Fimmta Mósebók 29:1–29

  • Sáttmáli við Ísrael í Móab (1–13)

  • Varað við óhlýðni (14–29)

    • Það sem er hulið, það sem er opinberað (29)

29  Þetta eru orð sáttmálans sem Jehóva sagði Móse að gera við Ísraelsmenn í Móabslandi, auk sáttmálans sem hann gerði við þá hjá Hóreb.+  Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði: „Þið hafið séð allt sem Jehóva gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi gegn faraó, öllum þjónum hans og öllu landi hans.+  Þið sáuð hina miklu refsidóma,* hin miklu tákn og kraftaverk.+  En allt fram á þennan dag hefur Jehóva ekki gefið ykkur hjarta til að skilja, augu til að sjá né eyru til að heyra.+  ‚Þau 40 ár sem ég leiddi ykkur um óbyggðirnar+ slitnuðu hvorki fötin sem þið klæddust né sandalarnir á fótum ykkar.+  Þið átuð ekki brauð og drukkuð ekki vín né annað áfengi. Ég annaðist ykkur til að þið skilduð að ég er Jehóva Guð ykkar.‘  Þið komuð loks hingað og Síhon, konungur í Hesbon,+ og Óg, konungur í Basan,+ komu á móti okkur til að berjast við okkur en við sigruðum þá.+  Við tókum síðan land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse að erfðahlut.+  Farið því eftir orðum þessa sáttmála og hlýðið þeim svo að ykkur gangi vel í öllu sem þið gerið.+ 10  Þið standið öll frammi fyrir Jehóva Guði ykkar í dag: höfðingjar ættkvísla ykkar, öldungar ykkar, umsjónarmenn og allir karlmenn í Ísrael, 11  börn ykkar og eiginkonur+ og útlendingar+ sem eru í búðum ykkar, allt frá þeim sem safnar viði til þess sem sækir vatn. 12  Þið eruð hér til að gangast undir sáttmála Jehóva Guðs ykkar og eiðinn sem Jehóva Guð ykkar sver ykkur í dag.+ 13  Þar með gerir hann ykkur að fólki sínu+ svo að hann verði Guð ykkar+ eins og hann lofaði ykkur og sór forfeðrum ykkar, Abraham,+ Ísak+ og Jakobi.+ 14  En það er ekki aðeins við ykkur sem ég geri þennan eiðfesta sáttmála 15  heldur bæði við þá sem standa hér með okkur í dag frammi fyrir Jehóva Guði okkar og við þá sem eru ekki hér með okkur í dag. 16  (Þið vitið vel hvernig lífið var í Egyptalandi og hvernig við fórum um lönd ýmissa þjóða á leið okkar.+ 17  Þið sáuð allar viðurstyggðir þeirra og viðbjóðsleg skurðgoð* þeirra+ úr tré og steini, silfri og gulli.) 18  Gætið þess að ekki sé meðal ykkar í dag karl eða kona, ætt eða ættkvísl sem snýr hjarta sínu frá Jehóva Guði okkar til að þjóna guðum þessara þjóða.+ Á meðal ykkar má ekki finnast nokkur rót sem ber eitraðan ávöxt og malurt.+ 19  En ef einhver heyrir þennan eið, stærir sig í hjarta sínu og hugsar: ‚Mér gengur vel þó að ég láti mitt eigið hjarta ráða ferðinni,‘ þá eyðileggur hann allt* í kringum sig 20  og Jehóva mun ekki fyrirgefa honum.+ Reiði Jehóva mun öllu heldur blossa upp gegn þeim manni og öll sú bölvun sem skráð er í þessari bók kemur yfir hann.+ Jehóva afmáir nafn hans af jörðinni. 21  Jehóva mun síðan skilja hann frá öllum ættkvíslum Ísraels og láta ógæfu koma yfir hann í samræmi við alla bölvun sáttmálans sem skráð er í þessari lögbók. 22  Komandi kynslóð, börn ykkar, og útlendingurinn frá fjarlægu landi munu sjá plágurnar og hörmungarnar sem Jehóva hefur leitt yfir landið 23  – brennistein, salt og eld svo að engu verður sáð í landinu, ekkert spírar þar og enginn gróður vex, ekki frekar en í Sódómu og Gómorru+ eða Adma og Sebóím+ sem Jehóva eyddi í reiði sinni og heift. 24  Þá munu þau og allar þjóðir spyrja: ‚Hvers vegna fór Jehóva svona með þetta land?+ Hvað olli þessari miklu og brennandi reiði?‘ 25  Og þeim verður svarað: ‚Menn sneru baki við sáttmála Jehóva,+ Guðs forfeðra sinna, sem hann gerði við þá þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi.+ 26  Þeir fóru að þjóna öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim, guðum sem þeir þekktu ekki og hann hafði ekki leyft þeim að tilbiðja.*+ 27  Þá blossaði reiði Jehóva upp gegn landinu og hann lét alla bölvunina sem skráð er í þessari bók koma yfir það.+ 28  Jehóva sleit þá upp úr jarðvegi þeirra í reiði sinni,+ heift og gremju og sendi þá í útlegð til annars lands þar sem þeir eru enn í dag.‘+ 29  Það sem er hulið tilheyrir Jehóva Guði okkar+ en það sem er opinberað tilheyrir okkur og afkomendum okkar að eilífu svo að við getum fylgt hverju orði þessara laga.+

Neðanmáls

Eða „hinar miklu prófraunir“.
Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.
Orðrétt „hið vökvaða ásamt hinu þurra“.
Orðrétt „ekki úthlutað þeim“.