Jóhannes segir frá 16:1–33

  • Dauðinn gæti blasað við lærisveinum Jesú (1–4a)

  • Verk heilags anda (4b–16)

  • Sorg lærisveinanna mun snúast í gleði (17–24)

  • Jesús sigrar heiminn (25–33)

16  „Ég hef sagt ykkur þetta til að þið hrasið ekki og fallið.  Ykkur verður útskúfað úr samkundunni. Reyndar kemur sá tími að allir sem drepa ykkur halda að þeir veiti Guði heilaga þjónustu.  Þeir gera þetta vegna þess að þeir hafa hvorki kynnst föðurnum né mér.  En ég hef sagt ykkur þetta til að þið munið eftir því þegar kemur að því að það gerist. Ég sagði ykkur þetta ekki upphaflega vegna þess að ég var hjá ykkur.  En nú fer ég til hans sem sendi mig. Enginn ykkar spyr mig þó: ‚Hvert ertu að fara?‘  Þið eruð hryggir í hjarta vegna þess að ég hef sagt ykkur þetta.  En ég segi ykkur satt að það er ykkur til góðs að ég skuli fara. Ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til ykkar en ef ég fer sendi ég hann til ykkar.  Þegar hann kemur mun hann sanna fyrir heiminum hvað er synd, hvað er réttlæti og hvað er dómur:  fyrst hvað er synd því að menn trúa ekki á mig, 10  síðan hvað er réttlæti því að ég fer til föðurins og þið sjáið mig ekki lengur, 11  og að lokum hvað er dómur því að stjórnandi heimsins er dæmdur. 12  Ég hef enn margt að segja ykkur en þið getið ekki meðtekið það núna. 13  En þegar hann* kemur, andi sannleikans, mun hann leiða ykkur í allan sannleikann því að hann talar ekki að eigin frumkvæði heldur það sem hann heyrir, og hann boðar ykkur það sem koma skal. 14  Hann mun upphefja mig því að hann tekur við því sem ég segi honum og boðar ykkur það. 15  Allt sem faðirinn á er mitt. Þess vegna sagði ég að hann* tæki við því sem ég segði honum og boðaði ykkur það. 16  Innan skamms sjáið þið mig ekki lengur en stuttu síðar munuð þið sjá mig.“ 17  Þá sögðu nokkrir af lærisveinunum hver við annan: „Hvað á hann við þegar hann segir: ‚Innan skamms sjáið þið mig ekki en stuttu síðar munuð þið sjá mig,‘ og: ‚því að ég fer til föðurins‘?“ 18  Og þeir sögðu: „Hvað á hann við þegar hann segir: ‚Innan skamms‘? Við vitum ekki um hvað hann er að tala.“ 19  Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði: „Eruð þið að ræða þetta af því að ég sagði: ‚Innan skamms sjáið þið mig ekki en stuttu síðar munuð þið sjá mig‘? 20  Ég segi ykkur með sanni: Þið munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þið munuð syrgja en sorg ykkar mun snúast í gleði. 21  Þegar kona fæðir þjáist* hún vegna þess að tími hennar er kominn en þegar hún hefur fætt barnið gleymir hún þrautunum því að hún gleðst yfir því að mannsbarn er komið í heiminn. 22  Eins er með ykkur. Þið syrgið núna en þið munuð sjá mig aftur. Þá gleðjist þið í hjörtum ykkar og enginn tekur gleðina frá ykkur. 23  Á þeim degi munuð þið ekki spyrja mig neins. Ég segi ykkur með sanni: Ef þið biðjið föðurinn um eitthvað gefur hann ykkur það í mínu nafni. 24  Hingað til hafið þið ekki beðið um neitt í mínu nafni. Biðjið og þið munuð fá þannig að gleði ykkar verði fullkomin. 25  Ég hef sagt ykkur þetta í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki lengur við ykkur í líkingum heldur segi ég ykkur berum orðum frá föðurnum. 26  Á þeim degi biðjið þið til föðurins í mínu nafni. Með því á ég ekki við að ég beri fram bón fyrir ykkar hönd. 27  Faðirinn sjálfur elskar ykkur því að þið hafið elskað mig og trúið að ég hafi komið sem fulltrúi Guðs. 28  Ég kom í heiminn sem fulltrúi föðurins. Nú yfirgef ég heiminn og fer til föðurins.“ 29  Lærisveinarnir sögðu: „Nú talarðu berum orðum en ekki í líkingum. 30  Nú vitum við að þú veist allt og enginn okkar þarf að spyrja þig nokkurs. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði.“ 31  Jesús svaraði: „Trúið þið núna? 32  Sú stund kemur, og er reyndar komin, að þið tvístrist. Þið farið hver og einn heim til ykkar og skiljið mig einan eftir. En ég er ekki einn því að faðirinn er með mér. 33  Ég hef sagt ykkur þetta svo að þið hafið frið fyrir mína tilstuðlan. Þið verðið fyrir mótlæti í heiminum en verið hugrakkir. Ég hef sigrað heiminn.“

Neðanmáls

Fornafnið „hann“ í 13. og 14. versi vísar til „hjálparans“ í 7. versi. Heilagur andi er ópersónulegur kraftur en Jesús persónugerir hann og kallar hann „hjálparann“.
Það er, hjálparinn. Sjá 13. vers, neðanmáls.
Orðrétt „hryggist“.