Lúkas segir frá 6:1–49

  • Jesús er „drottinn hvíldardagsins“ (1–5)

  • Maður með visna hönd læknast (6–11)

  • Postularnir 12 (12–16)

  • Jesús kennir og læknar (17–19)

  • Hamingja og ógæfa (20–26)

  • Að elska óvini sína (27–36)

  • Hættið að dæma (37–42)

  • Þeir þekkjast af ávöxtum sínum (43–45)

  • Vel byggt hús; hús án traustrar undirstöðu (46–49)

6  Hvíldardag einn fór Jesús um kornakra og lærisveinar hans tíndu kornöx, neru þau milli handanna og átu.  Þá sögðu sumir faríseanna: „Hvers vegna gerið þið það sem er bannað á hvíldardegi?“  En Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði þegar hann og menn hans voru svangir?  Hann gekk inn í hús Guðs og honum voru fengin skoðunarbrauðin og hann át og gaf einnig mönnum sínum af þeim, en þau má enginn borða nema prestarnir.“  Síðan sagði hann við þá: „Mannssonurinn er drottinn hvíldardagsins.“  Annan hvíldardag gekk hann inn í samkunduhúsið og fór að kenna. Þar var maður með visna* hægri hönd.  Fræðimenn og farísear fylgdust vandlega með Jesú til að sjá hvort hann myndi lækna á hvíldardegi en þeir vildu finna tilefni til að ákæra hann.  Hann vissi aftur á móti hvað þeir hugsuðu og sagði því við manninn með visnu* höndina: „Stattu upp og komdu fram í miðjan salinn.“ Hann stóð þá upp og kom.  Síðan sagði Jesús við þá: „Ég spyr ykkur: Er leyfilegt að gera gott eða illt á hvíldardegi, að bjarga lífi* eða tortíma því?“ 10  Hann leit á alla í kringum sig og sagði svo við manninn: „Réttu fram höndina.“ Maðurinn gerði það og höndin varð heilbrigð. 11  En þeir urðu hamslausir af reiði og fóru að ræða sín á milli hvað þeir gætu gert við Jesú. 12  Um þessar mundir gekk hann á fjallið til að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. 13  Þegar dagur rann kallaði hann lærisveinana til sín, valdi 12 úr hópnum og nefndi þá postula: 14  Símon sem hann nefndi einnig Pétur, Andrés bróður hans, Jakob, Jóhannes, Filippus, Bartólómeus, 15  Matteus, Tómas, Jakob Alfeusson, Símon sem var kallaður „hinn kappsami“, 16  Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot sem varð svikari. 17  Hann gekk niður með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks frá allri Júdeu og Jerúsalem og strandsvæðinu við Týrus og Sídon kom til að hlusta á hann og læknast af sjúkdómum sínum. 18  Jafnvel þeir sem óhreinir andar þjáðu læknuðust. 19  Allt fólkið reyndi að snerta hann því að kraftur fór út frá honum og læknaði alla. 20  Hann leit upp, horfði á lærisveinana og sagði: „Þið sem eruð fátæk eruð hamingjusöm því að ríki Guðs tilheyrir ykkur. 21  Þið sem eruð hungruð núna eruð hamingjusöm því að þið verðið södd. Þið sem grátið núna eruð hamingjusöm því að þið munuð hlæja. 22  Þið eruð hamingjusöm þegar menn hata ykkur og þegar þeir útskúfa ykkur og smána og sverta nafn ykkar* vegna Mannssonarins. 23  Fagnið á þeim degi og hoppið af gleði því að laun ykkar eru mikil á himni. Þannig fóru forfeður þeirra líka með spámennina. 24  En aumingja þið sem eruð rík því að þið hafið fengið alla þá huggun sem þið fáið. 25  Aumingja þið sem eruð södd núna því að þið verðið hungruð. Aumingja þið sem hlæið núna því að þið munuð syrgja og gráta. 