Postulasagan 27:1–44

27  Fyrst ákveðið var að við skyldum sigla til Ítalíu voru Páll og nokkrir aðrir fangar afhentir liðsforingja sem hét Júlíus og var úr hersveit Ágústusar.  Við fórum um borð í skip frá Adramýttíum sem átti að sigla til hafna við strönd skattlandsins Asíu og lögðum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var með okkur.  Daginn eftir komum við að landi í Sídon. Júlíus var Páli góðviljaður* og leyfði honum að fara og hitta vini sína til að njóta umhyggju þeirra.  Þaðan létum við í haf og sigldum í skjóli við Kýpur því að við höfðum mótvind.  Síðan sigldum við um opið haf undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til hafnar í Mýru í Lýkíu.  Þar fann liðsforinginn skip frá Alexandríu sem var á leið til Ítalíu og lét okkur fara um borð.  Okkur miðaði hægt dögum saman en náðum með herkjum til Knídus. Þar sem vindur tálmaði för okkar sigldum við undir Krít við Salmóne og fengum þar skjól.  Við sigldum með erfiðismunum meðfram ströndinni og komum til staðar sem kallast Góðhafnir og er í grennd við borgina Laseu.  Nú var liðinn dágóður tími og siglingar orðnar hættulegar því að komið var fram yfir föstu friðþægingardagsins. Páll vildi því vara þá við og sagði: 10  „Góðir menn, ég sé að þessi sjóferð á eftir að enda með hrakningum. Bæði verður mikið tjón á farmi og skipi og við lendum í lífshættu.“* 11  En liðsforinginn tók meira mark á skipstjóranum og eiganda skipsins en því sem Páll sagði. 12  Þar sem höfnin hentaði illa til vetrarlegu mæltu flestir með að sigla þaðan og reyna að ná til Fönix og hafa vetrarlegu þar. Þessi höfn á Krít er opin til norðausturs og suðausturs. 13  Þegar snerist í hæga sunnanátt töldu þeir að þeir myndu ná markmiði sínu, léttu akkerum og sigldu meðfram Krít nærri landi. 14  En áður en langt um leið skall á norðaustan hvassviðri.* 15  Skipið hrakti og ekki var hægt að beita því upp í vindinn svo að við gáfumst upp og létum reka. 16  Síðan komumst við í var við litla eyju sem nefnist Káda. Þar gátum við með naumindum bjargað skipsbátnum* við skutinn. 17  Eftir að hafa híft hann um borð reyrðu þeir skipsskrokkinn köðlum til að styrkja hann. Þeir óttuðust að skipið myndi stranda í Syrtuflóa* og felldu því seglin og létu reka. 18  Daginn eftir fóru þeir að kasta farmi fyrir borð til að létta skipið þar sem það veltist um í illviðrinu. 19  Á þriðja degi köstuðu þeir búnaði skipsins fyrir borð. 20  Þegar hvorki sá til sólar né stjarna dögum saman og ofsaveðrinu linnti ekki urðum við vondaufir um að bjargast. 21  Nú höfðu menn ekki borðað lengi. Páll steig þá fram og sagði: „Góðir menn, þið hefðuð átt að fara að ráðum mínum og leggja ekki úr höfn á Krít. Þá hefðuð þið ekki orðið fyrir þessum hrakningum og tjóni. 22  En nú hvet ég ykkur til að herða upp hugann því að enginn ykkar* mun týna lífi, aðeins skipið mun farast. 23  Í nótt stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég tilheyri og veiti heilaga þjónustu. 24  Hann sagði: ‚Óttastu ekki, Páll. Þú átt að koma fyrir keisarann og þín vegna mun Guð bjarga öllum sem eru þér samferða.‘ 25  Herðið því upp hugann, góðir menn. Ég trúi að Guð geri alveg eins og mér var sagt. 26  Okkur hlýtur að bera að landi á einhverri eyju.“ 27  Um miðnætti 14. nóttina sem okkur hrakti um Adríahaf fór skipverja að gruna að við værum að nálgast land. 28  Þeir mældu dýpið og reyndist það 20 faðmar.* Eftir að skipið hafði rekið aðeins lengra mældu þeir á ný og var dýpið þá 15 faðmar.* 29  Þeir óttuðust að okkur kynni að reka upp á sker, köstuðu fjórum akkerum úr skutnum og biðu þess óþreyjufullir að það birti af degi. 30  Skipverjar reyndu að flýja skipið og settu skipsbátinn útbyrðis en þóttust vera að kasta akkerum úr stefninu. 31  Páll sagði þá við liðsforingjann og hermennina: „Þið getið ekki bjargast nema þessir menn séu kyrrir um borð.“ 32  Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann reka burt. 33  Undir dögun hvatti Páll alla til að fá sér matarbita og sagði: „Þetta er 14. dagurinn sem þið hafið beðið örvæntingarfullir og ekkert borðað. 34  Ég hvet ykkur því til að borða eitthvað, það er ykkur til góðs. Enginn ykkar mun týna hári af höfði sér.“ 35  Að svo mæltu tók hann brauð, þakkaði Guði í allra augsýn, braut það og fékk sér að borða. 36  Allir urðu nú vongóðir og borðuðu líka. 37  Alls vorum við 276 manns* á skipinu. 38  Þegar þeir höfðu borðað nægju sína léttu þeir skipið með því að kasta hveitifarminum fyrir borð. 39  Þegar birti þekktu þeir ekki landið en sáu þar vík með sandfjöru og ákváðu að reyna að beina skipinu þar á land. 40  Þeir hjuggu á akkerisfestarnar, skildu akkerin eftir í sjónum og losuðu böndin af stýrisárunum. Síðan drógu þeir upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar. 41  Þeir lentu á rifi, skipið strandaði og stefnið sat fast en skuturinn tók að liðast í sundur í hafrótinu. 42  Hermennirnir ákváðu þá að drepa fangana þannig að enginn þeirra kæmist undan á sundi. 43  En liðsforinginn vildi bjarga Páli og afstýrði því sem þeir ætluðu sér. Hann skipaði þeim sem voru syndir að stökkva fyrstir fyrir borð og synda í land. 44  Hinir áttu að fylgja á eftir, ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilu og höldnu í land.

Neðanmáls

Eða „sýndi Páli mannúð“.
Eða „sálir okkar verða í hættu“.
Á grísku Evraký′lon.
Smábátur sem hægt var að nota sem björgunarbát.
Sjá orðaskýringar.
Eða „engin sál ykkar á meðal“.
Um 36 m. Sjá orðaskýringar.
Um 27 m. Sjá orðaskýringar.
Eða „sálir“.