Bréfið til Hebrea 8:1–13

  • Tjaldbúðin, eftirmynd þess sem er á himnum (1–6)

  • Gamli og nýi sáttmálinn bornir saman (7–13)

8  Kjarni málsins er þessi: Við höfum þess konar æðstaprest og hann hefur sest hægra megin við hásæti hátignarinnar á himnum.  Hann þjónar* í hinu allra helgasta í hinni sönnu tjaldbúð* sem Jehóva* reisti en ekki maður.  Sérhver æðstiprestur er skipaður til að bera fram bæði fórnargjafir og sláturfórnir, og það var því líka nauðsynlegt að þessi æðstiprestur hefði eitthvað til að bera fram.  Ef hann væri á jörðinni væri hann ekki prestur því að þar eru nú þegar menn sem bera fram fórnargjafir samkvæmt lögunum.  Þessir menn veita heilaga þjónustu sem er eftirmynd og skuggi þess sem er á himnum. Þetta má líka sjá af þeim fyrirmælum sem Guð gaf Móse þegar hann átti að reisa tjaldbúðina.* Hann sagði: „Gættu þess að gera allt eftir þeirri fyrirmynd sem þér var sýnd á fjallinu.“  En nú hefur Jesús fengið enn háleitari þjónustu* því að hann er auk þess milligöngumaður betri sáttmála sem er löggiltur með betri loforðum.  Ef fyrri sáttmálinn hefði verið óaðfinnanlegur hefði ekki verið þörf fyrir annan.  En hann finnur að fólkinu þegar hann segir: „‚Þeir dagar koma,‘ segir Jehóva,* ‚þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn.  Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við forfeður þeirra daginn sem ég tók í hönd þeirra og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir héldu ekki sáttmála minn og ég hætti því að annast þá,‘ segir Jehóva.* 10  ‚Þetta er sáttmálinn sem ég geri við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir,‘ segir Jehóva.* ‚Ég legg lög mín í huga þeirra og skrifa þau á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða fólk mitt. 11  Enginn þeirra mun þá lengur kenna samlanda sínum eða bróður og segja: „Kynnstu Jehóva,“* því að þeir munu allir þekkja mig, jafnt smáir sem stórir meðal þeirra. 12  Ég mun fyrirgefa þeim það ranga sem þeir hafa gert og ekki minnast synda þeirra framar.‘“ 13  Með því að tala um „nýjan sáttmála“ gefur hann til kynna að sá fyrri sé úreltur. Það sem er að úreldast og fyrnast er við það að hverfa.

Neðanmáls

Eða „þjónar í þágu almennings“.
Orðrétt „hinu sanna tjaldi“.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „tjaldið“.
Eða „þjónustu í þágu almennings“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.