Sálmur 89:1–52

 • Sungið um tryggan kærleika Jehóva

  • Sáttmáli við Davíð (3)

  • Afkomendur Davíðs skulu standa að eilífu (4)

  • Hinn smurði kallar Guð föður (26)

  • Sáttmálinn við Davíð stendur (34–37)

  • Menn geta ekki umflúið gröfina (48)

Maskíl.* Eftir Etan Esrahíta. 89  Ég vil syngja að eilífu um tryggan kærleika Jehóva. Með munni mínum kunngeri ég öllum kynslóðum trúfesti þína.   Ég segi: „Tryggur kærleikur varir að eilífuog þú hefur grundvallað trúfesti þína á himnum.“   „Ég hef gert sáttmála við minn útvalda,ég hef svarið Davíð þjóni mínum:   ‚Ég læt afkomendur þína standa að eilífuog geri hásæti þitt óhagganlegt um ókomnar kynslóðir.‘“ (Sela)   Himnarnir lofa undraverk þín, Jehóva,já, söfnuður hinna heilögu trúfesti þína.   Hver á himnum jafnast á við Jehóva? Hver meðal sona Guðs er eins og Jehóva?   Guði er sýnd lotning í söfnuði hinna heilögu,hann er mikill og vekur lotningu allra í kringum sig.   Jehóva, Guð hersveitanna, hver er eins voldugur og þú, Jah? Þú ert trúfastur í einu og öllu.   Þú ríkir yfir ólgandi hafinu,þú róar öldurnar þegar þær rísa. 10  Þú hefur gersigrað Rahab og drepið hana. Með sterkri hendi tvístraðir þú óvinum þínum. 11  Þinn er himinninn og þín er jörðin,frjósamt landið og allt sem á því er – þú myndaðir þetta allt. 12  Norðrið og suðrið – þú skapaðir þau,Tabor og Hermon lofa nafn þitt með fögnuði. 13  Handleggur þinn er máttugur,hönd þín sterk. Hægri hönd þín er á lofti. 14  Réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis þíns,trúfesti og tryggur kærleikur standa frammi fyrir þér. 15  Sú þjóð er hamingjusöm sem veit hvað fögnuður er. Jehóva, hún gengur í ljósinu frá andliti þínu. 16  Hún gleðst yfir nafni þínu allan liðlangan daginnog réttlæti þitt upphefur hana. 17  Þú ert dýrð hennar og styrkurog viðurkenning þín eykur okkur kraft.* 18  Skjöldur okkar tilheyrir Jehóva,konungur okkar Hinum heilaga Ísraels. 19  Þá talaðir þú til þinna trúu í sýn og sagðir: „Ég hef styrkt máttugan mann,ég hef upphafið útvalinn mann meðal fólksins. 20  Ég hef fundið Davíð þjón minnog smurt hann með heilagri olíu minni. 21  Hönd mín mun styðja hannog handleggur minn styrkja hann. 22  Enginn óvinur skal krefja hann um skattog enginn ranglátur maður kúga hann. 23  Ég gereyði fjandmönnum hans frammi fyrir honumog felli þá sem hata hann. 24  Trúfesti mín og tryggur kærleikur er með honumog vegna nafns míns fær hann aukinn styrk.* 25  Ég gef hendi hans vald yfir hafinuog hægri hendi hans yfir ánum. 26  Hann mun kalla til mín: ‚Þú ert faðir minn,Guð minn og kletturinn sem bjargar mér.‘ 27  Ég gef honum stöðu frumburðar,skipa hann æðsta konung jarðar. 28  Ég sýni honum tryggan kærleika að eilífuog sáttmáli minn við hann verður aldrei rofinn. 29  Ég læt afkomendur hans standa að eilífuog hásæti hans eins lengi og himnarnir vara. 30  Ef synir hans snúa frá lögum mínumog lifa ekki eftir fyrirmælum* mínum, 31  ef þeir brjóta gegn ákvæðum mínumog halda ekki boðorð mín, 32  þá refsa ég þeim* með staf í hendiog hýði þá fyrir afbrot þeirra. 33  En ég læt aldrei af tryggum kærleika mínum til hansog svík aldrei loforð mitt. 34  Ég rýf ekki sáttmála minnné breyti því sem komið hefur af vörum mínum. 35  Ég sór í heilagleika mínum í eitt skipti fyrir öll,ég lýg ekki að Davíð. 36  Ætt* hans mun standa að eilífu,hásæti hans eins og sólin frammi fyrir mér. 37  Það skal standa að eilífu eins og tunglið,trúfast vitni á himnum.“ (Sela) 38  En þú hefur hafnað þínum smurðaog útskúfað honum í reiði þinni. 39  Þú hefur rift sáttmálanum við þjón þinn,þú hefur vanhelgað kórónu hans og kastað henni til jarðar. 40  Þú hefur brotið niður alla múra* hans,lagt varnarvirki hans í rúst. 41  Allir sem fara hjá ræna hann,nágrannar hans hæðast að honum. 42  Þú hefur veitt fjandmönnum hans sigur,*látið alla óvini hans gleðjast. 43  Þú hefur stöðvað sverð hansog látið hann hörfa í stríðinu. 44  Þú hefur bundið enda á tign hans og ljómaog steypt hásæti hans til jarðar. 45  Þú hefur stytt æskudaga hans,þú hefur klætt hann skömm. (Sela) 46  Hve lengi, Jehóva, ætlarðu að vera í felum? Að eilífu? Heldur reiði þín áfram að brenna eins og eldur? 47  Mundu hve stutt ævi mín er. Var það til einskis að þú skapaðir alla menn? 48  Hver getur lifað og aldrei séð dauðann? Getur einhver flúið* undan valdi grafarinnar?* (Sela) 49  Hvar er tryggur kærleikur þinnsem þú, Jehóva, sýndir áðurog þú lofaðir Davíð í trúfesti þinni? 50  Mundu, Jehóva, hvernig hæðst er að þjónum þínum,að ég þarf að þola* háðsglósur allra þjóða. 51  Mundu, Jehóva, hvernig óvinir þínir ausa úr sér svívirðingumog lasta þinn smurða í hverju skrefi sem hann stígur. 52  Lofaður sé Jehóva að eilífu. Amen og amen.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „upphefur horn okkar“.
Orðrétt „er horn hans upphafið“.
Eða „dómum“.
Eða „þeim fyrir uppreisn þeirra“.
Eða „Afkomendur“.
Eða „öll steinbyrgi“.
Orðrétt „lyft hægri hendi fjandmanna hans“.
Eða „bjargað sál sinni“.
Á hebr. sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „bera í barmi mér“.