Síðari Konungabók 13:1–25

  • Jóahas Ísraelskonungur (1–9)

  • Jóas Ísraelskonungur (10–13)

  • Elísa lætur reyna á kappsemi Jóasar (14–19)

  • Elísa deyr; látinn maður snertir bein hans og lifnar við (20, 21)

  • Síðasti spádómur Elísa rætist (22–25)

13  Á 23. stjórnarári Jóasar+ Ahasíasonar+ Júdakonungs varð Jóahas Jehúson+ konungur yfir Ísrael. Hann ríkti í 17 ár í Samaríu.  Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva og drýgði sömu syndir og Jeróbóam Nebatsson hafði fengið Ísrael til að drýgja.+ Hann sneri ekki baki við þeim.  Þá blossaði reiði Jehóva upp+ gegn Ísrael+ og hann gaf þá hvað eftir annað í hendur Hasaels+ Sýrlandskonungs og Benhadads+ sonar Hasaels.  En Jóahas grátbað Jehóva um miskunn* og Jehóva bænheyrði hann því að hann hafði séð harðræðið sem Ísrael þurfti að þola af hendi Sýrlandskonungs.+  Jehóva sá Ísrael fyrir frelsara+ til að leysa þá úr greipum Sýrlands, og Ísraelsmenn gátu búið á heimilum sínum eins og áður.*  (Þeir létu samt ekki af þeirri synd sem ætt Jeróbóams hafði drýgt, þeirri sem hann hafði fengið Ísrael til að drýgja.+ Þeir héldu áfram að syndga á sama hátt og auk þess fékk helgistólpinn*+ að standa í Samaríu.)  Í her Jóahasar voru aðeins eftir 50 riddarar, 10 stríðsvagnar og 10.000 fótgönguliðar því að Sýrlandskonungur hafði eytt hinum+ og traðkað á þeim eins og ryki á þreskivelli.+  Það sem er ósagt af sögu Jóahasar, öllu sem hann gerði og afrekaði, er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga.  Jóahas var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Samaríu.+ Jóas sonur hans varð konungur eftir hann. 10  Á 37. stjórnarári Jóasar Júdakonungs varð Jóas+ Jóahasson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti í 16 ár í Samaríu. 11  Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva og sneri ekki baki við neinum af þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson fékk Ísrael til að drýgja+ heldur hélt áfram að drýgja þær. 12  Það sem er ósagt af sögu Jóasar, öllu sem hann gerði og afrekaði og hvernig hann barðist við Amasía Júdakonung,+ er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 13  Jóas var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og Jeróbóam*+ settist í hásæti hans. Jóas var jarðaður í Samaríu hjá konungum Ísraels.+ 14  Þegar Elísa+ veiktist af þeim sjúkdómi sem dró hann að lokum til dauða kom Jóas Ísraelskonungur til hans, grét yfir honum og sagði: „Faðir minn, faðir minn! Stríðsvagn Ísraels og riddarar hans!“+ 15  Þá sagði Elísa við hann: „Sæktu boga og örvar.“ Og hann sótti boga og örvar. 16  „Leggðu nú höndina á bogann,“ sagði Elísa við Ísraelskonung. Hann gerði það og Elísa lagði hendur sínar á hendur konungs. 17  Síðan sagði hann: „Opnaðu gluggann sem snýr í austur.“ Og hann gerði það. „Skjóttu,“ sagði Elísa og hann skaut. Þá sagði Elísa: „Sigurör Jehóva, örin sem veitir sigur yfir Sýrlandi! Þú munt vinna sigur á Sýrlendingum við Afek+ þar til þú hefur gereytt þeim.“ 18  Síðan sagði hann: „Taktu örvarnar.“ Og hann tók þær. „Sláðu á jörðina,“ sagði Elísa við Ísraelskonung. Hann sló þrisvar á jörðina og hætti síðan. 19  Þá reiddist maður hins sanna Guðs og sagði: „Þú hefðir átt að slá á jörðina fimm eða sex sinnum! Þá hefðir þú unnið sigur á Sýrlendingum þar til þú hefðir gereytt þeim. En nú muntu aðeins sigra þá þrisvar.“+ 20  Eftir þetta dó Elísa og var jarðaður. Nú komu móabískir ránsflokkar+ inn í landið í byrjun hvers árs.* 21  Eitt sinn þegar nokkrir menn voru að jarða mann komu þeir auga á ránsflokk. Þá fleygðu þeir manninum í gröf Elísa og hlupu burt. Þegar hann snerti bein Elísa lifnaði hann við+ og stóð á fætur. 22  Hasael+ Sýrlandskonungur kúgaði Ísrael+ alla stjórnartíð Jóahasar. 23  En Jehóva sýndi þeim góðvild og miskunn.+ Hann lét sér annt um þá vegna sáttmála síns við Abraham,+ Ísak+ og Jakob.+ Hann vildi ekki eyða þeim og allt fram á þennan dag hefur hann ekki hrakið þá burt frá sér.* 24  Þegar Hasael Sýrlandskonungur dó varð Benhadad sonur hans konungur eftir hann. 25  Jóas Jóahasson náði þá aftur af Benhadad Hasaelssyni borgunum sem Hasael hafði tekið frá Jóahasi föður hans í stríði. Jóas sigraði hann þrisvar+ og endurheimti borgir Ísraels.

Neðanmáls

Eða „reyndi að milda Jehóva“.
Það er, við frið og öryggi.
Það er, Jeróbóam annar.
Líklega á vorin.
Orðrétt „augliti sínu“.