skiptir það máli? Árstíðaskipti geta hugsanlega haft þau áhrif að það eru færri tækifæri til að njóta útiveru og sólar sem er gott fyrir líkamlega og andlega heilsu okkar.

   Prófaðu þetta: Þegar nálgast vetur skaltu breyta í stofunni eða vinnusvæðinu þannig að þú nýtir sólarljósið sem best. Skipuleggðu það sem þú getur gert utandyra þrátt fyrir kaldari veðráttu. Fáðu þér vetrarföt ef þú getur sem gera þér kleift að vera meira utandyra.

   Þegar sumarið nálgast eru fleiri utandyra. Farðu því varlega. Skipuleggðu hvert þú ferð og veldu tíma þegar það safnast ekki of margt fólk saman.

 •   Haltu áfram að gæta öryggis vegna COVID

   Hvað segir Biblían? „Heimskinginn er ógætinn og öruggur með sig.“ – Orðskviðirnir 14:16.

   Hvers vegna skiptir það máli? COVID-19 er lífshættulegur sjúkdómur og við erum í hættu á að smitast ef við sofnum á verðinum.

   Prófaðu þetta: Skoðaðu reglulega leiðbeiningar um öryggi sem eru gefnar á þínu svæði og athugaðu hvort þú fylgir þeim. Veltu fyrir þér hvernig hegðun þín hefur áhrif á þig, fjölskyldu þína og aðra.

 •   Styrktu samband þitt við Guð

   Hvað segir Biblían? „Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ – Jakobsbréfið 4:8.

   Hvers vegna skiptir það máli? Guð getur hjálpað þér að takast á við hvaða erfiðleika sem er. – Jesaja 41:13.

   Prófaðu þetta: Lestu daglega í orði Guðs, Biblíunni. Þessi biblíulestraráætlun getur hjálpað þér að byrja.

 Hvers vegna ekki að hafa samband við Votta Jehóva til að vita hvernig þú getur notið góðs af þeim ráðstöfunum sem þeir hafa gert til að halda áfram að hittast meðan á COVID-19 faraldrinum hefur staðið? Þeir hafa til dæmis notað fjarfundabúnað til að hittast á samkomum, árlegri minningarhátíð um dauða Jesú og árlegum mótum.

 Biblíuvers sem koma að gagni við farsóttarþreytu

 Jesaja 30:15: „Styrkur ykkar er fólginn í að halda rónni og treysta mér.“

 Hvað merkir það? Að treysta ráðum Guðs getur hjálpað þér að halda rónni á erfiðum tímum.

 Orðskviðirnir 15:15: „Allir dagar hins þjakaða eru slæmir en sá sem er léttur í lund er alltaf í veislu.“

 Hvað merkir það? Að horfa á það jákvæða í lífinu getur hjálpað okkur að vera glöð, jafnvel á erfiðum tímum.

 Orðskviðirnir 14:15: „Einfaldur maður trúir öllu en skynsamur maður íhugar hvert skref.“

 Hvað merkir það? Fylgdu varúðarráðstöfunum í sambandi við heilsuna og vertu ekki fljótur að álykta að þær séu óþarfar.

 Jesaja 33:24: „Enginn í landinu mun segja: ‚Ég er veikur.‘“

 Hvað merkir það? Guð lofar að binda enda á alla sjúkdóma.