Opinberunarbókin 9:1–21

  • Fimmti lúðurinn (1–11)

  • Fyrsta ógæfan liðin hjá, tvær eftir (12)

  • Sjötti lúðurinn (13–21)

9  Fimmti engillinn blés í lúður sinn. Og ég sá stjörnu sem hafði fallið af himni til jarðar og henni* var fenginn lykillinn að göngunum niður í undirdjúpið.  Stjarnan* opnaði göngin að undirdjúpinu og reykur steig upp úr þeim eins og reykur úr stórum bræðsluofni, og sólin og loftið myrkvaðist af reyknum úr göngunum.  Engisprettur komu út úr reyknum og fóru um jörðina og þeim var fengið vald, sama vald og sporðdrekar jarðarinnar hafa.  Þeim var sagt að skaða ekki gras jarðarinnar né nokkurn grænan gróður né nokkurt tré heldur aðeins það fólk sem hefur ekki innsigli Guðs á enni sér.  Engispretturnar máttu ekki drepa fólkið en áttu að kvelja það í fimm mánuði, og kvalirnar voru eins og þegar sporðdreki stingur mann.  Á þessum dögum munu menn leita dauðans en ekki finna hann, og þeir þrá að deyja en dauðinn mun flýja þá.  Engispretturnar litu út eins og hestar búnir til bardaga. Á höfðinu báru þær eitthvað sem líktist gullkórónum og andlit þeirra voru eins og mannsandlit  en þær höfðu hár eins og konur. Tennur þeirra voru eins og ljónstennur  og þær voru með brynjur sem líktust járnbrynjum. Vængjaþytur þeirra hljómaði eins og gnýr í hestum með vagna sem bruna fram til bardaga. 10  Þær hafa hala með broddi eins og sporðdrekar og í halanum býr máttur til að kvelja mennina í fimm mánuði. 11  Þær hafa konung yfir sér, engil undirdjúpsins. Á hebresku heitir hann Abaddón* en á grísku Apollýón.* 12  Fyrsta ógæfan er liðin hjá en tvær eiga enn eftir að koma. 13  Sjötti engillinn blés í lúður sinn. Þá heyrði ég rödd eina frá hornum gullaltarisins sem er frammi fyrir Guði 14  segja við sjötta engilinn með lúðurinn: „Leystu englana fjóra sem eru bundnir hjá fljótinu mikla, Efrat.“ 15  Og englarnir fjórir voru leystir, en þeir höfðu verið búnir undir þá stund, dag, mánuð og ár til að drepa þriðjung fólksins. 16  Í riddaraliðinu voru 20.000 sinnum 10.000. Ég heyrði tölu þeirra. 17  Hestarnir og riddararnir í sýninni litu þannig út: Riddararnir voru með eldrauðar, djúpbláar og brennisteinsgular brynjur. Höfuð hestanna voru eins og ljónshöfuð, og eldur, reykur og brennisteinn kom út af munni þeirra. 18  Þessar þrjár plágur, eldurinn, reykurinn og brennisteinninn sem kom út af munni þeirra, urðu þriðjungi fólksins að bana 19  en vald hestanna er í munni þeirra og tagli. Töglin eru eins og höggormar og eru með höfuð, og með þeim skaða þeir fólk. 20  En hitt fólkið, sem fórst ekki í þessum plágum, iðraðist ekki þess sem það hafði gert með höndum sínum.* Það hætti ekki að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, kopar, steini og tré sem geta hvorki séð, heyrt né gengið. 21  Það iðraðist þess ekki heldur að hafa myrt, iðkað dulspeki, stundað kynferðislegt siðleysi* né að hafa stolið.

Neðanmáls

Eða „honum“. Hér er notað karlkyn í grísku.
Eða „Hann“. Sjá 1. vers, neðanmáls.
Sem þýðir ‚eyðing‘.
Sem þýðir ‚eyðandi‘.
Orðrétt „handaverka sinna“.
Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.