26  Aumingja þið þegar allir tala vel um ykkur því að þannig töluðu forfeður þeirra um falsspámennina. 27  En ég segi ykkur sem hlustið á mig: Elskið óvini ykkar og gerið þeim gott sem hata ykkur, 28  blessið þá sem bölva ykkur og biðjið fyrir þeim sem smána ykkur. 29  Ef einhver slær þig á aðra kinnina skaltu bjóða honum hina líka, og taki einhver frá þér yfirhöfnina skaltu ekki neita honum um kyrtilinn heldur. 30  Gefðu öllum sem biðja þig og taki einhver það sem þú átt skaltu ekki biðja um að fá það aftur. 31  Og eins og þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá. 32  Hvaða hrós eigið þið skilið ef þið elskið þá sem elska ykkur? Syndarar elska þá líka sem elska þá. 33  Og hvaða hrós eigið þið skilið ef þið gerið þeim gott sem gera ykkur gott? Jafnvel syndarar gera það. 34  Og hvaða hrós eigið þið skilið ef þið lánið* þeim sem þið reiknið með að endurgreiði ykkur? Jafnvel syndarar lána syndurum því að þeir vænta þess að fá allt endurgreitt. 35  Elskið heldur óvini ykkar, gerið gott og lánið án þess að vænta nokkurrar endurgreiðslu. Þá verða laun ykkar mikil og þið verðið synir hins hæsta því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. 36  Verið miskunnsöm eins og faðir ykkar er miskunnsamur. 37  Hættið að dæma og þið verðið alls ekki dæmd og hættið að fordæma og þið verðið alls ekki fordæmd. Fyrirgefið öðrum og ykkur verður fyrirgefið.* 38  Gefið og fólk mun gefa ykkur. Þið fáið góðan mæli í fangið, troðinn, hristan og kúffullan, því að ykkur verður mælt í sama mæli og þið mælið öðrum.“ 39  Síðan brá hann upp líkingu og sagði: „Varla getur blindur maður leitt blindan. Falla þá ekki báðir í gryfju? 40  Nemandi* er ekki fremri kennara sínum en hver sem er fullnuma verður eins og kennari hans. 41  Hvers vegna horfirðu þá á flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í þínu eigin auga? 42  Hvernig geturðu sagt við bróður þinn: ‚Bróðir, leyfðu mér að taka flísina sem er í auga þínu,‘ þegar þú sérð ekki bjálkann í eigin auga? Hræsnari! Fjarlægðu fyrst bjálkann úr þínu eigin auga, þá sérðu skýrt til að taka flísina sem er í auga bróður þíns. 43  Gott tré ber ekki skemmdan ávöxt né fúið tré góðan. 44  Hvert tré þekkist af ávexti sínum. Menn tína ekki fíkjur af þyrnum né vínber af þyrnirunnum. 45  Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði sínum því að munnurinn talar af gnægð hjartans. 46  Hvers vegna ávarpið þið mig: ‚Drottinn, Drottinn!‘ en gerið ekki það sem ég segi? 47  Ég skal segja ykkur hverjum sá líkist sem kemur til mín, heyrir orð mín og fer eftir þeim: 48  Hann er eins og maður sem byggði hús, gróf djúpt og lagði grunninn á klöpp. Nú kom flóð og vatnsflaumurinn skall á húsinu en það haggaðist ekki því að það var vel byggt. 49  Hver sem hins vegar heyrir orð mín og fer ekki eftir þeim er eins og maður sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Vatnsflaumurinn skall á því og það hrundi samstundis og gereyðilagðist.“

Neðanmáls

Eða „lamaða“.
Eða „lömuðu“.
Eða „sál“.
Eða „hafna ykkur sem illvirkjum“.
Það er, vaxtalaust.
Eða „Sýknið og þið verðið sýknuð“.
Eða „Lærisveinn“.