Þriðja Mósebók 8:1–36

  • Aron og synir hans vígðir sem prestar (1–36)

8  Jehóva sagði nú við Móse:  „Sæktu Aron og syni hans,+ taktu fatnaðinn,+ smurningarolíuna,+ syndafórnarnautið, hrútana tvo og körfuna með ósýrðu brauðunum+  og láttu allan söfnuðinn koma saman við inngang samfundatjaldsins.“  Móse gerði eins og Jehóva hafði sagt honum og söfnuðurinn safnaðist saman við inngang samfundatjaldsins.  Móse sagði við söfnuðinn: „Þetta er það sem Jehóva hefur sagt okkur að gera.“  Móse leiddi síðan Aron og syni hans fram og þvoði þeim með vatni.+  Hann klæddi Aron í kyrtilinn,+ gyrti hann belti,+ klæddi hann í ermalausu yfirhöfnina+ og hökulinn+ og hnýtti hökulbeltið*+ fast um hann.  Hann setti á hann brjóstskjöldinn+ og lét úrím og túmmím+ í hann.  Síðan setti Móse vefjarhöttinn+ á höfuð hans og framan á vefjarhöttinn festi hann skínandi gullplötuna, hið heilaga vígslutákn,*+ eins og Jehóva hafði sagt honum að gera. 10  Þessu næst tók Móse smurningarolíuna, smurði tjaldbúðina og allt sem í henni var+ og helgaði það. 11  Hann sletti nokkru af henni sjö sinnum á altarið og smurði það og öll áhöld þess til að helga það, og sömuleiðis kerið og undirstöðugrindina. 12  Að lokum hellti hann nokkru af smurningarolíunni á höfuð Arons og smurði hann til að helga hann.+ 13  Móse leiddi nú syni Arons fram, klæddi þá í kyrtla, gyrti þá belti og setti* á þá höfuðbúnað+ eins og Jehóva hafði sagt honum að gera. 14  Hann leiddi fram syndafórnarnautið, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð þess.+ 15  Móse slátraði nautinu, dýfði fingri í blóðið+ og bar það á öll horn altarisins. Hann hreinsaði altarið af synd en hellti því sem eftir var af blóðinu niður við altarið. Þannig helgaði hann það svo að hægt væri að friðþægja á því. 16  Hann tók alla netjuna, fituna á lifrinni, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenndi það á altarinu.+ 17  Það sem eftir var af nautinu, húðina, kjötið og gorið, lét hann brenna í eldi fyrir utan búðirnar+ eins og Jehóva hafði sagt honum að gera. 18  Hann leiddi nú fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.+ 19  Móse slátraði síðan hrútnum og sletti blóðinu á allar hliðar altarisins. 20  Hann hlutaði hrútinn sundur og brenndi hausinn, stykkin og mörinn á altarinu. 21  Hann þvoði garnirnar og skankana í vatni og brenndi allan hrútinn á altarinu. Þetta var brennifórn sem ljúfur* ilmur var af. Þetta var eldfórn handa Jehóva eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um. 22  Hann leiddi síðan fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn,+ og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.+ 23  Móse slátraði honum, tók nokkuð af blóðinu og bar það á hægri eyrnasnepil Arons, þumalfingur hægri handar hans og stórutá hægri fótar. 24  Að því búnu leiddi Móse syni Arons fram og bar nokkuð af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra, þumalfingur hægri handar þeirra og stórutá hægri fótar en sletti því sem eftir var af blóðinu á allar hliðar altarisins.+ 25  Hann tók nú fituna, feitan dindilinn, alla netjuna, fituna á lifrinni, bæði nýrun ásamt nýrnamörnum og hægra lærið.+ 26  Hann tók eitt ósýrt kringlótt brauð,+ eitt kringlótt brauð með olíu+ og eina flatköku úr körfunni með ósýrðu brauðunum sem var frammi fyrir Jehóva. Hann lagði brauðin ofan á fitustykkin og hægra lærið. 27  Hann lagði allt saman í hendur Arons og sona hans og veifaði því fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva. 28  Móse tók það síðan aftur úr höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Þetta var vígslufórn sem ljúfur* ilmur var af. Það var eldfórn handa Jehóva. 29  Þessu næst tók Móse bringuna og veifaði henni fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva.+ Þessi hluti vígsluhrútsins kom í hlut Móse eins og Jehóva hafði gefið honum fyrirmæli um.+ 30  Móse tók nokkuð af smurningarolíunni+ og nokkuð af blóðinu sem var á altarinu og sletti því á Aron og föt hans og á syni hans sem voru með honum og föt þeirra. Þannig helgaði hann Aron og föt hans ásamt sonum hans+ og fötum þeirra.+ 31  Móse sagði nú við Aron og syni hans: „Sjóðið+ kjötið við inngang samfundatjaldsins og borðið það þar með brauðinu sem er í vígslukörfunni eins og ég fékk fyrirmæli um með þessum orðum: ‚Aron og synir hans eiga að borða það.‘+ 32  Það sem eftir er af kjötinu og brauðinu skuluð þið brenna í eldi.+ 33  Þið megið ekki fara burt frá inngangi samfundatjaldsins í sjö daga, ekki fyrr en vígsludagar ykkar eru á enda, því að það tekur sjö daga að vígja ykkur sem presta.*+ 34  Jehóva gaf fyrirmæli um að við skyldum gera það sem við höfum gert í dag til að friðþægja fyrir ykkur.+ 35  Þið skuluð halda ykkur hjá inngangi samfundatjaldsins dag og nótt í sjö daga+ og gegna skyldum ykkar við Jehóva+ svo að þið deyið ekki, því að ég hef fengið þessi fyrirmæli.“ 36  Og Aron og synir hans gerðu allt sem Jehóva hafði gefið fyrirmæli um fyrir milligöngu Móse.

Neðanmáls

Eða „mittisband hökulsins“.
Eða „hina heilögu ennisspöng“.
Eða „vafði“.
Orðrétt „sefandi“.
Orðrétt „sefandi“.
Orðrétt „fylla hönd ykkar“.