Fimmta Mósebók 8:1–20
8 Gætið þess vandlega að halda öll þau boðorð sem ég gef ykkur í dag svo að þið lifið,+ ykkur fjölgi og þið komist inn í landið sem Jehóva sór að gefa forfeðrum ykkar og takið það til eignar.+
2 Mundu hvernig Jehóva Guð þinn leiddi þig alla leiðina um óbyggðirnar þessi 40 ár+ til að þú yrðir auðmjúkur og til að reyna þig+ og kanna hvað byggi í hjarta þér,+ hvort þú myndir halda boð hans eða ekki.
3 Hann kenndi þér auðmýkt með því að láta þig finna til hungurs+ og gefa þér manna að borða+ sem hvorki þú né feður þínir þekktu. Hann vildi kenna þér að maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.+
4 Föt þín slitnuðu ekki og fætur þínir þrútnuðu ekki þessi 40 ár.+
5 Þú veist vel að Jehóva Guð þinn agaði þig, rétt eins og maður agar son sinn.+
6 Haltu boðorð Jehóva Guðs þíns, gakktu á vegum hans og óttastu hann.
7 Jehóva Guð þinn leiðir þig inn í gott land,+ land með ám, lindum og uppsprettum* sem streyma fram í dölum og á fjöllum,
8 land með hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám,+ land með ólívuolíu og hunangi,+
9 land þar sem matur verður ekki af skornum skammti og þig skortir ekkert, land þar sem járn er í steinunum og þú grefur kopar úr fjöllunum.
10 Þegar þú hefur borðað þig saddan skaltu lofa Jehóva Guð þinn fyrir þetta góða land sem hann hefur gefið þér.+
11 Gættu þess að þú gleymir ekki Jehóva Guði þínum og hættir að fylgja boðorðum hans, lögum og ákvæðum sem ég flyt þér í dag.
12 Þegar þú borðar þig saddan, reisir falleg hús og kemur þér fyrir,+
13 þegar nautgripum þínum og sauðfé fjölgar, þú safnar silfri og gulli og þú hefur meira en nóg af öllu
14 skaltu ekki ofmetnast í hjarta þér+ svo að þú gleymir Jehóva Guði þínum sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.+
15 Hann leiddi þig um hinar miklu og ógurlegu óbyggðir+ þar sem eru eiturslöngur og sporðdrekar, um skrælnað og vatnslaust land. Hann lét vatn streyma út úr tinnuhörðum kletti+
16 og gaf þér manna að borða+ í óbyggðunum, mat sem feður þínir þekktu ekki, til að þú yrðir auðmjúkur+ og til að reyna þig svo að þér farnaðist vel í framtíðinni.+
17 Ef þú hugsaðir með þér: ‚Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin styrk og krafti,‘+
18 skaltu muna að það er Jehóva Guð þinn sem gefur þér kraft til að afla þér auðæfa.+ Hann hefur gert það allt fram á þennan dag til að standa við sáttmálann sem hann gerði við forfeður þína.+
19 Ef þið gleymið Jehóva Guði ykkar, fylgið öðrum guðum, þjónið þeim og fallið fram fyrir þeim vara ég ykkur við í dag að þið munuð farast.+
20 Ykkur verður útrýmt eins og þjóðunum sem Jehóva eyðir frammi fyrir ykkur þar sem þið hlustuðuð ekki á Jehóva Guð ykkar.+
Neðanmáls
^ Eða „djúpum lindum“.