Fyrsta Mósebók 43:1–34

  • Bræður Jósefs fara aftur til Egyptalands, nú með Benjamín (1–14)

  • Jósef hittir bræður sína á ný (15–23)

  • Jósef heldur veislu fyrir bræður sína (24–34)

43  Hungursneyðin var mikil í landinu.+  Þegar þeir höfðu klárað allt kornið sem þeir komu með frá Egyptalandi+ sagði faðir þeirra við þá: „Farið aftur og kaupið handa okkur vistir.“  Júda sagði þá við hann: „Maðurinn tók það skýrt fram að við mættum ekki koma aftur til hans nema bróðir okkar væri með okkur.+  Ef þú sendir bróður okkar með okkur skulum við fara og kaupa vistir fyrir þig.  En ef þú leyfir honum ekki að koma með getum við ekki farið því að maðurinn sagði við okkur: ‚Þið megið ekki koma aftur til mín nema bróðir ykkar sé með ykkur.‘“+  Þá spurði Ísrael:+ „Hvers vegna þurftuð þið að koma mér í þessi vandræði? Þurftuð þið endilega að segja manninum að þið ættuð einn bróður enn?“  Þeir svöruðu: „Maðurinn spurði beint út um hagi okkar og fjölskyldu okkar. ‚Er faðir ykkar enn á lífi?‘ spurði hann. ‚Eigið þið einn bróður enn?‘ og við sögðum honum eins og var.+ Hvernig gátum við vitað að hann myndi segja: ‚Komið með bróður ykkar hingað‘?“+  Júda sagði við Ísrael föður sinn: „Leyfðu drengnum að fara með mér+ og leyfðu okkur að leggja af stað svo að við höldum lífi og deyjum ekki,+ bæði við og þú og börnin okkar.+  Ég mun tryggja öryggi hans.+ Ef ég kem ekki með hann aftur til þín og færi þér hann máttu draga mig til ábyrgðar og ég verð sekur við þig* alla ævi. 10  Ef við hefðum ekki beðið svona lengi værum við nú komnir heim í annað sinn.“ 11  Þá sagði Ísrael faðir þeirra við þá: „Ef við höfum ekki um annað að velja gerið þá þetta: Fyllið sekki ykkar af bestu afurðum landsins og færið manninum að gjöf:+ lítið eitt af balsami+ og hunangi, sólrósarkvoðu, kvoðuríkan börk,+ pistasíuhnetur og möndlur. 12  Takið með ykkur tvöfalda fjárhæð og farið aftur með peningana sem voru settir efst í pokana ykkar.+ Kannski var um mistök að ræða. 13  Takið bróður ykkar og farið aftur til mannsins. 14  Megi almáttugur Guð vekja með manninum meðaumkun í ykkar garð svo að hann leyfi hinum bróður ykkar og Benjamín að fara með ykkur heim. En ef svo fer að ég missi syni mína þá fer sem fer.“+ 15  Mennirnir tóku gjöfina og tvöfalda fjárhæð og lögðu af stað til Egyptalands með Benjamín. Þar gengu þeir aftur á fund Jósefs.+ 16  Þegar Jósef sá að Benjamín var með þeim sagði hann við ráðsmann sinn: „Farðu með mennina inn í húsið, slátraðu dýrum og eldaðu mat því að mennirnir eiga að borða með mér hádegisverð.“ 17  Maðurinn gerði þegar í stað eins og Jósef sagði+ og fór með þá inn í hús hans. 18  En mennirnir urðu hræddir þegar þeir voru leiddir þangað og sögðu: „Það er vegna peninganna sem voru settir aftur í pokana okkar í fyrra skiptið að við erum leiddir hingað. Nú ætla þeir að ráðast á okkur og gera okkur að þrælum og taka asna okkar!“+ 19  Þeir sneru sér þá að ráðsmanni Jósefs við inngang hússins 20  og sögðu: „Afsakið, herra. Við komum hingað í fyrra skiptið til að kaupa vistir.+ 21  En þegar við komum á gististað og opnuðum pokana okkar sáum við að peningar hvers og eins voru efst í poka hans, öll upphæðin,+ og nú erum við komnir til að skila peningunum. 22  Og við erum auk þess með peninga til að kaupa vistir. Við vitum ekki hver kom peningunum fyrir í pokunum.“+ 23  „Engar áhyggjur,“ svaraði ráðsmaðurinn. „Þið hafið ekkert að óttast. Guð ykkar og Guð föður ykkar lét fjársjóð í sekki ykkar. Peningarnir ykkar rötuðu í mínar hendur.“ Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra.+ 24  Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn til að þvo fætur sína og fóður handa ösnunum. 25  Þeir tóku fram gjöfina+ til að hafa hana tilbúna þegar Jósef kæmi í hádeginu því að þeir höfðu heyrt að þeir ættu að borða hádegisverð þarna.+ 26  Þegar Jósef kom inn í húsið gáfu þeir honum gjöfina og féllu fram fyrir honum.+ 27  Hann spurði hvernig þeir hefðu það og bætti við: „Hvernig líður öldruðum föður ykkar sem þið minntust á? Er hann enn á lífi?“+ 28  „Þjóni þínum, föður okkar, líður vel,“ svöruðu þeir. „Hann er enn á lífi.“ Síðan hneigðu þeir sig og lutu honum.+ 29  Þegar hann kom auga á Benjamín bróður sinn, son móður sinnar,+ spurði hann: „Er þetta yngsti bróðir ykkar sem þið sögðuð mér frá?“+ Hann bætti við: „Guð sýni þér velvild, sonur minn.“ 30  Jósef gat ekki lengur hamið tilfinningar sínar í garð bróður síns og var við það að bresta í grát. Hann rauk því burt og fór inn í herbergi þar sem hann gat verið út af fyrir sig og grét þar.+ 31  Eftir að hafa jafnað sig þvoði hann sér í framan, kom út aftur og sagði: „Berið fram matinn.“ 32  Þeir báru þá á borð, sér fyrir hann, sér fyrir þá og sér fyrir Egyptana sem voru með honum, en Egyptar geta ekki setið til borðs með Hebreum því að það er andstyggilegt í augum þeirra.+ 33  Bræðrunum* var vísað til sætis andspænis honum eftir aldri, frá frumburðinum eftir frumburðarrétti hans+ til hins yngsta, og þeir horfðu undrandi hver á annan. 34  Hann sendi skammta frá sínu borði til þeirra en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en hinna.+ Og þeir átu og drukku með honum þar til þeir urðu saddir.

Neðanmáls

Eða „mun bera synd mína“.
Orðrétt „Þeim“.